S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
||
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
31 |
8.10.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðari - Íþróttir, agi og uppeldi
Ísland hefur ekki her – og hafa sumir látið þá skoðun í ljós að í því felist orsök agaleysis Íslendinga að nokkru leyti, a.m.k. í samanburði við aðrar þjóðir. Hinsvegar eru líklega fáar stofnanir samfélagsins sem byggja starf sitt í jafnríkum mæli á aga og virðingu eins og íþróttahreyfingin, nema ef vera skyldi t.d. skátahreyfingin. Ég hygg að ef menn skoða feril þeirra ungmenna sem fengið hafa uppeldi sitt innan íþróttahreyfingarinnar – einkum okkar bestu afreksmanna – þá eru einkennin þau að þeir einstaklingar samlagast betur og lenda síður upp á kant við reglur og gildi samfélagsins. Agi íþróttahreyfingarinnar felur í sér að menn ná ekki árangri innan hennar nema með virðingu við félaga sína og andstæðinga, og hlýðni við reglur. Íþróttafélögin byggja á frjálsri félagsaðild, og því auðveldara að halda uppi aga að því leyti til að þeir sem ekki hlíta þeim reglum eru útilokaðir frá þátttöku. Slíkt er reyndar í senn galli út frá samfélagslegum sjónarmiðum, því það eru þeir aðilar sem e.t.v. þurfa mest á uppeldi íþróttahreyfingarinar að halda. Sú staðreynd ætti hinsvegar að auka áhuga og vilja ríkisvaldsins á auknu samstarfi við íþróttahreyfinguna að þessu leyti. Íþróttahreyfingin er ennfremur líklega eina stéttlausa samfélagið á Íslandi. Fáir hafa í reynd velt því fyrir sér – en þátttakendur íþróttahreyfingarinnar koma úr öllum stéttum og þrepum þjóðfélagsins. Þegar menn horfa á íþróttakappleik þá veltir enginn því fyrir sér hvað viðkomandi leikmaður starfar við, hverjir eru foreldrar hans, hvort hann er fátækur eða ríkur o.s.frv. Hið eina sem skapar mönnum virðingu innan íþrótta er tæknileg geta einstaklingsins og persónuleikinn til að kunna að fara með þá getu. Stéttleysi íþróttahreyfingarinnar hefur orðið meira áberandi á síðustu árum m.a. vegna aukins fjölda nýbúa hér á landi. Þáttur íþrótta í takmörkun kynþáttafordóma er að mínu mati stórlega vanmetinn. Til að mynda hafa erlendir leikmenn þótt sjálfsagðir í íþróttum um áratuga skeið, og margir muna eftir því þegar fyrstu blökkumennirnir í körfuknattleik komu hingað til lands. Þeir lentu gjarnan í útistöðum vegna kynþáttar sína úti í samfélaginu, en slíkt hefur verið afar sjaldgæft innan íþróttahreyfingarinnar. Hér hefur íþróttahreyfingin byggt upp aga, skilning og umburðarlyndi. Íþróttahreyfingin berst með oddi og egg gegn áfengi, tóbaki og fíkniefnum. Rekinn er harður áróður gegn neyslu hvers kyns efna, og fer sá áróður samhliða þeirri staðreynd að neyslu þeirra fylgir lakari árangur í íþróttum. Varðandi lyf sem ætlað er að bæta árangur þá má geta þess að íþróttahreyfingin er eina stofnunin í samfélaginu sem heldur úti öflugu og skipulegu lyfjaeftirliti, og byggir á ströngum reglum um notkun hvers kyns efna sem kunna að mismuna þátttakendum að því er varðar árangur, auk verndunar á heilsu. Þátttakendur innan íþróttahreyfingarinnar alast upp við aga sem felur í sér vímuefnalausa þátttöku frá upphafi. Slíkt getur ekki annað en haft jákvæð áhrif á samfélagið. Fyrir síðustu alþingiskosningar var fjálglega rætt um ráðstöfun milljarðs króna á yfirstandandi kjörtímabili til forvarna gegn fíkniefnum. Mér vitanlega hefur ekki króna af þeim fjármunum runnið til íþróttahreyfingarinnar, sem þó hefur með uppbyggingu aga og skynsamlegra uppeldisgilda ráðist beint að rótum þess vanda sem hinn alvarlegi vágestur fíkniefnaviðskipta hefur byggt upp hér á landi. Gamalt máltæki segir að sá tími komi að börnin fari að ala upp foreldra sína. Ég hygg að kominn sé tími til þess að íþróttahreyfingin hefji skipulegt uppeldi stjórnvalda og opni augu þeirra fyrir því illa nýtta tæki sem þau hafa í íþróttahreyfingunni. Munurinn á okkur og börnunum er áhrifameiri en ætla má – við höfum nefnilega atkvæðisrétt. Eru ekki annars kosningar í vor? Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ. |