© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
   
15.5.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðari - Ísland í FIBA-Evrópu
Ég vil byrja á að nota tækifærið til að þakka fyrir afar mörg og hlý heillaóskaskeyti sem mér hafa borist frá hreyfingunni vegna kjörs í stjórn FIBA Evrópu. Um var reyndar að ræða stofnfund nýs sjálfstæðs álfusambands Evrópu, en fram að þessu hefur stjórn málefna Evrópu verið rekin sem deild innan FIBA.

Þótt vissulega sé ánægjulegt að finna styrkan stuðning þeirra sem maður starfar með, og þótt um ákveðinn heiður sé að ræða – bæði fyrir Ísland og mig persónulega – þá tel ég engu að síður að ekki eigi að gera meira úr kjörinu en efni standa til. Mig langar hér í þessum pistli að velta lítillega upp sjónarmiðum sem kunna að hafa leitt til þeirrar niðurstöðu sem raun varð á.

Eflaust eru margir ólíkir þættir sem valda því að fulltrúi Íslands hlýtur örugga kosningu í stjórn FIBA Evrópu – og má þar nefna atriði á borð við þá ásýnd sem í Ísland hefur sem faglegt og nútímalegt stjórnkerfi með óspillt yfirbragð. Hugsanlega hefur það haft nokkur áhrif að fulltrúar KKÍ hafa haft sig nokkuð í frammi á undanförnum ársþingum, og haft ýmislegt til málanna að leggja.

Ennfremur má nefna hlutleysissjónarmið, en Ísland hefur ekki átt félagslið í efstu þrepum Evrópukeppni, og því ekki blandað sér í hagsmunaárekstur þeirrar baráttu sem háð er innan og utan vallar. Í því samhengi er ánægjulegt að geta þess hversu margar af stóru þjóðunum í Evrópu komu til okkar að fyrra bragði og lýstu yfir stuðningi við framboð Íslands, og má sem dæmi nefna Grikkland, Þýskaland, Ísrael, Spán, Ítalíu og fyrrum ríki Júgóslavíu.

Ísland telst til smáþjóðahóps FIBA, og þær eru nokkuð fjölmennar í hópi þeirra 50 þjóða sem skipa FIBA Evrópu – og höfum við átt góð samskipti við þær vinaþjóðir okkar. Hið sama má vitaskuld segja um Norðurlandaþjóðirnar sem ávallt standa vel saman. Nágrannaríki á borð við Bretlandseyjaríkin og Beneluxlöndin standa okkur einnig nærri, og eigum við mikil samskipti við þær þjóðir.

Enn ein ástæða sem nefna má er árangur landsliða Íslands á alþjóðlegum vettvangi undanfarinn áratug. Sú staðreynd að A-landslið karla hefur verið um miðjan hóp landsliða í Evrópu undanfarin ár, sú staðreynd að drengjalandslið Íslands komst í úrslit Evrópukeppninnar árið 1993 og sú staðreynd að yngri landslið Íslands hafa ítrekað velgt stóru þjóðunum undir uggum á undanförnum árum, eru allt atriði sem við fáum að heyra hjá þingfulltrúum að menn taka eftir – og undrast.

Síðast en ekki síst vil ég reyndar nefna þá ástæðu sem ég tel framar öllum fyrrgreindum ástæðum, en það eru myndarleg störf framkvæmdastjóra okkar hjá KKÍ, Péturs Hrafns Sigurðssonar, en hann nýtur mikillar og verðskuldaðrar virðingar innan FIBA, m.a. sem nefndarmaður í unglinganefnd sambandsins s.l. fjögur ár – og á mínum fyrsta stjórnarfundi hinnar nýju stjórnar FIBA var það mér auðvitað mikil ánægja að taka þátt í að skipa hann í nefndina aftur til næstu fjögurra ára.

Að lokum langar mig að geta þess til gamans að hin nýkjörna stjórn er hreint ekkert árennileg innan körfuknattleiksvallarins. Þar er að finna leikmenn sem léku í NBA fyrir ekki svo löngu síðan, s.s. Predrag Danilovic frá Júgóslavíu, Sarunas Marciulionis frá Litháen og Aleksander Volkov frá Úkraínu, og einnig nokkra af bestu leikmönnum Evrópu s.l. áratugi. Líklega er þetta besta körfuknattleikslið sem ég hef “leikið” með, þó valið hafi e.t.v. ekki byggst á mínum takmörkuðu körfuknattleikshæfileikum.

En framundan er talsverð vinna við mótun hinna nýju samtaka, og tíminn mun einnig leiða í ljós hversu mikill ávinningur verður fyrir Ísland að eiga þar fulltrúa í stjórn. Augljósust eru e.t.v. áhrif á ákvörðunartöku sem snert getur Ísland – t.d. varðandi mótahald og stýringu fjárstreymis – en ekki má heldur vanmeta óbein áhrif í formi persónulegra tengsla innan samtakanna, þekkingar og aðgangs að “kerfinu”. Ég vona sannarlega að ég nái að uppfylla væntingar félaga minna innan íslensku körfuknattleikshreyfingarinnar.

Með þakklætiskveðju,

Ólafur Rafnsson,
formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá störfum allsherjarnefndar á ársþingi KKÍ í Borgarnesi árið 1992, undir stjórn þeirra Ingvars Kristinssonar og Gísla Georgssonar.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið