© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
   
3.12.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Forgangsröðun lífsgæða
Grunnþarfir Íslendinga hafa tekið miklum breytingum í áranna rás. Vitaskuld eru þarfir um fæðu, húsnæði og svefn sígildar og óhjákvæmilegar, en eðli þeirra hefur þó tekið talsverðum breytingum. Fæði er nú selt nánast matreitt, húsnæði er ekki lengur bara þak yfir höfuðið og þörf fyrir svefn og hvíld er ekki lengur fólgin í einföldum nætursvefni.

Ég hygg að flestir séu sammála því að til að uppfylla grunnþarfirnar þá sé lífsmynstri forgagnsraðað á þann hátt að nám og starf hefur forgang umfram afþreyingu og félagslega neyslu. Menn eigi að sinna skóla og vinnu áður en þeir leyfa sér að stunda t.d. íþróttir og listir. Sú félagslega neysla er í eðli sínu fylling til að auka lífsánægju fremur en að uppfylla grunnþarfir einstaklinganna.

Hið sama á við um fjölskyldu. Ég hygg að flestir séu sammála um að þarfir fjölskyldunnar eigi að hafa forgang umfram félagslega afþreyingu. Ef til vill er það miður að svo er ekki í mörgum tilvika, og eflaust má finna mörg dæmi þess að menn nái ekki að sinna nægilega vel fjölskyldu sinni og barnauppeldi vegna þátttöku í félagslegri starfsemi.

Það sem ég er að segja með öðrum orðum er að ef menn ná ekki að samræma íþróttaiðkun við nám og starf, fjölskyldu og barnauppeldi, þá eigi iðkun íþrótta að víkja. Þótt ég sé með þessu e.t.v. að færa rök gegn þátttöku í íþróttum þá tel ég jafnframt að þessi afstaða feli í sér ábyrga uppbyggingu á íþróttahreyfingunni sem góðum valkosti fyrir þegna sína – einmitt vegna þessarar samfélagslega ábyrgu forgangsröðunar.

Ýmis listastarfsemi býr við betri aðstæður en íþróttir að því leyti að þátttakendur þurfa ekki að forgangsraða þar sem áhugamálið er jafnframt aðalatvinna viðkomandi. Þannig má auðvitað sjá fyrir sér hina fullkomnu samræmingu við gildi náms, starfs og fjölskyldu í því formi að viðkomandi íþróttamaður sé atvinnumaður á því sviði. Þau undantekningartilvik eru ekki til umfjöllunar hér.

Nútíma samfélag gerir í auknum mæli kröfur um að börn okkar séu alin upp á stofnunum og uppeldisþátturinn hefur að hluta til flust frá foreldrum til sérfræðinga og opinberra aðila. Með því að byggja upp ábyrga afstöðu til grunnþarfa einstaklinganna og með því að virða mikilvægustu stofnanir samfélagsins – fjölskyldurnar – þá sköpum við grundvöll til þess að eiga samstarf við þjóðina um íþróttahreyfingina sem ákjósanlegan valkost fyrir félagslegt uppeldi barnanna – að því marki sem uppeldið skuli á annað borð fara fram utan veggja heimilisins.

Rannsóknir dr. Þórólfs Þórlindssonar fyrir rúmum áratug, sem sýna fram á skýrt samhengi á iðkun íþrótta gagnvart félagslegum þáttum, eru lýsandi dæmi um það að iðkun barna á íþróttum bætir skipulagningu þeirra á tíma sínum. Auk þess að iðkun íþrótta leiðir til færri félagslegra vandamála og til betri árangurs í námi þá getur iðkun íþrótta frá barnsaldri samkvæmt þessari rannsókn jafnframt gert einstaklingum kleyft að auka afköst sín og getu sína í námi og starfi. Það hlýtur að vera ákjósanlegt að geta uppfyllt grunnþarfir sínar, lifað heilbrigðu og heilsusamlegu lífi, og jafnframt uppfyllt félagslegar þarfir á borð við iðkun íþrótta.

Það sem óneitanlega stendur íþróttahreyfingunni fyrir þrifum til þess að verða þessi ákjósanlegi valkostur er fyrst og fremst fjárskortur og innra skipulag hreyfingarinnar. Stjórnun hreyfingarinnar er að stóru leyti byggð á framlagi sjálfboðaliða sem staldra gjarnan stutt við og ná vart að sinna öðru en einföldum skipulagsstörfum við að halda starfseminni gangandi. Annað vandamál hreyfingarinnar er skortur á heildstæðri stefnu að þessu leyti, og fjöldi ósamstæðra smárra eininga innan hreyfingarinnar.

Undirritaður hefði viljað sjá einingar innan hreyfingarinnar sameinast, og móta sterka stefnu til lengri tíma um að gera íþróttir að fyrsta valkosti þegnanna til félagslegrar afþreyingar til fyllingar grunnþörfum sínum. Þetta byggist á framangreindu viðhorfi hreyfingarinnar um að viðurkenna stöðu sína í forgangsröðun lífsgæðanna, jákvæðri ímynd og heilbrigðum gildum sem höfða til uppeldisviðhorfa foreldra, og síðast en ekki síst með framboði faglegra leiðbeinenda í uppbyggilegu umhverfi.

Skilaboð mín eru fyrst og fremst þau að íþróttahreyfingin má ekki gera kröfur sem stangast á við þarfir skóla, vinnuveitenda og fjölskyldna iðkenda. Það er okkar að aðlaga starfsemina að þeim takmörkum.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.







Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Einar Matthíasson leikmaður KFR tekur skot á körfuna.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið