© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
   
22.10.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Íþróttahreyfingin og ríkisvaldið
Hér áður hefur verið fjallað um samskipti íþróttahreyfingarinnar við sveitarfélög og aðrar stofnanir samfélagsins. Eftir stendur þá að fjalla um samskiptin við sjálft ríkisvaldið – sem við jú erum öll sameiginlega aðilar að.

Í umfjöllun minni um samskipti íþróttahreyfingarinnar við sveitarfélögin var nokkuð minnst á uppbyggingu íþróttamannvirkja. Við þá umfjöllun má vitaskuld bæta uppbyggingu í þágu sameiginlegra liða og afreksmanna allra landsmanna. Er þar í senn annarsvegar átt við uppbyggingu s.k. “þjóðarleikvanga” og hinsvegar aðstöðu til æfinga og keppni fyrir úrvalslið þjóðarinnar í einstökum íþróttagreinum.

Það verður að segjast eins og er að þessu hlutverki hefur ríkisvaldið ekki sinnt sem skyldi, og hefur takmörkuð uppbygging þessara þátta hvílt á höfuðborginni Reykjavík, sem að nokkru hefur axlað þá ábyrgð sem langstærsta sveitarfélag landsins. Langt er þó í land með að viðunandi aðstaða sé fyrir hendi að þessu leyti, einkum að því er varðar allar íþróttagreinar.

Með sama hætti og sveitarfélög styðja við íþróttafélög á sínu svæði, beint eða óbeint í gegnum íþróttabandalög og héraðssambönd, þá ber ríkisvaldinu að styðja við sérsambönd og landsúrvöl. Þetta hefur brugðist hrapallega, og afleiðingin er sú að sérsambönd innan ÍSÍ eru fjárhagsleg eylönd sem njóta engra fastra opinberra styrkja, hvorki frá ríkisvaldi né sveitarfélögum.

Er þetta einkum það sem greinir íslensk sérsambönd einkum frá sambærilegum einingum í öðrum nágrannaríkjum, og skapar ójafnræði fyrir Ísland á alþjóðlegum vettvangi. Víða erlendis nemur framlag hins opinbera allt að 50-70% af veltu sérsambanda, og því langur vegur frá aðstöðu íslenskra sérsambanda. Fyrir vikið geta aðilar þar einbeitt sér frekar að innri uppbyggingu íþróttastarfsins í stað þess að eyða langstærstum tíma í að afla fjár til starfsins – sem svo leiðir óhjákvæmilega til þess að takmarkaðri orka er í kjölfarið til að sinna íþróttalegu starfi.

Vitaskuld ber þó að geta þess sem vel hefur verið gert á undanförnum árum. Styrkir til Afrekssjóðs ÍSÍ hafa verið auknir nokkuð og uppi hafa verið hugmyndir um að færa sérsamböndum ÍSÍ fasta rekstrarstyrki frá ríkisvaldinu. Það er þó ekki komið til framkvæmda, og ráðgerðir styrkir til sérsambanda og fyrirliggjandi aukning afreksstyrkja hafa því miður verið sandkorn í þau miklu fjárhagslegu útgjöld sem standa þarf straum af til að íslensk sérsambönd og íslenskt afreksfólk standi jafnfætis öðrum þjóðum og kröfu íslensks samfélags að þessu leyti.

Ekki vil ég sérstaklega gagnrýna einstaka ráðamenn sem að málum hafa komið. Þeir hafa flestir haft góðan hug til að bæta hag íþróttahreyfingarinnar. En hér þarf heildstæða hugarfarsbreytingu til, og samanburður við aðra sambærilega þætti samfélagsins er síður en svo óeðlilegur – en hann er íþróttahreyfingunni jafnan afar óhagstæður. Ekki hefur þótt tiltökumál t.d. að auka árleg framlög til einstakra listgreina um hundruðir milljóna á sama tíma og aukning t.d. á framlagi til Afrekssjóðs ÍSÍ hefur numið 10-15 milljónum króna.

Hafa ber í huga í því sambandi að íþróttahreyfingin telur nálægt 100 þúsund manns, og eru regnhlíf yfir margar ólíkar íþróttagreinar. Allir landsmenn - ráðamenn sem aðrir - hafa viljað stoltir eigna sér góð afrek okkar glæsilega íþróttafólks á alþjóðlegum vettvangi, afrek sem í reynd ná mun lengra en íbúafjöldi þjóðarinnar gefur tilefni til. Sífellt aukast kröfurnar, en tækin til þess að mæta þeim standa í stað.

En hvað er hægt að gera? Auðvitað er alltaf auðveldasta leiðin að krefjast meira fjármagns. En slíkt eitt og sér nægir ekki – ríkisvaldið þarf í samstarfi við ÍSÍ að marka skýrari stefnu um ráðstöfun fjármagnsins til sérsambanda, landsliða og afreksfólks. Gera þarf kröfur til þess að það starf sem raunverulega er verið að kosta sé til staðar, og byggist á sýnilegu skipulagi og stefnumótun þeirra sérsambanda.

Eitt einfalt atriði er nokkuð sem fáir verða varir við, en það er kostnaður við æfingar landsliða – þetta er nokkuð sem gjarnan hefur valdið íslenskum körfuknattleik vandræðum, því í reynd er enginn aðgangur að íþróttahúsum fyrir æfingar landsliða án greiðslu. Hefur undirbúningstímabil landsliða okkar því m.a. einkennst af því að semja við vinveitt sveitarfélög um aðgang að íþróttahúsum fyrir landsliðsæfingar, og hefur þá staðsetning stundum verið óeðlileg m.t.t. ferðalaga leikmanna. Þetta ástand er vitaskuld óviðunandi, en ætti að vera auðvelt að bæta úr af hálfu ríkisvaldsins.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.


Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Rúnar Ingi Erlingsson í skoti gegn Keflavík í undanúrslitum 11. flokks karla í apríl 2006.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið