© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
       
8.3.2006 | Ólafur Rafnsson
Formannspistill - Tryggingamál
Áfram heldur umfjöllun um einstaka rekstrarþætti íþróttahreyfingarinnar sem eiga sér skírskotun til hins almenna viðskiptalífs. Tryggingar eru þar flókinn frumskógur ábyrgðartrygginga, rekstrarstöðvunartrygginga, starfsábyrgðatrygginga, eignatrygginga o.s.frv. Hinsvegar eru ekki svo mörg ár síðan tryggingar voru nefndar í sömu andrá og íþróttir - a.m.k. ekki á Íslandi.

Íþróttastarfsemi er mikilvægur hlekkur í samfélagi okkar, og ég hygg að flestir séu mér sammála um að eðlilegt lágmarksumhverfi almannatrygginga skuli vera til staðar. Sem betur fer eru alvarleg slys ekki algeng við iðkun íþrótta. Fyrir nokkrum árum gagnrýndi ég hinsvegar í pistli ójafnræði einstakra eininga samfélagsins að þessu leyti - og nefndi sem dæmi alvarlegt slys ungrar handknattleikskonu - og velti fyrir mér hversu betur hún hefði staðið gagnvart tryggingamálum sínum ef hún hefði verið “afreksmaður” á launum hjá ríkinu líkt og þekkist innan annarra eininga menningargeirans.

En umfjöllun um tryggingar innan íþróttahreyfingarinnar hafa öðlast nýjar víddir í samhengi við stóra atvinnumannasamninga íþróttamanna. Tengist þetta málefni að nokkru nýlegri umfjöllun minni í pistli um ofurlaun í íþróttum. Þetta skekkir þann grundvöll sem íþróttastarf í Evrópu hefur verið reist á, þ.e. samspili grasrótar innan félaga og afreksstarfs innan landsliða. Þessi þróun virðist því miður stefna í þá átt að draga þessa þætti enn frekar í sundur, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Keppni landsliða kann að leggjast af á tiltölulega skömmum tíma ef ekkert er að gert - og bitnar verr á smærri og veikari þjóðum.

Ég las nýlega umfjöllun um deilumál innan knattspyrnunnar í Evrópu er varðar kröfu belgíska liðsins Charleroi á hendur FIFA um greiðslu launa fyrir þá leikmenn sem taka þátt í landsliðsverkefnum. Mun þessi kröfugerð vera runnin undan rifjum G-14 hópsins svonefnda. Ef byggt er á langtímamarkmiðum íþróttahreyfingarinnar um útbreiðslu og íþróttalegan árangur þá hriktir í kerfinu við slíkar kröfur, en ef byggt er á markmiðum fjárhagslegs hagnaðar - sem því miður virðist vera að verða æ meira ráðandi - þá kunna þetta að virðast eðlilegar kröfur. Þjóðir álfunnar - og þá á ég við á vettvangi stjórnmála - verða hreinlega að fara að gera það upp við sig hvorir hagsmunirnir eigi að verða lagðir til grundvallar, geti þeir á annað borð gripið inn í þessa þróun.

Sem dæmi má nefna að í tveimur síðustu úrslitakeppnum Evrópukeppni landsliða í körfuknattleik - nú síðast í Belgrad í Serbíu - þurfi þýska körfuknattleikssambandið að greiða sem nemur 200.000 Evrum í tryggingariðgjöld til þess að fá heimild til að nýta NBA leikmanninn Dirk Nowitzki með landsliðinu fyrir hvora keppni. Þetta er fjárhæð sem er langt umfram heildarveltu íslenska körfuknattleikslandsliðsins á einu ári, svo dæmi sé tekið.

Raunar kom sambærilegt mál upp hjá KKÍ fyrir tæpum tveimur árum þegar Jón Arnór Stefánsson hafði verið samningsbundinn Dallas Mavericks, en það leystist á síðustu stundu í kjölfar undirritunar samnings hans við Dynamo St. Pétursborg á sínum tíma. Hefði mál þetta líklega orðið okkur hlutfallslega þyngri baggi en kollegum okkar í Þýskalandi, þótt ekki hafi málið snúist um jafn háar fjárhæðir.

Í þessum tilvikum rekast á tveir menningarheimar íþrótta, þ.e. annarsvegar hin hefðbundnu markmið landsliða í Evrópu og fyrirtækjarekstur NBA-deildarinnar - eða eftir atvikum G-14 hópsins. Í sjálfu sér má hafa skilning á sjónarmiðum hvors aðila um sig - miðað við forsendur hvors um sig - en þetta er nefnt hér í því samhengi að við þurfum öll að vera meðvituð um það hvert við stefnum innan íþróttahreyfingarinnar ef hagnaðarmarkmið fyrirtækjarekstrar verða ofan á. Það eru forsendurnar sem við þurfum að taka afstöðu til, annað eru fyrst og fremst rökréttar afleiðingar.

Það er full ástæða til þess að deila áhyggjum íslenskrar knattspyrnuhreyfingar af þróun mála varðandi ágreining Charleroi og FIFA. Málið snýst um eina leið íþróttafyrirtækja til þess að láta landslið greiða fyrir sína starfsemi, og firra sig þar með ákveðinni ábyrgð á grasrótaruppbyggingu íþróttahreyfingarinnar. Ég hygg að við myndum vart vilja standa frammi fyrir því að íslenska landsliðið í knattspyrnu yrði að vera án snillinga á borð við Eið Smára Guðjohnsen vegna þess að KSÍ gæti ekki uppfyllt milljóna eða tugmilljóna kröfur um tryggingariðgjöld og jafnvel launagreiðslur í landsliðsverkefnum.

Hér þurfum við öll að vera sameiginlega á verði.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Páll Axel Vilbergsson að skjóta yfir Panagiotis Trisokkas, leikmann Kýpur, á Smáþjóðaleikunum 2009. Ísland tapaði leiknum 54-87. Með sigrinum tryggði Kýpur sér nánast gullið þó þetta væri aðeins annar leikdagur leikanna. Kýpur vann gullið að lokum og Ísland fékk bronsið.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið