© 2000-2022 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
   
19.11.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Klofin íþróttahreyfing
Íslensk íþróttahreyfing er í sjálfu sér ungt fyrirbæri, og ekki mjög þróað í samanburði við nágrannaríki – þótt sannarlega hafi margt gerst á síðustu áratugum. Ýmsar einingar hafa smám saman verið skilgreindar, að hluta eða öllu leyti. Má þar m.a. vísa til fyrri pistla minna um stofnun sérsambanda um einstakar íþróttagreinar, en einnig má nefna til sögunnar t.d. sameiningu Ólympíunefndar Íslands og ÍSÍ.

Ein er sú stofnun sem snýr að verulegu leyti að skipulagi og framkvæmd íþrótta á Íslandi sem verður að teljast elsta og að ýmsu leyti virðingarmesta stofnunin á því sviði. Er þar um að ræða Ungmennafélag Íslands, sem stofnað er á sömu göfugu gildum og íþróttahreyfingin, en var á vissan hátt byltingarkenndari við boðun þeirra gilda sem brautryðjandi hinna félagslegu gilda harðduglegrar vinnandi þjóðar sem í sveita síns andlits lærði að meta ný lífsviðhorf og gildismat við stofnun UMFÍ.

Á meðan íhaldssemi og forn gildi UMFÍ eru e.t.v. sterkasta karaktereinkenni þeirrar hreyfingar þá er það á sama tíma að nokkru leyti hennar helsti dragbítur í nútíma samfélagi. Í framkvæmd er yfirgnæfandi hluti hreyfingarinar starfandi íþróttafélög sem reka sitt starf nær eingöngu í gegnum mótahald ÍSÍ – e.t.v. því miður, því sannarlega þyrfti að blása upprunalegum gildum UMFÍ byr í brjóst. Þau eru hluti af uppruna þjóðarinnar.

Nauðsynlegt er í þessu samhengi að minnast á landsmót UMFÍ sem eru með glæsilegum hætti haldin þriðja hvert ár. Auk þess að vera n.k. Ólympíuleikar Íslands þá hafa þau þá sérstöðu að þar er keppt í menningarsögulegum atvinnugreinum sem eru afar þjóðlegar s.s. pönnukökubakstri og dráttarvélaakstri. Segja má með sanni að þar fari einu raunverulegu atvinnumenn Íslands í keppnisgreinum. Ekki má heldur gleyma þeim þætti landsmótsins sem felst í samstarfi við sveitarfélög mótshaldara um glæsilega uppbyggingu íþróttamannvirkja – allri íþróttahreyfingunni til hagsbóta.

Talsverð umræða hefur orðið á undanförnum árum um stöðu UMFÍ, og hugsanlega hvort sameina ætti hreyfinguna ÍSÍ. Rök fyrir slíku hafa verið talin m.a. fjárhagsleg hagræðing, nauðsynleg samræming á framkvæmd íþróttastarfs á Íslandi og síðast en ekki síst að koma í veg fyrir ójafnræði til aðildarfélaga við úthlutun lottóstyrkja – en eins og flestum er kunnugt þá eru bæði ÍSÍ og UMFÍ sjálfstæðir aðilar að Íslenskri Getspá, og félög innan UMFÍ njóta styrkja frá báðum hreyfingunum.

Undirritaður tók að nokkru þátt í nefndum sem unnu að viðræðum þessara hreyfinga fyrir nokkru, og þótt ég sé sannarlega alinn upp í „ÍSÍ-armi“ íþróttahreyfingarinnar þá einsetti ég mér að mæta til þeirra viðræðna með opnum huga, án fyrirframgefinnar skoðunar, og ákveðinn í að hlusta á öll sjónarmið aðila – ekki síst með það fyrir augum að kynnast starfsemi UMFÍ betur. Það verður að viðurkennast að þekking mín á því sviði taldist fremur aumkunarverð með hliðsjón af löngum ferli í stjórnunarstörfum innan vébanda íþróttahreyfingarinnar.

Viðræður aðila voru vissulega ánægjulegar og fróðlegar. Sérstaklega minnist ég með þakklæti fræðslufundar sem ég var boðaður til í höfuðstöðvum UMFÍ, og var mér afar gagnlegur. Ég hef ekki orðið var við annað en að hjá UMFÍ starfi og stjórni vandað fólk með mikinn metnað fyrir hönd íslenskra ungmenna.

Ég ætla hinsvegar ekki að neita því að það olli mér nokkrum vonbrigðum, og reyndar undrun, þegar einstakir fyrirsvarsmenn innan UMFÍ lýstu því yfir án frekari tilrauna að sameining við ÍSÍ kæmi ekki til greina. Persónulega hafði ég ekki algerlega gert upp hug minn um það hvort slík sameining væri af hinu góða – en vinnuhópar sem myndu kryfja þau mál til mergjar myndu gefa okkur sem í hreyfingunni störfum a.m.k. réttar forsendur til að móta okkar afstöðu.

Ekki hef ég fengið mjög haldbær rök fyrir svo fyrirframgefinni niðurstöðu – ég er a.m.k. ekki nægilega vel upplýstur til að taka þá ákvörðun f.h. þeirra samtaka sem ég starfa fyrir – en rök varðandi það að landsbyggðin myndi líða fyrir slíka sameiningu sárna mér nokkuð sem aðila starfandi innan Körfuknattleikssambands Íslands. Starf okkar hefur verið afar blómlegt á landsbyggðinni, og undirrituðum e.t.v. oftar legið á hálsi fyrir að draga taum landsbyggðarinnar umfram höfuðborgarsvæðið.

Í fyrri pistli hef ég ritað m.a. um samstarf sérsambanda og héraðssambanda, og brýna þörf fyrir öfluga samstarfsaðila á landsbyggðinni til þess m.a. að starfa með KKÍ við uppbyggingu og framkvæmd íþróttastarfsins. Að mínu mati er skortur á samstarfi og skortur á nægilega öflugum aðilum afar eðlislík orsök fólksflótta af landsbyggðinni, þ.e. einingarnar sem þar eru til staðar eru í mörgum tilvikum ekki nægilega öflugar til þess að mæta öllum þörfum nútímasamfélags – og ungmenna nútímans. Vissulega er athugunarvert hvort sameining ÍSÍ og UMFÍ gæti skapað sóknarfæri á þessu sviði.

Að því er varðar þá starfsemi ungmennafélaga sem lýtur að öðru en íþróttastarfi, s.s. leiklist, þá fæ ég ekki komið auga á hvað kemur í veg fyrir að slíkt starf myndi eftir sem áður geta þrifist innan vébanda sama félags og það gerir í dag þótt það félag sé einungis aðili að einum heildarsamtökum í stað tveggja – svo fremi raunveruleg þörf sé til staðar í viðkomandi héraði til þess að uppfylla slíkar þarfir.

Að því er varðar landsmót UMFÍ þá fæ ég heldur ekki komið auga á hvað ætti að koma í veg fyrir að sameinuð samtök myndu – jafnvel með glæsilegri hætti – standa að slíkri hátíð. Hafa ber í huga að UMFÍ hefur ekki á að skipa ýmsum úrræðum við framkvæmd íþróttamóta á slíkum hátíðum, s.s. agaviðurlögum – nema e.t.v. jú að dæma menn í keppnisbann á næsta landsmóti – sem líklega yrði þá gleymt og grafið. Dómgæsla hefur verið útveguð af sérsamböndum innan vébanda ÍSÍ, og þá eru ónefnd atriði á borð við lyfjaeftirlit o.s.frv. Ég verð að segja eins og er að mér finnst „Ólympíuleikar Íslands“ afar heillandi verkefni undir merkjum sameinaðrar hreyfingar. Það er að mínu mati engin ástæða til að óttast framhald „landsmótsins“.

Eflaust vantar mig töluvert af rökum gegn sameiningu ÍSÍ og UMFÍ – en eins og ég sagði þá er sá skortur af rökræðu og upplýsingum sem ég tel algera forsendu fyrir því að menn taki upplýsta ákvörðun.

Þá vek ég athygli á því að menn eru e.t.v. fastir í sameiningarhugtakinu. Í þessu samhengi tel ég að í stað sameiningar eigi menn einnig að opna þann möguleika að ræða aðskilnað íþróttahluta UMFÍ frá annarri starfsemi þess – ef slíkt reynist vera í þágu ungmennastarfs landsins og jafnræðis þeirra félagasamtaka sem að málum koma. Vitaskuld yrði samhliða því að skipta upp fjárhagslegum tekjustofnum UMFÍ til samræmis við umfang hvers þáttar innan þeirra vébanda.

Ég skora á fyrirsvarsmenn UMFÍ að efla viðræður við ÍSÍ um sameiningu (eða skilgreiningu á „aðskilnaði“ íþróttahluta starfsemi UMFÍ). Látum niðurstöðu þeirrar upplýsingarvinnu vera þann grundvöll sem er íslenskum ungmennum fyrir bestu, og að sú upplýsingavinna skili lýðræðislegum niðurstöðum allt til grasrótar hreyfinganna beggja. Þótt ég neiti enn að vera sannfærður sameiningarsinni þá hlýt ég – a.m.k. enn sem komið er – að byggja á þeim rökum sem ég þekki best.

Við hvað eru menn annars hræddir?

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Jón Arnór Stefánsson er hér er í leik með landsliði Íslands gegn Svartfjallalandi í Laugardalshöllinni 17. september 2008
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið