© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
5.11.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Framlög, ekki styrkir
Undanfarið hefur í leiðurum þessum verið rætt um bága stöðu íþróttahreyfingarinnar miðað við ýmsar aðrar stofnanir samfélagsins, og velt upp samskiptaflötum hreyfingarinnar við hið opinbera í víðu samhengi. Hefur undirritaður lýst þeirri skoðun sinni að berjast þurfi fyrir almennri hugarfarsbreytingu samfélagsins gagnvart íþróttum og því grasrótarstarfi sem þar fer fram. Pistli þessum er ætlað að fjalla um eitt grundvallaratriða slíkrar hugarfarsbreytingar, en það er sú afstaða að líta á fjárveitingar til íþrótta sem framlög en ekki styrki.

Styrkir eru í eðli sínu fólgnir í því að láta af hendi fé vegna neyðar eða til styrktar góðum málstað. Ekki er ætlast til endurgjalds í formi verðmæta, enda endurspeglar styrkur fremur ímynd og góðan vilja gefandans. Vissulega má til sanns vegar færa að íþróttahreyfingin hafi hlotið margvíslega styrki í gegnum tíðina, og hefur undirritaður m.a. rökstutt breytt viðhorf tengsla viðskiptalífsins við íþróttahreyfinguna að þessu leyti. Slíkir styrkir eru hinsvegar hverfandi í dag – íþróttahreyfingin nýtur almennt ekki lengur styrkja.

Innan íþróttahreyfingarinnar er unnið ómælt starf sem aldrei hefur verið lagður verðmiði á – sjálfboðaliðsstarf sem liggur til grundvallar uppeldis- og forvarnarstarfi í samfélaginu sem flestir taka sem sjálfsagðan hlut, einkum þeir sem ekki hafa þar lagt hönd á plóginn. Stjórnmálamenn og fyrirmenn þjóðarinnar keppast á hinn bóginn um það á tyllidögum að hrósa þessu starfi og lýsa mikilvægi þess fyrir þjóðina.

En getur íþróttahreyfingin virkilega setið aðgerðarlaus gagnvart því hugarfari að þetta sé í reynd byggt á ölmusu og góðvilja hins opinbera? Er ekki orðið tímabært að fara að líta á fjárveitingar til íþróttastarfs sem framlag fyrir ríkt endurgjald í formi betra og heilbrigðara samfélags, auk margvíslegs beins og óbeins sparnaðar fyrir þjóðina í heild sinni. Hættum að kalla þetta styrki. Hættum að líta á okkur sem ölmusuþega, með endalaust þakklæti fyrir hverja krónu sem að okkur er rétt. Sýnum meiri reisn og virðingu fyrir okkar eigin störfum.

Fyrrgreind hugarfarsbreyting kemur ekki af sjálfu sér, og að henni munu ekki standa neinir aðrir en íþróttahreyfingin sjálf. Fyrst þarf íþróttahreyfingin að taka til í eigin garði. Útrýma þarf leifum af óábyrgri meðferð fjár, gera stjórnkerfi hreyfingarinnar skilvirkara, gegnsærra og lýðræðislegra alveg niður í grasrótina. Síðast en ekki síst þurfum við að sýna og sanna með áþreifanlegum hætti framlag íþróttarhreyfingarinnar til samfélagsins. Við þurfum að sýna samfélaginu fram á að íþróttahreyfingin er rekin af ábyrgð, og gefur auk þess til baka margfalt hverja krónu sem lögð er til hennar.

Eitt megineinkenni umræðu á pólitískum vettvangi undanfarin misseri hefur snúist um það hversu erfiðlega gengur að hafa bönd á aukningu opinberra útgjalda. Gildir þar einu hvort um er að ræða menntakerfi eða heilbrigðiskerfi, sveitarfélög eða ríkisvald. Gildir jafnframt einu þótt við völd hafi verið ríkisstjórn með eitt af mest áberandi markmiðum sínum að draga úr ríkisútgjöldum. Staðreyndin er sú að sjaldnast er ráðist að rótum vandans, heldur virðast útgjöld hins opinbera iðulega snúast um að slökkva elda, að bregðast við aðsteðjandi vanda í samfélaginu fremur en að koma í veg fyrir að vandinn myndist.

Ég myndi vilja sjá íþróttahreyfinguna leggja í faglegt starf við úttekt á framlagi íþróttahreyfingarinnar til samfélagsins. Hversu mikið sparar hreyfingin kostnað í heilbrigðiskerfinu? Hversu mikið sparar hreyfingin hinu opinbera í formi minni útgjalda til félagslegra málefna? Hversu mikinn þátt á íþróttahreyfingin í betri einstaklingum sem koma út úr menntakerfinu – og vísa ég þá sérstaklega til rúmlega 10 ára gamalla athyglisverðra rannsóknar dr. Þórólfs Þórlindssonar um skýrt samhengi íþróttaiðkunar við betri félagslega þætti barna og unglinga.

Íþróttahreyfingin sparar ekki einungis útgjöld hins opinbera, heldur skapar jafnframt tekjur, því ekki má gleyma þeirri miklu veltu sem fer í gegnum íþróttahreyfinguna og skilar sér til atvinnulífsins í ýmsu formi. Gríðarlegur fjöldi ferðast á vegum hreyfingarinnar innan lands og utan, hótel og matsölustaðir njóta góðs af alþjóðlegum mótum sem hér eru haldin, prentsmiðjur og ýmsir heildsalar hafa mikla veltu af starfsemi hreyfingarinnar og svo mætti lengi telja. Allt skapar þetta veltu í samfélaginu, og síðast en ekki síst veltuskatta til hins opinbera. Ég er sannfærður um að ef það dæmi er reiknað til enda þá hallar verulega á íþróttahreyfinguna – og þá er útgjaldasparnaðurinn ótalinn.

Við slíka úttekt verður þó auðvitað að telja til bæði kosti og galla. Að öðrum kosti yrði hún aldrei trúverðug. Þannig verður vitaskuld að taka tillit til þess að íþróttaslys og meiðsli kosta þjóðfélagið eitthvað, ríkisvaldið tapar sannarlega tekjum vegna minni tóbaks- og áfengissölu (hversu kaldhæðnislega sem það annars hljómar) o.s.frv. Reikna þarf fjármagnskostnað af mannvirkjum sem sérhæft eru byggð til nýtingar í íþróttastarfi án tengsla við skólastarf o.s.frv.

Undirritaður er sannfærður um að íþróttahreyfingin býr yfir afli og lausnum sem samfélagið hefur aldrei þurft jafn mikið á að halda og einmitt í dag. Fíkniefni flæða yfir landið, agaleysi og skortur á félagslegum lausnum leiða til skemmdarstarfsemi og líkamsmeiðinga, heilbrigði þjóðarinnar fer hrakandi með offituvandamálum strax á barnsaldri og kostnaðarsömum sjúkdómum sem eru bein afleiðing þess.

Enginn skyldi þó lifa í þeirri draumaveröld að íþróttahreyfingin búi yfir einhverjum allsherjarlausnum sem útrýma vandamálum samfélagsins. Hinsvegar býr hún yfir tækjum og tólum sem eru stórkostlega vannýtt til verulegrar minnkunar þessara vandamála, og hefur það auk þess framyfir mörg önnur úrræði hins opinbera að ráðast að rót vandans í stað þess að bregðast við núverandi vandamálum. Meginatriðið er að byrja á því að breyta hugarfari samfélagsins til íþróttahreyfingarinnar. Hættum að tala um styrki og viðurkennum nauðsyn á fjárframlögum til íþróttahreyfingarinnar.

Fyrir síðustu Alþingiskosningar var fjálglega rætt um milljarð sem ráðstafa skyldi til fíknefnaforvarna á yfirstandandi kjörtímabili. Ekki veit ég til þess að svo mikið sem ein króna af honum hafi borist til íþróttarhreyfingarinnar, en á sama tíma hefur ferða- og risnukostnaður ríkisins hækkað sem nemur þeirri fjárhæð á kjörtímabilinu, og nemur nú u.þ.b. 3,5 milljörðum á ári. Ekki ætla ég að halda því fram að því fé sé öllu illa varið, en mikið má vera að forgangsröðun samfélagsins ef þessi aukning gengur framar forvarnarstarfi íþróttahreyfingarinnar.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.

Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Keflvíkingarnir Falur Harðarson og Kristinn Friðriksson fagna.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið