© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
   
16.9.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðarinn - ÍÞRÓTTIR OG SKÓLI
Íþróttir og skólastarf hafa verið órjúfanleg heild á Íslandi með leikfimikennslu í skólum. Líklega hefur skipulögð líkamleg hreyfing aldrei verið núverandi kynslóð ungmenna – sem gárungarnir nefna “kókópuffs- og pizzukynslóðina” – eins nauðsynleg og einmitt nú. Börn í hinum vestræna heimi þyngjast vegna lítillar hreyfingar, óhóflegrar sykurneyslu og óholls mataræðis, og líkamlegri færni barna fer almennt hrakandi.

Íþróttahreyfingin býður foreldrum og skóla upp á valkost fyrir börnin þegar kemur að hreyfingu. Því miður eru það e.t.v. helst þau börn sem síst þurfa á aukinni hreyfingu að halda sem nýta þann valkost. Því þarf að breyta. Meðal annars með það að leiðarljósi hefur íslenskur körfuknattleikur hefur nú í áratug haft sem slagorð “Körfubolti er fyrir alla”. KKÍ vill bjóða upp á valkosti fyrir alla, og bjóða upp á æfingar og keppni sem hentar öllum. Skora ég á foreldra að kynna sér það sem félögin hafa upp á að bjóða.

Skólastarf og menntun er undirstaða samfélagsins, og ber vitaskuld að forgangsraða framar almennri íþróttaiðkun. Um það er ekki deilt, jafnvel ekki meðal hörðustu forkólfa íþróttahreyfingarinnar. En aukið samstarf þessara þátta er æskilegt og beinlínis nauðsynlegt. Ég vísa til viðamikilla og vandaðra rannsókna dr. Þórólfs Þórlindssonar fyrir áratug eða svo, sem sýndu með óyggjandi hætti fram á að aukin íþróttaiðkun hefur tölfræðilega fylgni með betri námsárangri og minni félagslegum vandamálum á borð við reykingar o.s.frv.

Körfuknattleikssamband Íslands hefur lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að iðkendur íþróttarinnar sinni sínu skólanámi af samviskusemi. Í afreksstefnu KKÍ til sex ára, sem kynnt var í upphafi árs 2001 er hluti af uppbyggingu framtíðarlandsliðsmanna okkar byggð að hluta á samstarfi við foreldra og skóla, með hinni s.k. landsliðsfjölskyldu. Lögð er áhersla á holla lifnaðarhætti leikmanna í samstarfi við foreldra og ástundun náms í samstarfi við skóla – þ.m.t. með námi í keppnisferðum erlendis ef með þarf. Þá hefur undirritaður persónulega lagt á það áherslu við þá afreksmenn okkar sem býðst námsvist í erlendum skólum á grundvelli hæfileika sinna að velja skóla einnig af akademískri kostgæfni – því sem slíkir teljist þeir hátt launaðir atvinnumenn ef þeir nýta sér námið samhliða keppni.

Erlendis – bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu – fer stærstur hluti unglingastarfs körfuknattleiks fram í gegnum skólakerfið. KKÍ hefur af veikum mætti sýnt viðleitni til þess undanfarin ár að skipuleggja og bjóða upp á keppni framhaldsskóla, og auk þess hefur KKÍ sýnt íþróttakennurum stuðning við kennslu í körfuknattleik, útbúið fræðsluefni, haldið fyrirlestra á þingum íþróttakennara og fræðsluheimsóknir innlendra sem erlendra þjálfara í leikfimikennslu skólanna.

Þrátt fyrir að leitað hafi verið eftir stuðningi og aðstoð skólayfirvalda við aðgang að skólakerfinu til mótahalds þá hefur slíkt ekki gengið eftir, þrátt fyrir að ein mesta hvatning nemenda til þátttöku í íþróttum sé að fylgjast með skóla sínum í kappleikjum – eða jafnvel að vera í hópi þeirra sem taka þátt sem keppendur. Þessu þarf að breyta, og hér þarf hugarfarsbreytingu til. Íþróttahreyfingin er ekki að keppa við skólana. Íþróttahreyfingin er ekki ógn við skólakerfið, heldur þvert á móti.

Skólakerfið býður upp á faglærða þjálfara og góða tæknilega aðstöðu, íþróttasali sem eru meira en fullnýttir á kvöldin af hálfu íþróttafélaganna væri hægt að nýta mun betur á skólatíma til sértæks íþróttastarfs. Með einsetningu grunnskólanna hefur skapast ómetanlegt tækifæri til þess að endurmeta skólastarfið í samstarfi við íþróttahreyfinguna.

Tækifæri sem hið opinbera hefur fengið til þess að auka faglega kennslu innan íþróttahreyfingarinnar með betri nýtingu á kennurum og aðstöðu skólanna – og koma þar samhliða á móts við frumþarfir fjárvana íþróttahreyfingar sem fremur af vilja en mætti reynir að bjóða upp á íþróttaiðkun yngstu kynslóðarinnar – hefur engan veginn verið nýtt.

Niðurstaða framangreinds er e.t.v. sú að skólakerfið hefur aldrei þurft jafn mikið á íþróttahreyfingunni að halda og einmitt nú á dögum – og í reynd má segja að með gagnkvæmum hætti þá hefur íþróttahreyfingin aldrei þurft jafn mikið á aðstöðu og innviðum skólakerfisins að halda og einmitt nú á dögum. Slíkt þýðir á mannamáli að fátt sé skynsamlegra en aukið samstarf þessara kerfa.


Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Þeir félagar Haukur Helgi Pálsson og Haukur Óskarsson, leikmenn U18 liðsins í myndatöku fyrir NM 09. Þeir urðu stigahæstu leikmenn liðsins á mótinu.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið