© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
3.9.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðarinn - ÍÞRÓTTIR OG LISTIR
Ekki er óalgengt að heyra af því að íþróttir og listir séu andstæðir pólar – heyra má af örgustu antisportistum sem telja listir til æðra forms og á sama hátt tjá sig öfgakenndir heilbrigðissinnar sem telja listir fyrir snobbaða ónytjunga.

Hvort tveggja er að mínu mati jafn rangt og jafn skaðlegt fyrir samfélagið. Íþróttir og listir eru tvær hliðar á sama teningi sem heitir menning – hvort tveggja órjúfanlegur hluti af því sem byggt hefur þjóðfélag fortíðar og nútíðar, og hvort tveggja ómissandi þættir sem marka sérkenni og skilgreiningu þjóðar. Hvort tveggja auðgar mannlíf á sinn hátt og samfélagslega vitund – og reyndar eru oft óljósari mörk á milli íþrótta og lista en í fyrstu kann að virðast.

Hvorki íþróttir né listir teljast hinsvegar til þeirra þátta samfélagsins sem skapa beinar tekjur eða salt í grautinn – og án efa hefur sú staðreynd alið á fordómum gagnvart bæði íþróttum og listum – að þeir sem lifibrauð hafa af slíkum óarðbærum og þjóðhagslega óhagkvæmum “leikaraskap” séu ekki hluti af hinni vinnandi stétt sem vinnur að verðmætasköpun samfélagsins. Þetta er í senn rétt og rangt, en hér þarf að líta til forgangsröðunar lífsgæða. Ekki má heldur gleyma hinum óbeinu þáttum sem leiða til þess að íþróttir og listir skapa tekjur eða spara kostnað í samfélaginu.

Persónulega er ég í senn aðdáandi íþrótta og lista, og reyni að ala börn mín upp í því að læra að njóta og iðka hvort tveggja. Þótt slíkt skapi almennt ekki tekjur til samfélagsins – heldur þvert á móti kosti jafnan talsvert – þá hygg ég að fáir myndu vilja hafa samfélag án nauðsynlegrar menningar. Hér þarf hinsvegar að sigla þröng sund á milli þess að samfélagið kosti menninguna úr sameiginlegum sjóðum, og sé þar með einnig rekið á kostnað þeirra sem vilja forgangsraða með öðrum hætti eða annaðhvort geta eða vilja ekki leyfa sér að njóta íþrótta eða lista.

Með fordómum á milli aðdáenda íþrótta og lista eru þessir menningarþættir einungis að skaða hvorn annan – ég tel að það væri til mikils vinnandi að fulltrúar íþrótta og lista myndu snúa bökum saman og standa vörð um sjónarmið menningarinnar í sinni víðustu merkingu innan hins upplýsta nútímasamfélags. Íþróttir og listir eiga að vinna saman – þótt vissulega geti þessir þættir einnig átt í samkeppni. Þetta er með sama hætti þar sem kapplið í íþróttum keppa innan vallar, en standa sameiginlega að öllum sínum samtökum utan vallar í þágu heildarinnar.

Hversu margir þekkja ekki þröngsýn sjónarmið á borð við öfgafulla íþróttafjölskyldu þar sem foreldrarnir gera allt til þess að endurupplifa horfinn afreksferil í gegnum börnin sín – hvort sem þeim hinsvegar líkar það betur eða verr. Barnið skal stunda þessa tilteknu íþróttagrein í þessu tiltekna íþróttafélagi, og draumar foreldrisins sem e.t.v. aldrei rættust, skulu verða að veruleika. Hið sorglega er að e.t.v. hefur barnið engan áhuga á íþróttum en aldrei kom í ljós að hér var um að ræða fiðlusnilling á heimsmælikvarða sem aldrei kom í ljós.

Á nákvæmlega sama hátt má nefna listhneigðu fjölskylduna sem fyrirlítur spark og hopp – foreldrarnir höfðu alist upp við að vottorð í leikfimi væri sjálfsagður hlutur enda líkamsburðir þeirra ekki upp á marga fiska. Fölu og óíþróttamannslegu barni þeirra er gert að æfa sig á píanó og sækja leiklistarnámskeið – e.t.v. þvert gegn vilja barnsins sem vill helst ekkert meira en að vera úti að leika sér á sparkvellinum með hinum börnunum. Eftir miðlungsferil í kór og píanóferil sem aldrei náði út fyrir tónlistarskólann kemur e.t.v. aldrei í ljós að hér hefði getað verið á ferðinni fyrsti gullverðlaunahafi Íslands á Ólympíuleikum.

Auðvitað eru framangreind dæmi tilbúin og öfgakennd – en allir vita að þetta gæti einmitt verið raunin. Mín skoðun er sú að við eigum að hafa opinn huga gagnvart báðum menningarþáttum og umfram allt að hlusta á börnin og leyfa þeim að prófa sem flest – vitaskuld innan skynsamlegra marka. Bæði íþrótta- og listahreyfingarnar, bjóða upp á hófleg námskeið þar sem börn fá að prófa ýmislegt og finna hvar áhugi og geta kann að liggja. Hið sama má auðvitað segja um almenna skólakerfið.

Gætum þess að festast ekki í fordómum. Sýnum gagnkvæma virðingu á milli íþrótta og lista – og reyndar allra menningarþátta. Snúum bökum saman í því að útrýma fordómum gagnvart menningarþáttum á borð við íþróttir og listir. Vinnum saman í þágu barnanna okkar og samfélagsins í heild við að skapa auðugt og uppbyggilegt samfélag sem skilar okkur í senn góðum þegnum og árangri á alþjóðlegum vettvangi.

Íþróttir og listir eiga að vinna saman.

Ólafur Rafnsson
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Helena Sverrisdóttir í Evrópuleik gegn Sviss þann 26. ágúst 2008. Helena kunni vel við sig á sínum gamla heimavelli.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið