© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
   
24.9.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðarinn - Of mikið í vörn
Þeir sem starfa í íþróttahreyfingunni verða gjarnan varir við nokkurn misskilning á störfum og uppbyggingu hreyfingarinnar – einkum frá aðilum sem þekkja illa til þeirra starfa. Slíkur misskilningur er í sjálfu sér ekki óeðlilegur, en orsakast e.t.v. af því að aðilar innan hreyfingarinnar hafa ekki verið nægilega duglegir við að koma nauðsynlegum upplýsingum á framfæri. Orka hreyfingarinnar á vettvangi opinberrar umræðu snýst of mikið um það sem aflaga fer – og hreyfingin fer í vörn.

Flest okkar sem starfa í íþróttahreyfingunni höfum lent í því að eiga viðræður við aðila úti í samfélaginu sem trúa því af einlægni að hreyfingin sé með öllu á framfæri hins opinbera – jafnvel afætur á skattborgurum landsins. Þetta er auðvitað alrangt. Svo nefndar séu tölur þá námu t.d. framlög ríkisins á árinu 2000 um það bil 5% af fjárhagslegri veltu hreyfingarinnar. Samt er hreyfingin í vörn.

Alltof margir líta svo á að íþróttamannvirki séu framlag eða gjöf til þeirra sem starfa í íþróttahreyfingunni – þegar reyndin er sú að í flestum tilvikum er um að ræða skólamannvirki sem nýtt eru til fulls á kvöldin af sjálfboðaliðshreyfingu til íþrótta- og félagsstarfs ungmenna sem sveitarfélög spara sér þar með að standa fyrir í formi félagsmiðstöðva o.s.frv. á kostnað útsvarsgreiðenda. Samt er það nefnd sjálfboðaliðshreyfing sem er í vörn.

Við höfum rekið áróður gegn því að sigrum innan íþróttahreyfingarinnar sé fagnað með t.d. freyðivíni. Slíkt er að mínu mati sjálfsögð tillitssemi þegar fyrirmyndir barna okkar eiga í hlut. Þegar viðburðir á vettvangi lista, frumsýningar o.fl., þykir á hinn bóginn sjálfsagt að fagna slíku með áfengi – og reyndar er það svo að sumar lista- og menningarstofnanir bjóða til sölu áfengi til áhorfenda á almennum viðburðum. Samt er íþróttahreyfingin í vörn.

Eitt kvennalandslið hérlendis ákvað að vekja athygli á kappleik með því að birtast á bikinifötum í Morgunblaðsauglýsingu – fatnaði sem þykir sjálfsagður í sundlaugum. Talsverðar athugasemdir urðu vegna þessa, og jafnvel minnst á siðferðisbresti og örvætingafullar fjáraflanir. Þeir sem skoða bækling Íslenska dansflokksins sjá á forsíðu berbrjósta konu, sem ég kannast ekki við að hafi hlotið sambærilega siðferðisumfjöllun almennings og fjömiðla. Samt er hér enn aftur íþróttahreyfingin sem er í vörn.

Ég hygg að þeir tveir hópar sem ferðist hvað mest í samfélaginu séu annarsvegar íþróttamenn og hinsvegar opinberir starfsmenn. Ég tel líklegt að 99% ferða íþróttahreyfingarinnar séu á ódýrasta fargjaldi. Dagpeningar, vinnutap eða aðrar greiðslur eru hugtök sem fáir hreinlega þekkja í íþróttahreyfingunni. Opinberir starfsmenn ferðast hinsvegar gjarnan á viðskiptafarrými – á fullum launum og dagpeningum. Ef til vill ekkert óeðlilegt við það, en hvor hópurinn skyldi þurfa að réttlæta meira sínar gjörðir?

Ef hópur forystumanna íþróttahreyfingar fer – að hluta til á eigin kostnað, án launa- og kostnaðargreiðslna – til að kynna sér starfsemi æðstu íþróttasamtaka í heiminum, eða ef Knattspyrnusamband Íslands – afar vel rekið sérsamband með talsvert meiri gjaldeyristekjur en flest íslensk fyrirtæki – ákveður að bjóða stuðningsaðilum sínum með myndarlegum hætti einu sinn til að fylgjast með landsliði þjóðarinnar, þá er um forsíðufréttir að ræða. Og aftur þarf íþróttahreyfingin að eyða orku sinni í að verja og réttlæta gerðir sínar.

Almenningi er tíðrætt um erlenda leikmenn í afreksdeildum á Íslandi, og sumir telja jafnvel að ekki beri að veita íþróttahreyfingunni neina opinbera styrki af þeim sökum. Fjármögnun þeirra leikmanna kemur þó alfarið frá stuðningsaðilum, ekki úr vasa skattborgara. Hinsvegar þekkist það t.d. vart að íslenskur stjórnandi sé við stjórn íslensku sinfóníuhljómsveitarinnar, og varla er haldinn sá listviðburður eða listahátíð hér á landi að ekki þyki fínast að hafa erlenda listamenn efst á listanum – muna menn e.t.v. ennþá eftir berrössuðum Japana sem velti sér um í Austurstræti á sínum tíma á kostnað okkar skattgreiðenda. En hver er í vörn? – jú, íþróttahreyfingin.

Þegar svo haldnir eru menningarviðburðir á erlendri grundu þá er gjarnan boðið íslenskum listamönnum og listahópum – sem sannarlega eru góðir fulltrúar á sínu sviði. Engum virðist þó hafa dottið í hug að kosta ferð íþróttahópa okkar af opinberu fé til slíkra landkynninga. Hvorki landafundaafmæli, kristnihátíð né menningarborg Reykjavík – sem samtals veltu hátt í tveimur milljörðum á árinu 2000 – buðu upp á íþróttaviðburð af einu eða öðru tagi. Fáir virðast þó deila um það að íþróttir hafa vakið meiri athygli á landi og þjóð en flest annað, auk frábærra listamanna okkar á borð við t.d. Björk og Kristján Jóhannsson.

Auðvitað vill íþróttahreyfingin ekki standa í stríði við aðra hópa samfélagsins, og auðvitað skiljum við vel að þessir hópar berjist fyrir sínum kjörum. Við myndum án efa hegða okkur með nákvæmlega sama hætti – og þiggja það sem að okkur er rétt. Tilefni þessa pistils er hinsvegar það að staða okkar á hinsvegar alls ekki að vera sú að við séum í vörn.

Ég legg til að við breytum um leikkerfi og snúum vörn í sókn.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.


Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Lið Ungmennafélags Laugdæla við upphaf tveggja áratuga sigurgöngu innan HSK.  Frá vinstri: Haukur Helgason, Örn Helgason, Guðmundur Rafnar Valtýsson, Ólafur Örn Haraldsson, Þór Vigfússon, Guðni Kolbeinsson og Guðmundur Birkir Þorkelsson.  Myndin er tekin á Laugarvatni veturinn 1964-1965.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið