© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
 
4.5.2007 | Hannes S. Jónsson
Ræða formanns KKÍ á Ársþingi
Þingforseti,
ágætu félagar,

Nú hefur ársskýrslu sambandssins fyrir liðið starfsár verið dreift. Mig langar til að hvetja ykkur öll að kynna ykkur efni hennar vel. Ég ætla ekki að lesa upp skýrsluna, heldur ætla ég að stikla á helstu atriðum skýrslunnar og þeim þáttum sem upp úr standa.

Að baki er annasamt starfsár, eins og gengur og gerist í jafn stórri hreyfingu og körfuknattleikshreyfingin er. Starfsárið var að þessu sinni kannski mun annasamara en vant er, þar sem yfirstjórn sambandsins var að takast á við ný verkefni; sá er hér stendur tók við formennsku síðastliðið vor, Friðrik Ingi tók við sem framkvæmdastjóra síðla sumars og Oddur Jóhannsson tók við starfi mótastjóra um mitt sumar.

Það er alveg á hreinu að það eru ekki margir sem gera sér grein fyrir því hversu umfangsmikið starf fer fram innan okkar raða og hvað skrifstofa samabandsins þarf að sinna mörgum fjölbreyttum verkefnum dag hvern. Mótahald KKÍ er í dag eitt það umfangsmesta á landinu og í raun ótrúlegt hversu vel gengur að halda utan um það, því það eru orðin nokkur ár síðan farið var að tala um að bæta þyrfti við þriðja starfsmanninum á skrifstofu sambandsins. Í raun þyrfti að bæta við þremur til fjórum starfsmönnum svo vel sé og allt getið orðið eins og við viljum hafa það, það er þó enn fjarlægur draumur. Mikið af þeirri vinnu sem fullmönnuð skrifstofa sambandsins ætti að vinna lendir í staðinn á stjórn og nefndum KKÍ. Mótanefnd og dómaranefnd hafa til að mynda, lagt mikla vinnu í mótahaldið, allt í sjálfboðavinnu. Þessum einstaklingum vil ég þakka kærlega fyrir ómetanlega vinnu.

Tímabilið í vetur var sérlega skemmtilegt og í hugum margra eitt það skemmtilegasta í manna minnum. KKÍ lagði sitt af mörkum til að svo yrði með því að reyna að efla innviðina og utanumhaldið. Það er svo ávallt í höndum félaganna að framkvæma, búa til umgjörð og stemmningu. Það tókst frábærlega og eiga félögin þakkir skildar fyrir þá miklu og góðu vinnu.

Samskipti við fjölmiðla eru mjög mikilvæg fyrir körfuknattleikshreyfinguna. Síðustu ár hefur KKÍ lagt mikinn metnað í það að sinna fjölmiðlum eins og best verður á kosið og mun svo verða áfram. Vefsíða sambandsins, kki.is, er klárlega meðal bestu vefsíðna landsins sem fjallar um íþróttir, þó hún takmarkist aðeins við körfuboltaumfjöllun. Almenn umfjöllun um körfubolta hefur batnað síðustu ár og var umfjöllunin í vetur, þá sérlega í úrslitakeppninni, mörgum fjölmiðlum til sóma. Útsendingar Sýnar voru á heimsmælikvarða og ég fullyrði að útsending SÝNAR í síðasta leik KR og Njarðvíkur í DHL-höllinni hafi verið besta sjónvarpsútsending íþróttaviðburðar hér á landi fyrr og síðar.

Eitt af stóru málunum í dag eru aðstöðumál hreyfingarinnar, þar spila inn í gólfefni í íþróttahúsum, málefni sem við eigum eftir að ræða ítarlega á þessu þingi, og útikörfuboltavellir. Því miður er það svo að aðstaða úti við er víðast hvar ansi bágborin á sama tíma og háværar raddir heyrast í samfélaginu um að börn og unglingar hreyfi sig minna en áður. Hér þarf stórfellt átak til, svo aðstaðan verði boðleg. Þetta er vinna sem þarf að fara fram heima í héraði og mun KKÍ reyna að koma að þeirri vinnu eins og hægt er, mikilvægt er þó að félögin hafi frumkvæði í þessu máli, þar sem þeirra aðgangur að sveitastjórnarmönnum er jafnan greiðari.
Því ber þó að fagna að síflellt fleiri sveitarfélög eru að taka sig á, nú síðast Reykjavíkurborg sem hefur lofað nýjum útikörfuboltavöllum, sambærilega þeim er stendur við Holtaskóla í Reykjanesbæ.

Fjármálastaða sambandsins er fjarri því að vera í lagi, eins og glögglega sést í ársreikningi KKÍ. Vandamálið er uppsafnað og þurfti stjórn KKÍ að taka margar erfiðar, en jafnframt nauðsynlegar ákvarðanir á þessu starfsári. Eitt helsta verkefni næstu stjórnar verður að ná enn betri tökum á vandanum og gera hvað hægt er til að vinna bug á honum á sem skemmstum tíma. Ákvarðanir um að draga saman seglin í landsliðsstarfi eru vonandi tímabundnar, en þó nauðsynlegar í ljósi fjárhagsstöðu KKÍ. Það er metnaður hjá KKÍ til að halda úti öflugu landsliðsstarfi til frambúðar, það verður þó ekki gert nema að KKÍ geti staðið undir því starfi. Það er ábyrgðarlaust að blása út gjöldin án þess að hafa tekjur á móti, svoleiðis rekstur gengur ekki til lengdar og myndi að lokum gera KKÍ að máttlausu sérsambandi. Það er því ljóst að ef ekki nást fleiri aðilar til samstarfs og ef ríkisvaldið fer ekki að koma enn meir að rekstri landsliða, mun landsliðsstarf vera í lágmarki næstu misserin.

Núverandi ríkisstjórn og menntamálaráðherra hafa áttað sig á því að sérsamböndin og landsliðsstarf skipta máli fyrir samfélagið og hafa því aukið fjárveitingar til íþróttamála og er það þakkarvert. Betur má ef duga skal, þeir fjármunir sem KKÍ fær frá ríkisvaldi eru sáralitlir miðað við þörfina. Í því samhengi má benda á að KKÍ er rekið að stærstum hluta fyrir sjálfsaflafé. Þessu er öfugt farið á norðurlöndunum, þar sem sérsambönd eru rekin að mestum hluta fyrir opinbert fé. Á tyllidögum og rétt fyrir kosningar eru stjórnmálamenn á þeirri skoðun að íþróttir og afreksmenn í íþróttum sé nauðsynlegur partur af því að vera þjóð á meðal þjóða og að forvarnargildið sé ótvírætt. Af hverju hafa stjórnmálamenn ekki stigið stærri og hraðari skref í átt til okkar í íþróttahreyfingunni og okkar sérsambandanna og veitt myndarlegt fjármagn af ríkisfé til að hægt sé halda úti eðlilegu landsliðsstarfi? Ég hvet stjórnmálamenn okkar til þess að standa saman að því að auka til muna framlag ríkisins til íþróttamála og sérsambanda og stórt skref væri stigið ef landslið sérsambanda innan ÍSÍ fengju frekari fjármuni úr ríkisjóði.

Mig langar að nota tækifærið hér og þakka samstjórnarmönnum mínum fyrir málefnalegt og gott samstarf í vetur. Það er nauðsynlegt fyrir körfuboltann að hafa öfluga einstaklinga innan stjórnar sambandsins og það höfum við svo sannarlega í stjórn KKÍ.

Jóni Halldórssyni þakka ég sérstaklega fyrir samstarfið síðustu árin, en hann hefur ákveðið að draga sig í hlé eftir fimm ára setu í stjórn KKÍ. Ég þakka honum fyrir góða vinnu fyrir körfuboltann í landinu og samstarfið undanfarin ár.

Starfsmönnnum okkar þakka ég innilega fyrir gott og ánægjulegt samstarf, Oddur Jóhannsson tók við erfiðu starfi síðastliðið sumar og hefur verið að komast betur og betur inn í það í vetur. Hann hefur lagt á sig mikla vinnu svo að mótahaldið gangi sem best fyrir sig.

Friðrik Ingi tók svo sannarlega við erfiðu búi. Samskipti okkar hafa verið mikil og það eru forréttindi að fá að vinna með manni eins og honum. Ástríða hans fyrir körfuknattleiksíþróttinni er engu lík. Við erum heppin að hafa Friðrik Inga í okkar liði. Samstarf okkar hefur verið mjög mikið og má segja að ég og hann séum í miklum samskiptum allan sólarhringinn nema kannski yfir blánóttina.

Að lokum óska ég þingfulltrúum góðs gengis við þingstörf í þessu fallega umhverfi hér á Flúðum.


Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Fréttamenn Stöðvar 2, þeir Einar Bollason og Valtýr Björn Valtýsson, í beinni útsendingu frá stjörnuleik NBA í Phoenix í Bandaríkjunum í febrúar 1995,
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið