© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
       
6.5.2006 | Hannes Sigurbjörn Jónsson
Ræða formanns KKÍ við setningu ársþings 2006
Forseti ÍSÍ, þingforseti, þingfulltrúar

Með þingskjölum hafið þið fengið árskýrslu stjórnar og nefnda í hendur. Ekki ætla ég að fara að lesa það sem þar stendur heldur koma að nokkrum atriðum sem að mörgu leyti stóðu uppúr á síðasta starfsári stjórnar.

Í lok aprílmánaðar tók ég við sem formaður Körfuknattleikssambands Íslands af Ólafi Rafnssyni, sem þurfti að segja af sér formennsku til þess að vera kjörgengur í embætti forseta ÍSÍ. Eins og þingheimur veit, var Ólafur kjörinn forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Kjör Ólafs til forseta ÍSÍ er merkur áfangi í körfuboltasögunni því þetta er í fyrsta sinn sem aðili úr körfuknattleikshreyfingunni gegnir æðsta embætti íþróttahreyfingarinnar, það er því sérstaklega ánægjulegt að íþróttahreyfingin hafi fundið leiðtoga sinn í Ólafi.

Nýliðið körfuboltaár var annasamt og ber þar hæst verkefni landsliða KKÍ.

Alls voru fimm unglingalandslið á faraldsfæti síðasta sumar. Sextán og átján ára landslið karla og kvenna fóru á Norðurlandamót í Svíþjóð í maí og var árangur liðanna góður, þó engir titlar hafi unnist að þessu sinni. Fyrirkomulagi Norðurlandamóta yngri landsliða var breytt árið tvöþúsund og þrjú og er nú komin góð reynsla á þetta fyrirkomulag. Við munum leggja mikla áherslu á það að Norðurlandamót yngri landsliða verði haldið með sama sniði í nánustu framtíð.

Sextán og átján ára karla og kvennalið okkar, ásamt tuttugu ára karlaliði fóru á Evrópumót víðsvegar um álfuna í júlí og ágúst. Árangur sextán og átján ára karlaliðanna hefur vakið gríðarlega athygli víðsvegar um Evrópu, enda óvanalegt að smáríki eins og Ísland eigi fulltrúa á meðal þeirra bestu. Sextán ára karlaliðið hélt sæti sínu í A-deild, eins og frægt er orðið, og átján ára karlaliðið vann sig upp í A-deild. Það þýðir að í sumar fara bæði sextán og átján ára karlaliðin til keppni í A-deild en Ísland er ein af fáum þjóðum í Norður-Evrópu sem getur státað af þessum árangri. Árangur tuttugu ára karlaliðsins varð því miður ekki jafn góður og vonir stóðu til, því margir af sterkari leikmönnum sem til greina komu gáfu ekki kost á sér í verkefnið.

Árangur sextán og átján ára kvennaliðanna var viðunandi. Við getum verið stolt af þessum stelpum, en bæði liðin eru brautryðjendur í því að festa þátttöku stúlknaliða okkar í Evrópukeppnum og þess verður ekki langt að bíða að við sjáum þær vera að berjast um að komast upp í A-deild.

Árangur yngri landsliðanna má fyrst og fremst þakka því öfluga starfi sem fram fer hjá félögunum í landinu. Til að tryggja áframhaldandi góðan árangur á alþjóðavísu hvet ég félögin til þess að halda áfram sínu góða starfi í yngri flokkunum.

A-landslið karla og kvenna kepptu á Smáþjóðaleikunum í Andorra. Fyrir mótið var markið sett hátt og stefnt að sigri hjá báðum liðum. Því miður náðist það ekki og höfnuðu liðin í öðru sæti. Næstu Smáþjóðaleikar verða í Mónakó á næsta ári þar sem Ísland stefnir að sjálfsögðu á gull.

A-landslið karla hélt í langt ferðalag til Kína í lok ágúst til að etja kappi við heimamenn í tveimur leikjum. Seinni leikurinn, sem fram fór í Harbin, var sýndur beint og fylgdust 600 milljónir manna með leiknum í sjónvarpi. Íslenski hópurinn vakti mikla athygli hvert sem hann fór og allar ferðir voru farnar í lögreglufylgd. Ferðin tókst í alla staði mjög vel og var hin ánægjulegasta.

Karlalandsliðinu tókst því miður ekki ætlunarverk sitt að komast upp í A-deild Evrópukeppninnar. Danir komu í heimsókn og þurftum við að sigra til að eygja möguleika á því að komast upp í A-deild. Það tókst ekki þar sem leikurinn tapaðist með sautján stigum.

Í haust hefst Evrópukeppnin að nýju og mun karlaliðið spila í riðli með Finnlandi, Georgíu, Luxemburg og Austurríki. Að sjálfsögðu kemur ekkert annað til greina en að tryggja Íslandi beina leið í A-deild eftir tvö ár.

Kvennaliðið mun í fyrsta sinn í sögunni taka þátt í Evrópukeppni og er það vel við hæfi nú á ári kvennakörfuboltans í Evrópu. Stelpurnar eru í riðli með Hollandi, Írlandi og Noregi. Það verður því mikið um að vera í september hjá okkur þegar leikirnir fara fram. Landsliðsnefndir karla og kvenna vinna nú hörðum höndum að því að fá æfingaleiki í sumar, svo að liðin verði sem best undirbúin fyrir átökin í september.

Björgvin Rúnarsson varð FIBA dómari í júní og eigum við hér á Íslandi þá þrjá starfandi alþjóðlega dómara. Helgi Bragason varð FIBA-Instructor í júní, en starfandi FIBA leiðbeinandi hefur aldrei verið á Íslandi fyrr.

Það var ánægjulegt að fá Nar Zanolin framkvæmdastjóra FIBA Europe hingað til lands í lok júní. Haldinn var sérstakur fundur með honum og fulltrúum hinna Norðurlandanna. Á fundinum voru rædd sameiginleg mál Norðurlanda gagnvart FIBA Europe. Fundurinn var mjög gagnlegur og allir aðilar mjög ánægðir með hann. Þetta var í fyrsta sinn sem framkvæmdastjóri FIBA Europe sækir Ísland heim og mikill heiður sem hann sýndi Íslandi með heimsókn sinni.

Í haust braut kvennalið Hauka blað í sögu körfuboltans með því að vera fyrsta félagsliðið frá Íslandi sem sendir lið til þátttöku í Evrópukeppni kvenna. Framtak kvennaliðs Hauka er lofsvert og vonandi verður framhald á því að íslensk félög sendi kvennalið í Evrópukeppni.

Keflavík tók þátt í Evrópukeppni félagsliða í karlaflokki þriðja veturinn í röð. Keflvíkingar hafa staðið sig með prýði í þessari keppni og gaman að fá tækifæri til þess sjá góðan alþjóðlegan körfubolta hér á veturna. Það lítur allt út fyrir að bæði Keflavík og Njarðvík muni senda lið sín í Evrópukeppni næsta vetur.

Ár kvennakörfuknattleiks í Evrópu hófst núna í mars og mun standa fram í september 2007, þegar átakinu lýkur með Evrópukeppni kvenna á Ítalíu. Stefnt er að hinum ýmsu atburðum í kringum þetta átak hér á landi og mun Guðbjörg Norðfjörð stýra þessu verkefni fyrir hönd KKÍ.

Eitt af aðal vandamálum okkar í dag eru úti körfuboltavellir. Við þurfum öll að leggjast á eitt núna þær fáu vikur sem eru fram að sveitarstjórnarkosningum að vinna í þeim málum. Það eru fá sveitarfélög sem hafa körfuboltavellina sína við skólana í lagi. Nú er lag að vinna í þessu. Við hjá KKÍ munum að sjálfsögðu gera allt sem við getum í þessum málum en best að er vinna þetta “heima” í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Í haust munu formaður og framkvæmdarstjóri stefna að því að heimsækja öll félög í Iceland Express deildum karla og kvenna. Það er ljóst að hjá félögunum liggur mikil þekking og reynsla og má því mikið af þeim læra. Fyrrverandi formaður og framkvæmdarstjóri heimsóttu félögin fyrir nokkrum árum með góðum árangri.


Að lokum óska ég þingfulltrúum góðs gengis við þingstörf og að þingfulltrúar verði málefnalegir og óhræddir við að koma skoðunum sínum á framfæri körfuboltanum til heilla.



Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Sumarið 2009 skrifaði KKÍ og Marka hef. umboðsaðili Spalding undir þriggja ára samning þess efnis að leikið verður með Spalding bolta í Iceland Express-deild karla og kvenna. Á myndinni sjást Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Björn Leifur Þórisson frá Marka ehf. skrifa undir samninginn.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið