S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
|||||
3 |
4 |
5 |
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
26.11.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Íþróttir og landsbyggðin
Ég hef mínar persónulegu skoðanir á því hvernig sporna skuli við fólksflótta af landsbyggðinni. Það er ekki efni þessa pistils að reifa þær skoðanir, heldur að ræða tengsl íþróttahreyfingarinnar við byggðastefnu á Íslandi. Ungt fólk í dag gerir miklar kröfur. Ungt fólk í dag hefur metnað til að sækja sér menntun – hvort sem það er á sviði akademískra fræða eða handverks. Ungt fólk í dag gerir jafnframt kröfur til þess að samfélagið sem það býr í uppfylli tiltekin lágmarksskilyrði þjónustu og menningar. Sem dæmi um slíkt má nefna aðgang að leikskólum, lágmarksframboð á almennum lífsnauðsynjum, og ennfremur að geta sinnt félagslegum þörfum sínum. Menning – íþróttir og listir – eru félagslegar þarfir sem ungt fólk í dag gerir kröfu til að séu til staðar í því samfélagi sem það býr í. Ef sveitarfélag getur ekki boðið upp á viðunandi starfsemi á þessum vettvangi þá hefur slíkt óneitanlega áhrif á það hvort ungt fólk, sem e.t.v. hefur sótt nám utan sveitarfélagsins, kýs að koma til baka til varanlegrar búsetu. Smærri sveitarfélög verða að skapa íbúum sínum aðstöðu til aðgangs að íþróttum, hvort sem um er að ræða iðkun til heilsueflingar eða æfingar til keppni. Jafnframt er mikilvægt að til staðar sé kapplið eða afreksmenn á staðnum sem íbúarnir geta sameinast um að hvetja á góðum degi. Að því leyti er enginn munur á þjóð eða sveitarfélagi, landsliði eða félagsliði – fátt er jafn mikið sameiningartákn eins og góður árangur íþróttafólksins sem menn sameinast um að hvetja til dáða. Til þess að skapa framangreind skilyrði þurfa allir að leggjast á eitt. Ég hef áður rætt um starfsemi íþróttabandalaga og héraðssambanda á landsbyggðinni, svo og starfsemi Ungmennafélags Íslands. Hið sama á við um ýmis sérsambönd innan ÍSÍ – þau eru sum með mikla starfsemi á landsbyggðinni. Það á við um Körfuknattleikssamband Íslands. Nauðsynlegt er að allir séu opnir fyrir lausnum sem líta til markmiðanna fremur en að menn festist í farvegi persónugerðra valdastóla sem sannarlega getur þurft að fórna fyrir markmið grasrótarinnar. Menn verða að ræða sameiningarferli þar sem það á við og kanna hvort stærri einingar geti unnið öflugra starf. Koma þarf í veg fyrir tvíverknað, sem ég hygg að sé alltof algengur þar sem hver er að vinna í sínu horni. Ég tel æskilegt að forysta Íþróttahreyfingarinnar myndi hafa frumkvæði að könnun eða málþingi þar sem öllum viðkomandi aðilum yrði boðið til að greina þetta málefni og koma með tillögur að lausnum og sóknarfærum. ÍSÍ, UMFÍ, íþróttabandalög og héraðssambönd, sérsambönd og síðast en ekki síst hið opinbera – bæði sveitarfélög og ríkisvald – þurfa að leggjast á eitt. Sóknarfæri á landsbyggðinni eru ekki einkamál einstakra sveitarfélaga sem standa höllum fæti. Það eru hagsmunir allrar íþróttahreyfingarinnar, og já samfélagsins í heild, að íþróttir og önnur menningarstarfsemi geti starfað sjálfstætt og standi traustum fótum alls staðar á landinu. Í ræðu minni á ársþingi KKÍ í vor gat ég þess að Ísland væri Ísafjörður Evrópu. Í alþjóðlegu samstarfi finnum við mikið fyrir smæð okkar og fjarlægð. Allir vilja hafa okkur með, allir eru ánægðir með það starf sem við erum að vinna, og allir telja nauðsynlegt að stundaðar séu íþróttir í öllum ríkjum. En fæstir vilja koma hingað á eigin kostnað eða úthluta mótum til landsins. Í körfuknattleik hafa undanfarna áratugi stöðugustu tölur um fjölda áhorfenda einmitt verið á landsbyggðinni. Staðir á borð við Sauðárkrók, Ísafjörð, Stykkishólm og Borgarnes hafa t.a.m. verið afar traust vígi að þessu leyti, og reyndar má bæta við stöðum á borð við Hveragerði og Suðurnesin ef menn vilja líta þrengra á Höfuðborgarsvæðið sem andstæðu landsbyggðar. Jafnvel í 2. deild eru gjarnan kappleikir þar sem áhorfendur skipta hundruðum. Innan körfuknattleikshreyfingarinnar hefur ávallt verið umræða um kosti og galla þess að reka kapplið á landsbyggðinni eða Höfuðborgarsvæðinu. Sú staðreynd sem allir eru sammála um er að ferðakostnaður liða af landsbyggðinni er í öllum tilvikum verulega hærri – þótt að einhverju leyti hafi verið unnt að koma til móts við slíkt með svæðisbundnum keppnum í neðri deildum og yngri aldursflokkum. Það er mat undirritaðs að ferðakostnaður landsbyggðarliða sé byggðamál sem hið opinbera eigi að koma að með myndarlegum hætti. Ef litið er til fyrirgreiðslu Byggðastofnunar í gegnum tíðina þá hefur hún einskorðast við atvinnustarfsemi. Ef tilgangur stofnunarinnar á að vera að skapa jöfnun lífsskilyrða og sporna við fólksflótta þá hygg ég að skynsamlegt væri að líta til menningarþátta á borð við íþróttir og listir. Það er mín skoðun að endurheimtur slíkra fjárveitinga yrðu hlutfallslega meiri en til frjálsrar atvinnustarfsemi. Á hinn bóginn hafa heyrst sjónarmið um auðveldari stöðu landsbyggðarfélaga við að afla fjár. Áður hefur verið minnst á þá staðreynd að áhorfendafjöldi hefur jafnan verið þar meiri, þrátt fyrir smæð sumra samfélaganna. Atvinnufyrirtæki líta e.t.v. fremur á félagið í sínu landsbyggðarsveitarfélagi sem “sitt félag” og tekur þátt í að gera viðskiptasamninga eða jafnvel veita styrki á grundvelli þess, á meðan fyrirtæki í Breiðholtinu styrkja ekki endilega ÍR eða fyrirtæki í Austurbænum styrkja ekki endilega Val. Að lokum vil ég geta þess að þegar félög innan körfuknattleikshreyfingarinnar koma saman til að skiptast á hugmyndum um fjáraflanir þá kemur gjarnan í ljós að leikmenn og stjórnarmenn virðast almennt vera reiðubúnari til að leggja á sig vinnu í þágu félagsins á landsbyggðinni en félagsins á höfuðborgarsvæðinu. Leikmenn hengja upp auglýsingaspjöld og dreifa í hús, og stunda jafnvel óhefðbundnar fjáraflanir. Mín skilaboð eru þau að standa vörð um íþróttastarf allsstaðar á landinu. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ. |