© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
18.1.2008 | Gísli Gíslason
Mál nr. 7x2007
Ár 2008, þriðjudaginn 15. janúar er dómþing dómstóls Körfuknattleikssambands Íslands háð af Gísla Gíslasyni dómara dómstólsins.

Fyrir er tekið:
Mál nr. 1 / 2008
Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar (KFÍ)
gegn
Ungmennafélaginu Þór, Þorlákshöfn og
Mótanefnd Körfuknattleikssambands Íslands.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R :

Mál þetta er móttekið af skrifstofu KKÍ þann 21. desember 2007. Um er að ræða tvær kærur, samhljóð, annars vegar gegn Ungmennafélaginu Þór, Þorlákshöfn og hins vegar gegn Mótanefnd Körfuknattleikssambandi Íslands.

Dómkröfur kæranda, KFÍ: KFÍ fer fram á að þessi frestun á leik KFÍ og UMF Þórs, sem leika átti kl. 12.00, Laugardaginn 15. desember 2007, verði dæmd ómerk. Jafnframt að KFÍ verði dæmdur sigur í leiknum 20-0 og Þór gert að greiða þær sektir sem gildandi
reglugerð kveður á um.

Dómkröfur UMF Þórs: Aðalkrafa kærða er að málinu verði vísað frá dómi og að mótanefnd finni nýjan leikdag eins og venja er með frestaða leiki. Til vara er krafist sýknu.

Dómkröfur Mótanefndar: Ekki eru gerðar sérstakar dómkröfur af hálfu mótanefndar.

Mál þetta var tekið fyrir á dómþingi mánudaginn 14. janúar s.l. og voru þá lögð fram eftirfarandi skjöl:

Nr. 1 Kæra KFÍ gegn UMF Þór dags. 21.12. 2007
Nr. 2 Kæra KFÍ gegn Mótanefnd KKÍ dags. 21.12.207
Nr. 3 Greinargerð UMF Þórs dags. 2.1. 2008.
Nr. 4 Greinargerð Mótanefndar KKÍ, ódags.
Nr. 5 Tölvupóstur Flugfélags Íslands, ódags.

Málavextir:
Föstudaginn 14. desember 2007 átti að fara fram á Ísafirði leikur milli KFÍ og UMF Þórs í meistaraflokki karla í körfuknattleik. vegan veðurs var leiknum frestað til laugardagsins 15. desember kl. 12:00. Kærandi greinir frá því að á laugardagsmorgni hafi undirbúningur leiksins hafist á laugardagsmorgni um kl. 10:30. Fljótlega hafi þó borist tilkynning um stutta seinkun vegan bilunar í flugvél Flugfélags Íslands. Stuttu síðar hafi síðan borist símtal frá starfsmanni Mótanefndar KKÍ, Oddi Jóhannssyni, um að ákveðið hefði verið að fresta leiknum og að mótanefnd hafi fallist á þá frestun um óákveðinn tíma eftir samtal við þjálfara UMF Þórs, Björn Ægi Hjörleifsson. Ástæður frestunarinnar telur kærandi vera sér hulin ráðgáta, en að leikmenn UMF Þórs hafi mætt seint til flugs.
Af hálfu kærða hefur komið fram að lið UMF Þórs hafi verið komið um borð í flugvél Flugfélags Íslands, svo og dómarar leiksins, þeir Einar Þór Skarphéðinsson og Davíð K. Hreiðarsson, þegar bilun hafi komið upp í vélinni og að farþegar hafi þá farið frá borði. Þá hafi farið af stað atburðarrás sem leiddi til þess að leiknum var frestað, aðallega þar sem útlit fyrir flug til baka væri óvisst. Hafi tilkynning þar um verið birt á heimasíðu KKÍ kl. 14:08 þann 15. desember 2007. Fyrir liggur lýsing í tölvupósti frá Flugfélagi Íslands um atburðarásins og astæður á flugvellinum í Reykjavík, en kærði, UMF Þór mótmælir þeirri lýsingu sem rangri.
Í greinargerð formanns Mótanefndar KKÍ kemur fram að upphaflega hafi verið rætt um að fresta umræddum leik fram yfir áramót þar sem þjálfari UMF Þórs hafi haft af því áhyggjur að komast ekki til baka sama dag, en leikmenn í liði hans ættu að vera í prófum eftir umrædda helgi. Samkvæmt upplýsingum frá þjálfara UMF Þórs hafi orðið töf á flugi vestur vegan bilunar í flugvél Flugfélags Íslands og að samkvæmt heimildum hans væri útlit með flug seinni part dagsins tvísýnt. Í ljósi þessara upplýsinga frá þjálfara UMF Þórs hafi því verið ákveðið að fresta leiknum. Mat á flugveðri seinni part dags frá Ísafirði hafi hins vegar reynst rangt. Í greinargerðinni kemur einnig fram að rétt hefði verið að hafa samband við starfsmann Mótanefndar KKÍ áður en endaleg ákvörðun hafi verið tekin.

Málsástæður og lagarök:
Af hálfu kæranda KFÍ er því haldið fram að frestun leiks KFÍ og UMF Þórs hafi verið tekinn á röngum forsendum, og útlit sé helst fyrir að þjálfari Þórs hafi vísvitandi gefið formanni mótanefndar rangar upplýsingar. Veruleg fyrirhöfn hafi verið hjá KFÍ við að undirbúa fyrirhugaðan leik og mikil vonbrigði með að honum hafi verið frestað. Vísar kærandi til 10. og 11. greinar reglugerðar KKÍ um körfuknattleiksmót.

Af hálfu kærða, UMF Þórs, er vísað til þess að formaður mótanefndar KKÍ hafi ákveðið að fresta umræddum leik og því hafi hvorki leikmenn eða dómrar mætt til leiks. Vísar kærði til greinar 3 C í reglugerð fyrir mótanefnd KKÍ. Hann mótmælir því að 10. og 11. grein reglugerðar um körfuknattleiksmót eigi við í þessu tilviki þar sem greinin eigi einungis við þegar lið mætir ekki til leiks án skýringa. Að auki hafi engin skýrsla verið rituð þar sem leiknum hafi verið frestað.

Í greinargerð formanns Mótanefndar KKÍ kemur fram að endanleg ákvörðun hafi verið tekin af honum á grundvelli þeirra upplýsinga sem hann hafi fengið, en að mistök hafi verið gerð með því að sannreyna ekki þær upplýsingar sem fyrir lágu.

Niðurstaða:
Þó svo að máli þessu sé um sumt áfátt þá verður það tekið til dóms. Í fyrirtekt málsins þann 14. janúar s.l. mátti skilja fulltrúa kærða, UMF Þórs, sem svo að ef aðalkrafa kærða yrði ekki tekin til greina þá bæri að sýkna hann. Þá eru engar sérstakar dómkröfur af hálfu Mótanefndar KKÍ. Í greinargerð tilgreindi kærandi, KFÍ, nöfn fimm vitna, sem hann ákvað að kalla ekki fyrir dóminn, en áskyldi sér rétt til að gera það síðar ef til áfrýjunar málsins kæmi.

Í reglugerð um Mótanefnd KKÍ er kveðið á um í grein 3 C að nefndin taki ákvörðun um frestun og niðurfellingu leikja. Í reglugerð um körfuknattleiksmót er einnig kveðið á um þetta í 14. grein reglugerðarinnar, en þar segir: “Mótanefnd KKÍ er heimilt að taka ákvörðun um frestun leiks vegna óveðurs, sjúkdómsfaraldurs eða af öðrum gildum ástæðum. Mótanefnd er heimilt að afla þeirra gagna sem hún telur þurfa til að taka ákvarðanir um frestun leikja”. Ekki er nákvæmlega kveðið á um með hvaða hætti skuli standa þar að verki í störfum nefndarinnar, en líta verður svo á að mat hennar á “gildum ástæðum” og ákvörðun formanns nefndarinnar í nefndu tilviki sé endanleg afgreiðsla málsins. Með tilkynningu sinni til starfsmanns mótanefndar frestaði formaður Mótanefndar KKÍ leiknum á grundvelli þeirra ákvæða sem um nefndina gilda.
Í lögum og reglum KKÍ er ekki gert ráð fyrir því að ákvörðunum Mótanefndar KKÍ verði áfrýjað eða þeim vísað til dómstóls KKÍ. Ákvarðanir nefndarinnar eru því endanlegar og verða viðkomandi málsaðilar því að sætta sig við þær burt séð frá því hver fyrirhöfn hefur verið við að undirbúa einstaka leiki. Því verður ekki séð að kæruheimild sé fyrir hendi varðandi störf Mótanefndar KKÍ og ber því að vísa málinu hvað nefndina varðar frá dómi.

Varðandi kæru KFÍ á hendur UMF Þór verður að líta til þess að dómarar leiksins og lið UMF Þórs mættu ekki á leikstað enda hafði formaður Mótanefndar KKÍ komið boðum til starfsmanns mótanefndar og hann tilkynnt með skýrum hætti um frestun leiksins. Á það er fallist með kærða, UMF Þór, að 10. og 11. grein reglugerðar um körfuknatteiksmót, eiga ekki við um hið kærða tilvik þar sem lögmæt tilkynning Mótanefndar KKÍ hafði þegar verið gefin út þegar liðið hætti við að fara á Ísafjörð. Breytir þar engu þó svo að upplýsingar til Mótanefndar KKÍ kunni að hafa verið ófullkomnar eða jafnvel rangar. Kærði UMF Þór, mátti því treysta því að leiknum hefði verið frestað án þess að slíkt hefði aðrar afleiðingar í för með sér en ákvörðun um nýjan leikdag. Ekki eru efni til að vísa kæru KFÍ á hendur UMF Þór frá dómi, en framangreind niðurstaða leiðir til þess að sýkna ber kærða, UMF Þór af kröfum kæranda, KFÍ.

D Ó M S O R Ð :

Kæru KFÍ á hendur Mótanefndar KKÍ er vísað frá dómi. UMF Þór er sýknað af kröfu KFÍ.

Gísli Gíslason (sign)

Dómurinn er sendur til KKÍ í tölvupósti og skrifstofu sambandsins falið að birta dóminn fyrir aðilum. Dóminn skal birta á heimasíðu KKÍ.



Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Telma Ásgeirsdóttir var í íslenska U-16 ára liðinu á Norðurlandamótinu í Solna í Svíþjóð 2009. Telma er að undirbúa sókn á sænska varnarmanninn.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið