S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
||
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
31 |
12.11.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - HÉRAÐSSAMBÖND OG SÉRSAMBÖND
Héraðssambönd og íþróttabandalög má að ýmsu leyti skilgreina með sama hætti og sveitarfélög í almennu samfélagi, þ.e. þau annast allar íþróttagreinar á tilteknu skilgreindu landssvæði – nokkuð með sama hætti og sveitarfélög starfa í hinu almenna samfélagi. Sérsambönd má á hinn bóginn skilgreina sem landseiningar, samtök um tiltekna íþróttagrein á landsvísu – nokkuð með sama hætti og ráðuneyti, eða enn frekar ríkisstofnanir, í hinu almenna samfélagi. Þetta eru þó almennar samlíkingar, sem ekki ber að taka nánar en sem slíkar. Allir geta gert sér í hugarlund hversu mikil mótsögn væri fólgin í því að sveitarfélag myndi taka upp á því að reka sjálfstæða utanríkisstefnu í tilteknum málaflokki þvert á hlutverk ríkisstofnunar, og með sama hætti þá væri óeðlilegt ef ríkisstofnun færi að blanda sér í innbyrðis málefni sveitarfélags, svo sem með því að hafa bein og sértæk afskipti af lagningu gangstétta eða rekstri leikskóla, svo dæmi séu tekin. Þessu má þó líkja við árekstur hlutverka héraðssambanda og sérsambanda. Í upphafi var allt mótahald íþróttagreina í gegnum héraðssambönd og íþróttabandalög, en með stofnun sérsambanda þá skaraðist hlutverk aðila óhjákvæmilega. Án efa hefur þetta fyrirkomulag liðið fyrir þá staðreynd að aldrei hefur með nokkrum hætti verið skipulega tekið á skilgreiningu hlutverka hvors þáttar um sig – utan þess að nokkur umræða varð um málið í tengslum við endurskipulagningu íþróttahreyfingarinnar við sameiningu ÍSÍ og Ólympíunefndar Íslands fyrir nokkrum misserum. Í dag er staðreyndin sú að íþróttastarf á Íslandi fer að langstærstu leyti fram innan íþróttafélaga í gegnum viðkomand sérsambönd. Mótahald á vegum héraðssambanda hefur verið hverfandi undanfarin ár, en þó vissulega verið með talsverðum blóma hjá sumum allra stærstu héraðssamböndunum. Öll sérhæfing á framkvæmd hins raunverulega íþróttastarfs hefur þó átt sér stað innan vébanda sérsambandanna, s.s. skipulagning leikreglna, dómara og agaviðurlaga, afreksstefna landsliða og auk þess meira og minna allt fræðslu- og útbreiðslustarf í tengslum við t.d. menntun þjálfara o.s.frv. Hefur þessi hagsmunaárekstur skapað viss vandamál, svo sem hvernig fara skuli með agaviðurlög í mótum á vegum héraðssambanda sem ekki hafa haft yfir að ráða kerfi til að taka á slíku. Sem dæmi má nefna að fyrir fáeinum árum voru til staðar 4-5 dómsstig innan íþróttahreyfingarinnar, bæði innan héraðssambanda, sérráða og sérsambanda, auk ÍSÍ sjálfs. Nokkur ógjörningur var að skilja hvernig það kerfi virkað, hvar skyldi höfða dómsmál, og hvert skyldi skjóta málum á milli hliðsettra dómstóla þessara tveggja mismunandi kerfa. Úr þessu hefur verið bætt með myndarlegum hætti, og hefur náðst málefnalegt samkomulag um að útrýma dómstólum héraðssambandanna, sem í reynd höfðu orðið lítinn annan tilgang en að draga niðurstöðu mála á langinn. Sérþekkingin var hvort eð er til staðar hjá hverju sérsambandi fyrir sig. Persónulega átti ég sæti í slíkum dómstól héraðssambands í rúmlega áratug, og komu gjarnan upp ankannaleg tilvik þar sem t.d. aðilar skipaðir frá körfuknattleiksfélagi, handknattleiksfélagi og badmintonfélagi fengu til úrlausnar deilumál úr siglingakeppni þar sem reyndi á verulega mikla sérþekkingu á sviði reglna þeirrar íþróttagreinar. Vitaskuld yrði niðurstaðan aldrei vandaðri heldur en hjá sérstökum dómstóli Siglingasambands. Hafa ber í huga að sérsambönd á Íslandi eru byggð upp með aðild héraðssambanda, og því hafa þau sem slík fullkomið formlegt vald yfir allri íþróttahreyfingunni. Þing sérsambanda eru byggð upp á fulltrúum frá héraðssamböndunum en ekki frá félögum sem í reynd sinna starfinu sem að viðkomandi íþróttagrein snýr. Hefur þetta fyrirkomulag stundum komið fram með einkennilegum hætti, og þarf að breyta. Erlendis er að finna afar ólík kerfi, einkum þar sem héraðssambönd virka sem n.k. framlenging af hverju sérsambandi fyrir sig. Varðand t.d. körfuknattleik þá er ráðandi það fyrirkomulag að héraðssambönd séu á vegum körfuknattleikssambanda viðkomandi ríkja, sem annast svæðisbundin mót en landsúrslit eru síðan á hendi sérsambandsins. Þetta fyrirkomulag byggir vitaskuld á mun stærri samfélögum en er að finna hér á landi Undirritaður hefur haft mikinn áhuga á auknu samstarfi héraðssambanda og sérsambanda að þessu leyti, og reyndar ritaði ég öllum héraðssamböndum og íþróttabandalögum bréf fyrir 1-2 árum síðan þar sem spurt var um stöðu körfuknattleiks á viðkomandi svæði og óskað eftir samstarfi um uppbyggingu körfuknattleiks á svæðinu. Einungis bárust tvö svör við fyrirspurninni, og í reynd einungis eitt sem laut verulega efnislega að fyrirspurninni (það má koma fram hér að það var HSK). Þetta segir e.t.v. nokkuð um vangetu héraðssambanda til þess að sinna fyrrgreindu hlutverki. Engu að síður tel ég héraðssambönd hafa afar mikilvægu hlutverki að gegna, sbr. fyrri pistil um samstarf íþróttarheyfingarinnar við sveitarfélögin. Á hinn bóginn er ljóst að héraðssambönd á Íslandi þurfa að stækka verulega, og sameinast ti þess að verða starfhæfar einingar sem uppfyllt geta kröfur nútímasamfélags og stöðu íþróttanna í því samfélagi. Eflaust geta sérsamböndin hvert um sig tekið verulega til í sínum eigin garði, en samkvæmt framangreindu telur undirritaður hinsvegar nauðsynlegt að héraðssambönd sameinist og stækki, að hlutverkaskipti héraðssambanda og sérsambanda verði skilgreind betur, og síðast en ekki síst að samstarf þessara aðila um skipulagsatriði hvors um sig verði aukið Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ |