© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
   
29.10.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Uppbygging íþróttamannvirkja
Mannvirki eru í flestum tilvikum óhjákvæmilegur grundvöllur íþróttaiðkunar, en í því samhengi má vissulega teygja hugtakið á ýmsa vegu. Þegar rætt er um íþróttamannvirki sjá flestir e.t.v. fyrir sér íþróttahús eða knattspyrnuvöll, en ef betur er að gáð þá eru sundlaugar, skíðalyftur, golfvellir o.s.frv. í eðli sínu íþróttamannvirki. Reyndar væri hægt að teygja hugtakið svo langt að það tæki til smábátahafna landsins, göngu- og hjólreiðastígsins eftir endilangri höfuðborginni o.s.frv.

Skilgreiningin markast e.t.v. af forsendum mannvirkjagerðarinnar og aðgengi almennings að þessum mannvirkjum. Ekki er óeðlilegt að flestir miði skilgreiningu á íþróttamannvirki við það sem teljast sérhæfð mannvirki til kennslu eða skipulagðrar æfingar á íþróttum. Þótt rita megi langar greinar um skort á aðgengi almennings að slíkum íþróttamannvirkjum má þó ekki gleyma því að þau gæði eru vissulega takmörkuð, og snýst málið um forgangsröðun. Skólastarf hefur jafnan forgang, en því næst kemur starf íþróttafélaga. Að þessu frágengnu eru tímar íþróttahúsanna – sem þó sjaldnast eru til skiptanna – gjarnan seldir almenningi til afnota.

Undirritaður ætlar hér að reifa skoðanir sínar á uppbyggingu íþróttamannvirkja á Íslandi, og kunna þær skoðanir að virka sem gagnrýni á tiltekna aðila eða þætti innan íþróttahreyfingarinnar. Það er í sjálfu sér ekki ætlunin. En taki einhver skoðanirnar til sín sem gagnrýni þá verður svo að vera.

Í fyrsta lagi er alltof miklu kostað til einstakra mannvirkja. Það virðist reyndar vera landlægt á Íslandi að byggja of dýrar og glæsilegar byggingar. Svo virðist vera sem ávallt þurfi að hanna t.d. opinberar skólabyggingar og íþróttamannvirki frá grunni þótt nýting sé stöðluð og rækilega þekkt. Þó ég telji ekki óeðlilegt að stærri sveitarfélög komi sér upp eins og einni myndarlegri keppnishöll – sem vel að merkja þjónar oft fjölbreyttari tilgangi í sveitarfélaginu – þá er það sem vantar á Íslandi fleiri hagkvæm, stöðluð og einföld íþróttamannvirki, ekki minnismerki hönnuða og arkitekta. Það væri betri fjárfesting að auka framlög til innra íþróttastarfsins sjálfs.

Í öðru lagi er forgangsröðun í sumum tilvikum röng að mati undirritaðs. Alltof oft ræður “lobbýismi” framlögum til uppbyggingar íþróttamannvirkja. “Það er komin röðin að okkur núna”. Hver kannast ekki við slík rök? Staðreyndin verður því sú að ekki er tekið fullnægjandi tillit til raunverulegra þarfa, til fjölda þeirra sem nýta mannvirkið í hlutfalli við kostnað þess. Á meðan sum íþróttamannvirki, einkum t.d. íþróttahús og sundlaugar, eru þéttsetin frá morgni til kvölds þá má finna dýr mannvirki sem nýtt eru einungis í fáeinar klukkustundir á dag af tiltölulega fáum iðkendum.

Í þriðja lagi er nokkur skortur á heildstæðri stefnu við uppbyggingu íþróttamannvirkja á Íslandi með hliðsjón af hagkvæmri fléttun skóla- og íþróttastarfs. Kann þetta að mótast af þeirri staðreynd að fram undir lok síðustu aldar var rekstur grunnskóla á hendi ríkisvaldsins en stuðningur við íþróttafélög á verksviði sveitarfélaga. Ég vil vísa til fyrri pistla minna um samstarf og tengsl íþróttahreyfingarinnar við skóla, við sveitarfélög og við ríkisvaldið. Það er mín skoðun að til þess að skapa samstarfsfleti þurfi íþróttahreyfingin að koma til móts við þessa aðila þegar kemur að uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Ég tel eðlilegra að íþróttahreyfingin komi til skólans en ekki öfugt. Skólastarf byggir á hverfisbundnum einingum, og sækja börnin skóla á grundvelli staðsetningar heimilis. Þessi skilgreining er ekki jafn skýr innan íþróttahreyfingarinnar þar sem félög geta náð yfir landamæri skólahverfa. Það er mín skoðun að með uppbyggingu hagkvæmra fjölnota íþróttahúsa við alla grunnskóla ávinnist margt.

Sóknarfæri skapast við nýtingu fagmenntaðra íþróttakennara grunnskólanna inn í íþróttastarfið og hagræðingar á grundvelli einsetningar grunnskóla. Íþróttahreyfingin fær faglærða þjálfara - á kostnað sveitarfélagsins – og skólakerfið fær samstarfsaðila um afþreyingu og kennslu fyrir börnin á fullum skóladegi.

Sóknarfæri skapast við nýtingu annarra hluta skólabygginganna t.a.m. undir félagsstarf íþróttahreyfingarinnar. Hvaða vit er annars í því að byggja grunnskóla sem stendur auður öll kvöld á sama tíma og byggð er dýr félagsaðstaða fyrir íþróttafélög sem stendur auð allan daginn? Er virkilega ekki skynsamlegra að samnýta þetta betur, og auka þá frekar fjárframlög til rekstrar íþróttastarfsins sjálfs?

Sóknarfæri skapast við aðgengi að launuðu starfsfólki grunnskólanna, aðstöðu varðandi tækjabúnað o.s.frv. Það hefur t.d. færst í aukana að einstök félög ráði sér framkvæmdastjóra – sem í sjálfu sér er af hinu góða – en hvað er því til fyrirstöðu að sá sami aðili gegni því sem hluta af starfi sínu í grunnskóla. Getur þar verið hvort heldur er um að ræða kennslu, gangavörslu eða hvað sem verða vill svo fremi sem réttur einstaklingur fæst til starfans.

Eins og ég gat um hér framar þá kunna ýmsir innan íþróttahreyfingarinnar að vera mér ósammála, og jafnvel reiðast því að verið sé að taka spón úr þeirra aski. Sum íþróttafélög hafa góðar tekjur af rekstrarsamningum um íþróttamannvirkin, en er ekki betra að hafa tekjurnar að stærstu leyti án útgjaldanna ef því verður við komið?

Við þurfum að líta á heildarmyndina – bæði sem skattborgarar og áhugaaðilar um að bæta hag og aðstöðu íþróttahreyfingarinnar. Það eru ýmsar leiðir til að búa til peninga, og er ein af þeim óneitanlega hagræðing. Ef íþróttahreyfingin ætlar að fá aukin fjárframlög og samstarf við aðrar einingar samfélagsins þá er ekki óskynsamlegt að ræða möguleika á að koma til móts við þá aðila eins og kostur er. Við eigum að ræða slíkt – a.m.k. þar sem því verður við komið.

Hinn svonefndi “almenningur” er við allar hliðar borðsins. Það eru sömu foreldrarnir sem greiða æfingagjöldin til íþróttafélaganna og greiða skatta til sveitarfélagsins. Það eru sömu foreldrarnir sem eiga börnin í hverfisskólunum og aka börnunum sínum á íþróttaæfingar. Það er því alrangt að stilla þessum aðilum upp sem andstæðum fylkingum, heldur þvert á móti eigum við að virkja það lýðræðislega afl sem felst í atkvæðisrétti þessara foreldra – og auðvitað annarra aðila innan íþróttahreyfingarinnar sem sjálfir eru komnir með kosningarétt. Fáum fram vilja þessara aðila til þess hvernig við viljum byggja upp samfélagið, þ.m.t. atbeina íþróttahreyfingarinnar með uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Jón Arnór Stefánsson, leikmaður íslenska landsliðsins, gægist hér framhjá tveimur varnarmönum hollenska liðsins í leik liðanna í ágústmánuði 2009. Hollendingar reyndu að klófesta íslenska liðið en höfðu ekki erindi sem erfiði enda vann Ísland góðan sigur 87-75 eftir að hafa leitt með allt að 28 stigum. Jón Arnór var stigahæstur allra leikmanna á vellinum mdð 23 stig.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið