S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
||
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
31 |
18.4.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðari - Guðbjörg og Teitur
Ég vil byrja á því að óska nýkrýndum íslandsmeisturum meistaraflokka í 1. deild kvenna – KR – og Epson-deild karla – Njarðvík – til hamingju. Glæsilegir leikir.
Það er fróðlegt að velta fyrir sér hvað aðgreinir sigurlið frá tapliði í svo jöfnum viðureignum liða með mikla breidd og hæfileika. Er það tæknilegur hæfileiki leikmannanna? Samsetning leikmannahópsins? Skipulag þjálfarans? Hugarfarið? “Dagsformið” fræga? Eða er það e.t.v. einskær heppni? Þessar vangaveltur leiða óneitanlega hugann að yfirlýsingu tveggja lykilleikmanna meistaraliðanna í mótslok um að þeir hygðust leggja skóna á hilluna. Þetta eru vitaskuld þau Guðbjörg Norðfjörð í KR og Teitur Örlygsson í Njarðvik. Vissulega eru einhverjir sem kunna að segja að þessir einstaklingar, sem í dag eru ráðsettir foreldrar, séu komin á síðkvöld síns körfuboltalega æviskeiðs – en, líklega eru þeir enn fleiri sem telja þau eiga nóg eftir og vilja njóta hæfileika þeirra nokkur tímabil í viðbót. Ég er svo sannarlega einn þeirra, þótt ég virði ákvörðun þeirra. En aftur að hugleiðingum um sigurvegarana. Er það tilviljun að þessir tveir leikmenn séu í sigurliði ársins s.l. tvö ár? Eru þau í liðum sem unnu – eða unnu liðin e.t.v. vegna þess að þau voru í liðunum? Hvað hafa þessir leikmenn fram að færa sem fjöldi annarra yngri leikmanna hefur ekki í dag? Í dag eru til leikmenn sem skora meira, frákasta meira, troða flottar og blokka með meiri tilþrifum – hvað er það þá sem gerir þessa einstaklinga eitthvað sérstakari en aðra leikmenn? Ég ætla að segja ykkur mína skoðun. Fyrst ætla ég þó að segja ykkur frá tæplega fertugum Bandaríkjamanni sem þeysist um parkketið þar í landi, og á líklega að baki glæsilegri feril en aðrir íþróttamenn hér í heimi. Þessi leikmaður var skírður Michael Jordan. Í dag er eflaust að finna leikmenn sem skora meira, frákasta meira, troða flottar og blokka með meiri tilþrifum en hann nokkru sinni gerði á sínum ferli. Hvert er maðurinn eiginlega að fara með þessu kynni einhver að spyrja? Jú, þessi samanburður er einfaldlega sá að Guðbjörg Norðfjörð og Teitur Örlygsson eiga það sameiginlegt með nefndum Michael Jordan að hafa til að bera háan stuðul af öllum þessum eiginleikum – en því til viðbótar bætist við það sem gerir þessa leikmenn frábrugðna öðrum leikmönnum með háan hæfileikastuðul. Þetta er óbilandi sigurvilji, virðing og sterkur persónuleiki sem smitar meðspilara og aðra samherja. Á þennan hátt vil ég af okkar íslenska lítillæti setja þau Guðbjörgu Norðfjörð og Teit Örlygsson á sama stall og Michael Jordan. Þau eru “winnerar” svo notuð sé vinsæl sletta. Þrátt fyrir barnmergð á heimili og bálkesti á afmælistertum þeirra þá verður þessi eiginleiki ekki svo auðveldlega tekinn af þeim með aldrinum einum saman. Mig langar hér einfaldlega til þess að þakka þessum frábæru leikmönnum framlag sitt til íslensks körfubolta fram að þessu, og mikla skemmtun fyrir mig sem áhorfanda. Ég hef orðið þeirra gæfu aðnjótandi að kynnast þessum einstaklingum prýðilega vel – þjálfaði reyndar Guðbjörgu á árdögum ferils hennar, og lék gegn Teiti á sínum tíma. Þau eru bæði fyrirmyndir innan vallar sem utan, og körfuknattleiknum til sóma. Takk fyrir mig Guðbjörg – og takk fyrir mig Teitur. Ég mun sannarlega sakna ykkar af vellinum, og tek undir allar áskoranir um að fá ykkur til að hætta ekki – eða a.m.k. að byrja þá aftur fljótlega. Jordan gerði það. Ólafur Rafnsson, formaður KKÍ. |