© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
         
7.2.2008 | Halldór Halldórsson
Mál nr. 1x2008
Ár 2008, fimmtudaginn 7. febrúar er dómþing dómstóls Körfuknattleikssambands Íslands háð af Halldór Halldórssyni formanni dómsins.

Fyrir er tekið:
Mál nr. 1/2008
Haukar
gegn
Ungmennafélaginu Snæfelli

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

DÓMUR
I
Mál þetta er móttekið af skrifstofu KKÍ 21. janúar sl. og gögn málsins send formanni dómsins með tölvupósti sama dag. Kærandi er körfuknattleiksdeild Hauka. Ásvöllum, Hafnarfirði.
Kærði er körfuknattleiksdeild Ungmennafélagsins Snæfells, Borgarbraut 4, Stykkishólmi.
Dómsformaður ákvað að málið skyldi sæta meðferð skv. 8. gr. laga um dómstól KKÍ.
Dómkröfur
Kærandi krefst þess að sér verði dæmdur sigur í leik milli aðila máls þessa í II. deild karla, B-riðli, sem fram fór 20. janúar sl.
Kærði gerir ekki kröfur í málinu.
Eftirtalin skjöl hafa verið lögð fram í málinu. Nr. 1 kæra. Nr. útprentun úr gagnagrunni KKÍ um leikjafjölda leikmanna kærða með A liði kærða. Nr. 3 skýrsla leiksins. Nr. 4 tölvupóstur frá kærða.
II
Dómari málsins hlutaðist til um að starfsmenn skrifstofu KKÍ gæfu kærða frest til að til að tjá sig um málið og það hefur hann gert með tölvupósti.
Sem rökstuðning fyrir kröfum sínum vísar kærandi til þess að kærði hafi verið með ólöglega skipað lið í umræddum leik. Með liði kærða hafi leikið Jón Ólafur Jónsson en honum hafi verið óheimilt að taka þátt í umræddum leik þar sem hann hafi á þessum tíma verið meðal sjö mínútuhæstu leikmanna að meðaltali með A-liði kærða. Í þessu sambandi vísar kærði til 22. gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót Telur kærandi að lið kærða hafi því verið ólöglega skipað í leiknum.
Í tölvupósti þeim sem kærði sendi vegna kærunnar segir m.a. svo ,,...þá játum við brotið hið snarasta. Jón Ólafur Jónsson spilaði leikinn í þeirri trú að hann væri löglegur. Jón hefur verið meiddur undanfarnar vikur og við töldum öruggt að hann væri ekki meðal 7 mínútuhæstu leikmanna liðsins (sem er rétt.) En reglur segja að meðaltali og þar verður brotið til.”
III
Niðurstaða
Þegar fyrir lá að kærði gerði ekki kröfur í máli þessu ákvað formaður dómstólsins að dæma málið sjálfur í samræmi við niðurlagsákvæð 8. gr. laga um dómstól KKÍ.
Samkvæmt því sem að framan er getið liggur fyrir að kærandi og kærði telja báðir að kærði hafi gerst brotlegur við nefnda 22. gr. um körfuknattleiksmót. Í fyrstu málsgrein títtnefndrar greinar segir svo, ,,II. DEILD karla skal skipuð þeim liðum sem ekki eiga sæti í úrvalsdeild eða I. deild. Ennfremur er öllum félögum innan KKÍ heimilt að senda B-lið í II. deild. Sjö leikjahæstu leikmönnum A-liðs hverju sinni er ekki heimil þátttaka með B-liði. Séu tveir eða fleiri leikmenn með jafn marga leiki í 7. sæti í mfl. karla A-liða, er ekki heimilt að nota einn þeirra með B-liði. Þegar miðað er við sjö leikjahæstu leikmenn A-liðs skal miða við spilaðar mínútur að meðaltali í leik samkvæmt tölfræði KKÍ á yfirstandandi tímabili.”
Á síðasta ársþingi KKÍ var gerð breyting á greininni en áður var eingöngu miðað við leikjafjölda en ekkert tillit tekið til þess hversu margar mínútur leikmenn hefðu leikið. Með breytingunni var stefnt að því að ungir leikmenn sem oft á tíðum eru í leikmannahópi en spila lítið sem ekkert verði ekki ólöglegir með B-liðum. Hins vegar verður ekki hjá því horft að verulega hefur misfarist með orðalag breytingarinnar. Eins og greinin hljóðar nú er enn talað um 7 leikjahæstu menn hverju sinni en síðan einnig talað um mínútur. Þrátt fyrir að fyrir liggi að hverju var stefnt með breytingunni verður ekki hjá því komist að horfa á orðalag greinarinnar eins og það var samþykkt á síðasta ársþingi KKÍ. Hafi það verið skýr og ótvíræður vilji að breyta greininni á þann veg að spilaðar mínútur að meðaltali í leik væri sá mælikvarði sem nota ætti þegar finna ætti út hvaða 7 leikmenn A-liðs væri óheimilt að nota hefði átt að segja það skýrt og greinilega. Það var nauðsynlegt þar sem verið var að gera breytingar á reglu sem staðið hafið óbreytt í allmörg ár. Hér verður að hafa í huga að reglur verða að vera skýrar þannig að við lestur þeirra verði ráðið hvað við sé átt en það er langsótt túlkun að leikmenn verði leikjaháir eftir þeim fjölda mínútna sem þeir hafa spilað. Greinin verður samkvæmt orðanna hljóðan ekki skilin á annan veg en þann að þeir 7 leikmenn sem flesta leiki hafa leikið séu ólöglegir en þegar fleiri en einn eru jafnir í sjöunda sæti verði að skoða hver þeirra hafi leikið flestar mínútur að meðaltali í leik og hann sé þá ólöglegur en séu tveir eða fleiri enn jafnir sé óheimilt að nota einn þeirra. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að sýkna kærða af kröfu kæranda og af því leiðir að úrslit leiksins standa óbreytt.
Halldór Halldórsson formaður dómstóls KKÍ kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ
Kærði,Ungmennafélagið Snæfell er sýkn af kröfum Hauka.

Halldór Halldórsson.

Dómurinn er sendur til KKÍ í tölvupósti og skrifstofu sambandsins falið að birta dóminn fyrir aðilum. Dóminn skal birta á heimasíðu KKÍ í samræmi við ákvæði 17. gr. laga um dómstóla KKÍ.

Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Bakverðir íslenska kvennalandsliðsins sem tók þátt í undankeppni Evrópumótsins 2008. F.v. Hildur Sigurðardóttir, Helena Sverrisdóttir, Pálína Gunnlaugsdóttir og Ingibjörg Jakobsdóttir.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið