S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
||
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
31 |
22.4.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðari - Lokahóf KKÍ
Í gegnum árin hefur krafan verið sú að hafa hófið glæsilegt og umgjörð þess eins og við viljum hafa í okkar starfi að öðru leyti – sú besta. Hreyfingin vill kasta af sér svitablautum keppnisbúningum og klæðast sínu fínasta pússi við bestu aðstæður á þessari lokahátíð. Hófið fær gjarnan góða athygli fjölmiðla, og til hófsins bjóðum við heiðursgestum og stuðningsaðilum. Ávallt hefur umgjörðin og framkoma okkar fólks verið með miklum sóma, og ásýnd hreyfingarinnar fengið plús í kladdann. Þótt þær raddir hafi ávallt verið háværari um að glæsileiki hátíðarinnar skuli hafður að leiðarljósi, þá þarf einnig að huga að því að halda kostnaði við hófið niðri eins og kostur er. Að þessu sinni verður að telja verðið – kr. 4.200 – vera einkar hagstætt miðað við það sem í boði er, m.a. skemmtiatriði, vinsæl hljómsveit og þríréttuð máltíð. Vona ég að fundinn hafi verið heppilegur meðalvegur verðs og gæða. Undirritaður skal fúslega viðurkenna að oft hafi mátt reynt að leggja meiri vinnu í að fá fram sjónarmið hreyfingarinnar um fyrirkomulag lokahófsins – þetta er jú hátíð okkar allra sameiginlega – og í því ljósi var málið tekið upp á formannafundi hjá KKÍ í mars. Síðan þá hafa komið fram margar gagnlegar ábendingar, m.a. á vefsíðum, og hefur sannarlega verið reynt að aðlaga dagskrá lokahófsins að þeim athugasemdum eins og kostur er miðað við þann fyrirvara sem til staðar er. Eflaust verða ábendingar þessar tilefni til enn frekari breytinga á næsta ári, en vitaskuld má hinsvegar öllum vera ljóst að staður og tímasetning þetta árið hefur verið ákveðin fyrir allöngu síðan. Í kjölfar formannafundarins var ákveðið að endurvekja gamla aðferðarfræði með því að stofna til vinnuhóps leikmanna og bjóða upp á heimatilbúin skemmtiatriði. Engin launung er á því að slíkt hefur verið vinsælt, þótt slíku fylgi óneitanlega aukin sjálfboðavinna þeirra sem að slíku starfi koma, og vona ég að hreyfingin virði störf þeirra sem að þeim málum koma. Bestu verðlaun slíkra aðila er breið samstaða um góða mætingu á hófið og menn mæti þar með góða skapið í farteskinu. Mæting á lokahóf hefur ávallt verið sveiflukennd innan vissra marka. Hefur mæting ekki síst ráðist af því hvaða félög hafa náð góðum árangri hvert keppnistímabil, og félög sem ekki komast í úrslitakeppni eru augljóslega fjær lokum síns keppnistímabils en þau sem lengra ná í keppni. Þá hafa líklega flestir skilning á því t.a.m. að erfiðara og dýrara sé fyrir félög af landsbyggðinni að sækja hófið, og staðsetning liða í efstu deildum því atriði sem getur skipt máli. Annar áhrifavaldur á fjölda gesta er að mínu mati aukin áhersla á metnaðarfull lokahóf einstakra körfuknattleiksfélaga, sem gjarnan eru tiltölulega skömmu fyrir lokahóf KKÍ – og seðja að hluta til þörf hreyfingarinnar fyrir slíka skemmtun. Tel ég ekki óráðlegt að reyna að samræma uppskeruhátíðir félaganna við lokahóf KKÍ eins og kostur er, t.d. þar sem uppskeruhátíð yngri flokka yrði um daginn, en stjórnarmenn og eldri leikmenn myndu sameinast um að fjölmenna á lokahóf KKÍ. Fyrir tveimur árum kynnti ég reyndar hugmynd um að lokahófsdagurinn yrði helgaður starfsmönnum leikjanna, vefstjórum, dómurum og stjórnum félaganna o.fl. – fólksins í vanmetnu störfunum sem við getum ekki verið án frekar en leikmanna. Keppt væri í fjölmörgum leikjum, þar sem höfð myndu vera hlutverkaskipti þannig að leikmenn meistaraflokka tækju að sér störf á ritaraborði, dómgæslu o.fl. Hvers vegna mætti hreinlega ekki krýna íslandsmeistara stjórnanna eða ritaraborðanna, svo dæmi séu tekin? Á eftir gæti síðan verið uppskeruhátíð viðkomandi félags og um kvöldið lokahóf hinna eldri. Þetta myndi ég kalla að ljúka keppnistímabilinu með viðeigandi stæl og virðingu við þá sem að starfinu koma. En hvað sem framtíðarskipulagi lokahófsins líður þá vona ég sannarlega að hreyfingin sameinist um góða mætingu og glæsilega framkvæmd lokahófs KKÍ í ár, og að ég fái að sjá ykkur sem flest með bros á vör. Ólafur Rafnsson, formaður KKÍ. |