S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
||
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
31 |
15.10.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Íþróttahreyfingin og sveitarfélögin
Sveitarfélög annast uppbyggingu íþróttamannvirkja, og er þar í flestum tilvikum um að ræða skólamannvirki – eða mannvirki sem byggð eru í samstarfi við íþróttafélag í sveitarfélaginu skv. tilteknum kostnaðarhlutföllum þar sem íþróttafélagið fær gjarnan n.k. afnota- og yfirráðaréttindi yfir mannvirkinu með fyrirvara um samning við sveitarfélagið um afnot til skólastarfs eftir þörfum. Í sumum tilvikum hafa verið gerðir rekstrarsamningar við íþróttahreyfinguna um mannvirkin, og hefur það gefið íþróttafélögum aukna möguleika á tekjuöflun með hagræði og sjálfboðavinnu. Fram á síðustu áratugi hefur framlag sveitarfélaganna í flestum tilvikum einskorðast við uppbyggingu mannvirkja, en innri rekstrarþáttur íþróttafélaganna setið á hakanum – enda sá þáttur framan af nær eingöngu byggst upp á sjálfboðastarfi. Með verulega auknum kröfum samfélagsins til uppeldisstarfs íþróttahreyfingarinnar, auk síaukinna krafna um árangur, hefur rekstrarkostnaður íþróttafélaganna aukist talsvert, og hreyfingin í reynd ekki fylgt þróun annarra þátta samfélagsins að því er varðar kostnaðaþátttöku í starfinu. Tilraunir með rekstrarsamninga, eins og t.d. hafa verið gerðir í Mosfellsbæ, lofa þó góðu um hugarfarsbreytingu að þessu leyti. Sveitarfélögin reikna afnot íþróttafélaganna af íþróttamannvirkjum sem styrk þeirra til þess að halda uppi starfinu, og jafnvel er í vissum sveitarfélögum ekki byggt á tímafjölda heldur fjárhæðum – hversu óeðlilegt sem slíkt kann annars að hljóma. Fyrirsvarsmenn þeirra sveitarfélaga geta því með afar einföldum hætti slegið sig til riddara með því að hækka gjaldskrá íþróttahúsanna, og þar með aukið reiknað framlag til íþróttahreyfingarinnar með einföldum reikningsskilum í stað raunverulega aukinna fjárframlaga. Önnur afnot mannvirkjanna eru í flestum tilvikum hvort sem er fólgin í þeirra eigin skólastarfi. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni í pistli hér að í flestum tilvikum er um að ræða skólamannvirki sem nýtt eru til fulls á kvöldin af sjálfboðaliðshreyfingu til íþrótta- og félagsstarfs ungmenna sem sveitarfélög spara sér þar með að standa fyrir í formi félagsmiðstöðva o.s.frv. Samanburður við aðra þætti í rekstri sveitarfélaga, svo sem tónlistarskóla og félagsmiðstöðvar er síður en svo óviðeigandi. Í öllum tilvikum er um að ræða náms- og tómstundastarf ungmenna sveitarfélagsins sem beint eða óbeint er rekið á kostnað útsvarsgreiðenda sveitarfélagsins. Það er í reynd þetta “beint eða óbeint” sem felur í sér mismun gagnvart íþróttahreyfingunni. Ferli fjármála og rekstrarþáttar íþróttafélaga í sveitarfélögum hefur fram að þessu verið byggt á því að íþróttafélögin hafa að meira eða minna leyti verið látin sjá sjálf um sinn rekstur – og síðan þegar í öngstræti hefur verið komið hefur sveitarfélagið, gjarnan skömmu fyrir kosningar, komið til aðstoðar með skuldbreytingar með milligöngu aðalstjórnar félagsins, oft með ákveðnum ströngum skilmálum. Persónulega togast á hjá undirrituðum hagsmunir íþróttaáhugamannsins og hins almenna skattborgara, og ekki ætla ég að mælast til þess að íþróttafélögin fari með ótakmörkuðum hætti á framfæri hins opinbera. Slíkt myndi án efa takmarka þann drifkraft íþróttahreyfingarinnar sem felst í hugsjónastarfi, sjálfboðavinnu, óbilandi félagshjarta og hagsýni þeirra einstaklinga sem starfa innan íþróttafélaganna. Þessa einkennandi þætti íþróttastarfs tel ég reyndar vænlegra að aðrir þættir samfélagsins tækju sér til fyrirmyndar fremur en að takmarka þá innan íþróttahreyfingarinnar. M.ö.o. að dæminu yrði snúið við og rekstur hins opinbera yrði meira að hætti íþróttahreyfingarinnar með þeirri hagsýni og ráðdeild sem þar ríkir. Gallinn við núverandi fyrirkomulag er e.t.v. sá að við skuldauppgjör innan íþróttahreyfingarinnar er hætt við að mismunun ráði ferðinni, annaðhvort á grundvelli valdastöðu einstakra íþróttagreina eða íþróttafélaga innan viðeigandi stofnana sveitarfélagsins eða hinsvegar á grundvelli þess að “núllstilling” skulda verðlauni skussana en “refsi” þeim sem sniðið hafa sér stakk eftir vexti í rekstri. Frá framangreindu fyrirkomulagi eru þó ýmsar undantekningar, og má m.a. nefna umræðu innan sumra sveitarfélaga fyrir nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar um að kosta að fullu starf íþróttafélaganna fyrir yngstu iðkendurna. Slík stefna myndi án efa vera stórt skref í átt til jafnræðis íþróttahreyfingarinnar gagnvart öðrum sambærilegum rekstrarþáttum ungmennastarfs innan sveitarfélaga, án þess að skerða sjálfstæði eða hugsjónastarf íþróttarhreyfingarinnar. Mitt eigið bæjarfélag, Hafnarfjörður, er gott dæmi um sveitarfélag sem ávallt hefur staðið prýðilega að málum gagnvart íþróttahreyfingunni, og er þar nú verið að hrinda í framkvæmd kosningaloforðum sem ég fylgist mjög spenntur með afrakstri af, en það er greiðsla æfingagjalda fyrir öll börn fædd 1992 og síðar. Þetta gerir öllum kleyft að gefa börnum sínum kost á íþróttaiðkun, og á efnahagur t.a.m. ekki að koma í veg fyrir slíkt. Ég er þess fullviss að þetta mun ekki eingöngu leiða til þess að bæjarfélagið auki við forystu sína á sviði íþróttamála hér á landi, heldur er ég einnig sannfærður um að innan mjög fárra ára hafi þetta framtak leitt til umtalsverðs sparnaðar fyrir bæjarbúa í formi lægri kostnaðar við félagsleg vandamál – auk þess að börnin í sveitarfélaginu geta vart orðið annað en heilbrigðari og betur á sig komin. Hér fara því að fullu saman hagsmunir mínir sem skattgreiðanda og íþróttaáhugamanns. Meginatriðið í þessum pistli er e.t.v. að hugarfar að baki fjárframlögum sveitarfélaga til íþróttahreyfingarinnar hefur að mínu mati yfirleitt verið á röngum forsendum í fortíðinni, og byggst á betli og hugsunarhætti ölmusu. Á þessu virðist víða vera að verða breyting, og framsýnir stjórnmálamenn sjá þetta sem verðmætt framlag til uppeldis- og félagsstarfs æskunnar í sveitarfélaginu, sem skilar sér bæði í efnilegri æsku og fjárhagslegum sparnaði. Slíka framför viljum við sjá. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ. |