© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
         
29.12.2010 | Hannes S. Jónsson
Áramótapistill formanns KKÍ
Ágætu félagar,

Nú þegar árið 2010 er senn á enda þá er ekki úr vegi að farið sé aðeins yfir árið af vettvangi stjórnar og skrifstofu KKÍ og þá öðru en því sem snýr að mótahaldinu. Mótahaldið er að sjálfsögðu mjög fyrirferðarmikið hjá okkur enda er KKÍ að halda úti einu stærsta og öflugasta mótahaldi sem fram fer innan íþróttahreyfingarinnar hér á landi.

Landsliðsmálin hafa verið mikið í umræðunni hjá okkur en í upphafi þessa árs var tilkynnt að engin yngri landslið færu í Evrópukeppni á þessu ári sem og að A-landsliðin yrðu ekki skráð til keppni. Þetta þýðir að A-landsliðin munu ekki taka þátt á EM fyrr en í fyrsta lagi haustið 2012 sem að sjálfsögðu er stefnt á að gera.

Þrátt fyrir að ekki hafi verið farið í Evrópukeppnir hefur verið öflugt afreksstarf á þessu ári eins og árin á undan hjá yngri liðunum þar sem rúmlega 900 krakkar á aldrinum 11-18 ára komu að starfinu með ýmsum hætti t.d úrvalsbúðum KKÍ, afreksbúðum KKÍ, hefðbundum landsliðsæfingum hjá U15, U16 og U18 ára liðum drengja sem stúlkna.

U16 og U18 ára lið drengja og stúlkna tóku þátt í Norðurlandamótinu í Solna í Svíþjóð þar sem U16 ára drengir urðu Norðurlandameistarar. U15 ára lið drengja og stúlkna fóru á æfingamót í Kaupmannahöfn. U15 ára lið drengja tók fyrst þátt í þessu móti fyrir tveim árum og mótið í ár hjá stelpunum var það fyrsta hjá U15 ára liði stúlkna.

Þannig að þrátt fyrir að A-liðin hafi ekki verið á EM og ekki yngri liðin voru samt spilaðir hátt í 40 landsleikir í körfubolta á árinu 2010.

Á árinu 2011 verður áfram mjög mikið um að vera í afreksstarfi hjá KKÍ .

A-lið karla tekur þátt í Norðurlandamótinu sem fram fer í Svíþjóð í júlí. U20 ára lið drengja mun taka þátt í Evrópukeppninni, U16 og U18 ára lið drengja og stúlkna fara á Norðurlandamót og U15 ára lið drengja og stúlkna fara á æfingamót. Áfram verða að sjálfsögðu úrvals- og afreksbúðir. Endurvakið hefur verið átak í því að þjálfa sérstaklega stóra/hávaxna leikmenn og munu hávaxnir leikmenn verða boðaðir til æfinga fljótlega á nýju ári,

Það má segja að U20 ára lið drengja sé að mörgu leyti frábrugðið öðrum verkefnum sem fram fara í yngri landsliðunum á vegum KKÍ. Markmið U20 er að skapa tækifæri fyrir allra bestu leikmennina undir 20 ára en ekki að halda sig eingöngu við aldursárið, þannig eru t.d. valdir í æfingahópinn drengir fæddir 1991-1994.

Það er því ljóst að afreksstarfið á öllum stigum körfuboltans er afar myndarlegt og öflugt og geta félögin verið stolt af öllum þeim góðu leikmönnum sem þau eiga í afreksstarfi hreyfingarinnnar.

Ástæðan fyrir þeirri ákvörðun að senda ekki landsliðin á EM á þessu ári var eingöngu fjárhagslegs eðlis þar sem erfitt er að fá fjármagn til að standa undir öllum þeim kostnaði sem fylgir því að halda úti landsliðum á ferðum og flugi með þeim aðbúnaði sem þarf.

Því miður þá hefur ríksvaldið ekki sýnt þessum málaflokki nægilegan skilning þegar kemur að því að veita fjármuni til afreksstarfs. Að sjálfsögðu þarf að forgangsraða í ríkiskassanum um þessar mundir en fjármagn til íþróttahreyfingarinnar skilar sér til baka á ýmsan hátt. Afreksíþróttir eru hvetjandi fyrir ungu kynslóðina og er stór þáttur í þeirri forvörn sem íþróttirnar eru. Bestu sendiherrar íslensku þjóðarinnar er íþróttafólkið okkar og listafólkið.

Hvernig má það vera að afrekssjóður ÍSÍ sem fær úthlutað 24,7 milljónum króna úr ríkissjóði fyrir árið 2011 eigi að geta staðið undir afreksstarfi 27 sérsambanda? Það sjá það allir að það er reikningsdæmi sem gengur ekki upp. Er það vilji ríkisstjórnar og alþingismanna að afreksstarf verði aflagt í þeirri mynd sem það er í dag innan íþróttahreyfingarinnar?

En þetta snýst ekki eingöngu um ríkisvaldið því alþjóðasambönd íþróttagreinananna verða einnig að aðstoða aðildarlönd sín og fulltrúar KKÍ sem sækja fundi og eru í samskiptum við forystu og starfsmenn FIBA Europe og FIBA World vinna að því að okkar alþjóðlegu sambönd leggi sitt af mörkum til landa eins og Íslands.

Með ákveðni og bjartsýni hef ég trú á því að á næstu árum náum við einhverjum breytingum til batnaðar bæði hjá ríksvaldi og alþjóða sérsamböndunum.

Stjórn og starfsmenn KKÍ hafa nýtt árið 2010 vel í vinnu sem lítur að endurskipulagningu á skipuriti og markmiðasetningu körfuboltans. Þetta hefur verið gagnrýnin en afar skemmtileg og að mörgu leyti fróðleg vinna fyrir alla þá sem hafa komið að henni. KKÍ hefur eflst og vaxið mikið á síðustu 10-15 árum og því var kominn tími á vinnu sem þessa. Þessi atriði verða kynnt félögunum nú á vormánuðum sem og á þingi sambandsins sem fram fer í Skagafirðinum 6.-7. maí.

Síðastliðið vor gerðist sá sögulegi viðburður að Ólafur Rafnsson fv. formaður KKÍ og núverandi forseti ÍSÍ náði kjöri sem forseti FIBA Europe. Ég held að því miður þá geri margir sér ekki grein fyrir því hér á Íslandi hversu stór sigur þetta var fyrir Ólaf persónulega og ekki síður íslenskan körfubolta og íþróttalíf. FIBA Europe er eitt stærsta álfusamband í heiminum innan íþróttahreyfingarinnar og hefur enginn Íslendingur áður gengt jafn háu embætti innan íþróttahreyfingarinnar. Mín skoðun er sú að Ólafur Rafnsson sé maður ársins 2010 fyrir þennan merkilega og sögulega sigur í vor .

Á nýju ári mun KKÍ fagna 50 ára afmæli og hefur mikil vinna verið við skipulagningu á viðburðum afmælisársins. Afmælið er laugardaginn 29. janúar og þá verður afmælis- og fjölskylduhátið í Vetrargarði Smáralindar. Ég hvet alla til að mæta í Smáralindina 29. janúar og fagna þessum merka áfanga.

Þegar ég ákvað að skrifa áramótapistil þennan þá varð mér ljóst að ég myndi aldrei ná að fara yfir allt það sem mig langaði að skrifa um. Mér fInnst skipta máli að hreyfingin fái smá áramótauppgjör á þessum helstu málum sem hafa verið unnin á árinu af vettvangi stjórnar og starfsmanna KKÍ. Fjölmörg önnur mál hafa verið unnin og leyst svo ekki sé nú talað um öll þau daglegu mál sem upp koma. Það má vel vera að undirritaður muni vera duglegri á nýju ári að setja inn pistla um atburði líðandi stundar.

Það er nú samt þannig að stærsta og veigamesta starfið fer fram á körfuboltavöllum landsins hringinn í kringum í landið á degi hverjum enda er körfuboltinn önnur útbreiddasta íþróttagrein landsins í dag. Allt er þetta unnið í sjálfboðavinnu af einstaklingum sem bera hag barnanna og unglinganna í heimabyggð sinni fyrir brjósti og íþróttarinnar sinnar. Því miður þá gleymist of oft það mikla sjálfboðaliðastarf sem unnið er innan okkar hreyfingar á hverjum einasta degi.

Ég er stoltur af öllum þeim miklu eldhugum sem fara fyrir körfuboltanum í öllum okkar félögum, það er mikil og óeigingjörn vinna sem þessir einstaklingar inna af hendi og oftast fyrir litlar þakkir.

Það er með miklu þakklæti til allra þeirra sem starfa á einhvern hátt innan körfuboltans sem ég færi ykkur óskir um gleðilegt og heilladrjúgt ár 2011 og kærar þakkir fyrir samstarfið á árinu 2010

Hannes S. Jónsson formaður KKÍ
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá keppni drengjalandsliðs Íslands í úrslitakeppni Evrópukeppninnar í Tyrklandi árið 1993.  Hafsteinn Lúðvíksson og Arnþór Birgisson í leik gegn heimamönnum, Tyrkjum.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið