S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
||
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
31 |
1.10.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðarinn - Vitlaust gefið
Íþróttahreyfingin sem telur á annaðhundrað þúsund félagsmanna byggir rekstur sinn að langstærstu leyti á félagsgjöldum, frjálsum framlögum og viðskiptasamningum við auglýsendur og stuðningsaðila. Ég hygg að fáir geri sér í reynd grein fyrir því hversu frábrugðin aðstaða íslenskrar íþróttahreyfingar er við sambærilegar hreyfingar í Evrópu. Algengt er að nálægt helmingur rekstrarkostnaðar íþróttahreyfingarinnar komi þar beint frá opinberum aðilum, og jafnvel mun meira ef tekið er tillit til þess að stór hluti starfsins fer fram innan skólakerfisins. Hver er annars munur á því að okkar bestu “leikmenn” í hljóðfæraleik í sinfóníunni, í óperunni eða Þjóðleikhúsinu skuli vera á launum hjá ríkinu á meðan landsliðsmenn okkar í íþróttum þurfa að taka launalaust frí úr vinnu til þess að koma fram með sambærilegum hætti fyrir hönd þjóðar sinnar? Hvers vegna skyldi vera unnt að niðurgreiða aðgöngumiða að listastofnunum en ekki á landsleiki í íþróttum? Hví skyldi leikmaður sem slasaðist illa í handknattleik fyrir fáum árum bera tjón sitt innan íþróttahreyfingarinnar vegna tryggingarumhverfisins í stað þess að hafa ekki verið svo “heppin” að hafa t.d. meiðst á æfingu hjá listdansflokki Þjóðleikhússins þar sem um eðlilegt og launað vinnuslys hefði verið að ræða. Um miðjan níunda áratug síðustu aldar reyndu frumkvöðlar innan hreyfingarinnar hér á landi að finna nýja tekjustofna – og var sótt um einkaleyfi á lottó í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands og Ungmennafélag Íslands. Þessar aðgerðir voru góðar og gildar, og hefðu til lengri tíma án efa orðið fjárhagslegum forsendum hreyfingarinnar til framdráttar ef fulltrúar ríkisvaldsins hefðu ekki uppgötvað þá snilli að líta svo á að leyfi til lottósins fæli í sér framlag af hálfu ríkisvaldsins. Íþróttahreyfingunni hafði að hluta til verið afhentur íslenski veðmálamarkaðurinn til eignar. Eða hvað? Hinir sömu snillingar sáu sér nú leik á borði og tóku þennan sama veðmálamarkað og skiptu kökunni í fleiri hluta. Spilakassar, skafmiðar og fleiri slíkir veðmálaleikir urðu nú vinsælir – og minna varð úr einkaleyfi lottósins á veðmálamarkaði. Þeim þáttum var úthlutað til annarra hópa í samfélaginu – eflaust á þeim grundvelli einnig að um ríkisstyrk væri að ræða. Með öðrum orðum þá gáfu þeir sama hlutinn mörgum sinnum, og þykir slíkt ekki gott afspurnar. Afleiðingin hefur vitaskuld orðið sú að samhliða verulegri fjölgun meðlima íþróttahreyfingarinnar þá hefur velta lottósins ekki aukist í samræmi við það, og hefur framreiknuð heildarfjárhæð líklega minnkað frá stofnun lottósins. Í stað þess að forystumenn íþróttahreyfingarinnar beini kröftum sínum að faglegri uppbyggingu sinna íþróttagreina þá fer stærstur hluti sjálfboðaliðsstarfa þeirra í að afla fjár til reksturs starfseminnar. Í gegnum síðastliðna áratugi hefur skapast nokkur hefð fyrir því að íþróttahreyfingin hafi haft tekjustofna frá viðskiptalífinu nokkuð óáreitt, og sú hefð hefur án efa orðið til þess að gagnrýni á ríkjandi fyrirkomulag hefur ekki verið öflugri en raun ber vitni. Undanfarna áratugi hafa íslensk fyrirtæki jafnframt verið jákvæð og viljug til stuðnings við íþróttahreyfinguna – en á síðustu árum hefur orðið nokkur breyting þar á m.a. með auknum kröfum til arðsemi fyrirtækja á hinum unga verðbréfamarkaði hérlendis. Nú eru einungis gerðir harðir viðskiptasamningar. Nú hef ég áður sagt að opinber framlög til listastarfsemi, sóknargjöld til kirkjunnar o.s.frv. sé nokkuð sem ég hef ekki viljað gagnrýna út af fyrir sig, þótt þægileg föst framlög frá hinu opinbera sé nokkuð sem vekur upp heiðarlega öfund af hálfu örþreyttra forkólfa innan íþróttahreyfingarinnar. Þeirra leið til aukinna tekna hefur t.a.m. verið að vinna að auknum fjárframlögum hins opinbera eða jafnvel fara í verkfall – slíkt getur íþróttahreyfingin tæpast gert því erfitt er að hækka sjálfboðaliða mikið í prósentum. Þetta fyrirkomulag hefur virkað fram á hin síðari ár, þótt ósanngjarnt sé að okkar mati. Það sem e.t.v. stendur þessu fyrirkomulagi nú fyrir þrifum er hugsanlega sú staðreynd að listastarfsemi hefur á undanförnum árum leitað í æ ríkari mæli inn á markað stuðningsaðilanna. Nú eru komnir tugmilljóna króna “sponsorar” á listasöfnin, sinfóníuna o.s.frv. – sponsorar sem fjölmennar skrifstofur þessara stofnana afla með tilstilli launaðra opinberra starfsmanna. Með þessu er auðvitað verið að rugga báti sem fram að þessu hefur haldist á floti fyrst og fremst vegna hreyfingaleysis farþega og áhafnar fremur en að báturinn sjálfur hafi verið burðugur sem slíkur. Þessi bátur er nú að sökkva, og því miður fyrir íþróttahreyfinguna þá hafa allir aðrir bjarghring en meðlimir hennar – bjarghring í formi fastra opinberra framlaga. Því miður hygg ég að margir geri sér ekki grein fyrir þessu fyrr en hörð lending á botninum vekur þá. Ég vil þó ítreka orð mín úr fyrri pistlum þess efnis að gagnrýni minni er ekki beint að listum, kirkju eða öðrum. Það eru full heilindi á bak við vilja minn til aukins samstarfs við þá aðila samfélagsins, og íþróttahreyfingin hefði án efa gert nákvæmlega það sama í þeirra sporum – að nýta það sem þau hafa og sýna eðlilega sjálfsbjargarviðleitni við að efla starfsemi sína eins og kostur er. Slíkt er auðvitað í lagi á meðan leikreglur samfélagsins leyfa slíkt. En þar liggur hundurinn einmitt grafinn. Leikreglurnar sem samfélagið setur er nokkuð sem þarf að breyta. Annaðhvort viðurkenna menn jafna nauðsyn allra þessara stofnana samfélagsins og skapa þeim jöfn skilyrði til tekjuöflunar til rekstrar sem slíks eða setja jafnar reglur um hlutfall fjárframlags hins opinbera. Málið snýst um að rétt sé gefið svo leikurinn verði á jafnræðisforsendum. Á tímum hertra samkeppnisreglna og þróaðra viðskiptasiðferðis þarf að taka innbyrðis stöðu þessara mikilvægu þátta menningar samfélagsins til endurskoðunar. Sýnum eðlilega og heiðarlega sanngirni. Gefa þarf upp á nýtt. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ. |