© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
         
20.1.2006 | Bogi Hjálmtýsson
Dómstóll KKÍ - Mál nr. 1/2006
Ár 2006, föstudaginn 20. janúar kl. 12:00, er dómþing körfuknattleiksdómstóls KKÍ sett og háð af Boga Hjálmtýssyni, að Bæjarhrauni 18, Hafnarfirði.

Fyrir er tekið:
Mál nr. 12/2005;

Íþróttafélagið Hamar/Selfoss
gegn
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

DÓMUR;

I.
Mál þetta var móttekið af skrifstofu KKÍ þann 13. janúar 2006. Kærandi er Íþróttafélagið Hamar/Selfoss, Heiðmörk 57, 810 Hveragerði. Kærður er Körfuknattleiksdeild Keflavíkur, Hringbraut 108, 230 Keflavík.

Undirritaður dómari í dómstól KKÍ tók við málinu þann 18. janúar s.l.

Dómkröfur kæranda;

Kærandi krefst þess honum verði dæmdur sigur í leik Keflavíkur og Hamars/Selfoss sem fram fór þann 12. janúar 2006, í Iceland Express deildinni.

Kærði krefst þess að úrslit leiksins verði látin standa (88-77), en í staðin fái Guðjón Skúlason eins leiks bann.
Til vara gerir kærði þá kröfu að leikurinn verði leikinn að nýju án þess að Guðjón Skúlason sitji á bekknum.

Eftirtalin skjöl hafa verið lögð fram í málinu;
Nr. 1. kæra dags. 13. janúar 2006. Nr. 6. útskrift úr félagaskiptatali.
Nr. 2. staðfesting á móttöku kæru hjá KKÍ. Nr. 7. útskrift um mótahald.
Nr. 3. Greinargerð kærða. Nr. 8. afrit af dómi KKÍ nr. 3/2005.
Nr. 4. afrit af leiksskýrslu. Nr. 9. boðun til þingfestingar.
Nr. 5. yfirlit um tölfræði leiksins. Nr. 10. tilk. KKÍ um frestaða/breytta leiki.

II.

Sem rökstuðning fyrir kröfum sínum um sigur í leiknum vísar kærandi til 14.gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót þar sem fram kemur að mótanefnd KKÍ er heimilt að taka ákvörðun um frestun leiks vegna óveðurs, sjúkdómsfaraldurs eða af öðrum gildum ástæðum og þurfi að endurtaka leik eða hafi leik verið frestað hafi þeir einir rétt til þáttöku sem til þess höfðu rétt fyrir upphaflega leikinn. Kærandi vísar til heimasíðu KKÍ þar sem fram komi í félagaskiptaskjali að Guðjón Skúlason sé ekki löglegur leikmaður Keflavíkur fyrr en 29. desember 2005. Þar sem leikur þessara tveggja liða hafi upphaflega átt að fara fram þann 15. desember 2005 hafi verið óheimilt að tefla honum fram í leik Keflavíkur og Hamars/Selfoss sem fram fór í Iceland Express deildar karla þann 12. janúar s.l., en Guðjón Skúlason hafi verið skráður leikmaður nr. 12 í þeim leik samkvæmt leikskýrslu.
Kærandi vísar til leikskýrslu leiksins, upplýsingar um félagaskipti og fordæmis í mál dómsstóls KKÍ, nr. 3/2005.

III.

Í greinargerð kærða kemur fram að hann telji að ekki hafi verið um frestaðan leik að ræða. Leikurinn hafi verið færður til vegna þess að Keflavík lék í Evrópukeppni. Undantekningalaust hafi leikir á Íslandsmóti verið færðir til vegna þessa þar sem lítill sem enginn sveigjanleiki sé fyrir hendi í Evrópukeppni. Um leið og fyrir liggi hvenær leikir Keflavíkurliðsins í Evrópukeppni skulu leiknir eru leikir á Íslandsmóti færðir til. Leikir í riðlakeppni Evrópukeppni liggi fyrir áður en Íslandsmót hefst þannig að strax sé hægt að gera ráðstafanir vegna árekstra. Kærði ítrekar að þeir leikir sem fluttir séu til teljist ekki frestaðir leikir. Dagsetningar vegna leikja sem eru í úrslitakeppni Evrópukeppninnar að riðlakeppni lokinni liggi ekki fyrir fyrr en síðar. Um leið og þær dagsetningar séu þekktar séu leikir á Íslandsmóti færðir til. Þetta sé vinnuregla sem skapist hafi og að það liggi alveg ljóst fyrir þegar Íslandsmót hefst að leikir Keflavíkurliðsins (eða annars félags sem þátt tekur í Evrópukeppni) verða færðir ef þeir rekast á leiki í Evrópukeppni. Því sé ljóst að ekki er um ófyrirséða frestun leikja að ræða, t.d. vegna óveðurs eða slíks, heldur tilfærslu á leikdögum, eða endurröðun leikdaga vegna þátttöku í Evrópukeppni. 14. gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót eigi því ekki við um þetta mál og gildi ekki. Kærði vísar t.d. til annarra leikja sem leiknir hafa verið undir sömu formerkjum en þeir hafi ekki verið taldir frestaðir leikir heldur hafa þeir fengið nýjan leikdag um leið og dagatal Evrópukeppni liggur fyrir.



Jafnframt vill kærði benda á til vara að umræddur leikmaður hafi ekki tekið þátt í umræddum leik það geti allir staðfest sem sáu leikinn. Reglugerðin kveði nefnilega á um þátttöku, en skilgreini hana ekki nánar, en með þátttöku í leik felist að leika vörn, skora stig, taka fráköst eða leggja á einhvern hátt eitthvað af mörkum sem hefur áhrif á gang leiksins. Guðjón hafi ekki leikið eina sekúndu í leiknum og hafi engin áhrif haft á gang mála. Hann hafi ekki tekið þátt í leiknum og hafi verið samkvæmt þriðju grein leikreglna KKÍ varamaður allan tímann meðan á leiknum stóð. Hvergi í lögum eða reglugerðum KKÍ er þátttaka skilgreind sem seta á bekk eða nafn á leikskýrslu og þeir sem til þekki hljóti að vera sammála um að þeir einir taki þátt í leik sem eru inni á leikvelli, því eru þeir einir skilgreindir sem leikmenn í leikreglum.
Kærði tekur fram að ástæða umræddrar greinar í 14. reglugerðarinnar sé ugglaust sú að félag eigi ekki að hagnast á breyttum leikdegi með því móti að það mæti til leiks á nýjum leikdegi með leikmann sem styrkir liðið, t.d. með því að skora stig eða taka á annan hátt taka þátt í leiknum. Kærði tekur fram að mál nr. 3/2005 sem kærandi vísar til máli sínu til stuðnings sé ekki fordæmisgefandi. Í því máli hafi leikmaður sem þar um ræðir (leikmaður Skallagríms) tekið þátt í leiknum og haft áhrif á gang mála. Lið hans hafi hagnast á hans þátttöku. Það sama gildi um önnur sambærileg kærumál hjá KKÍ. Samkvæmt vitneskju kærða er ekkert fordæmi fyrir dómi KKÍ í máli sem þessu, þar sem lið er kært vegna ólöglegs varamanns (ekki leikmanns) sem tekur ekki þátt í leiknum.
Kærði ítrekar að kærandi hafi engan óhag haft eða skaða af setu Guðjóns á bekknum og geti ekki borið fyrir sig að liðið hafi tapað leiknum á ólöglegan hátt. Allir leikmenn sem hafi tekið þátt í leiknum hafi verið löglegir liðsmenn og unnið leikinn heiðarlega. Það sé langsótt að segja að lið kæranda hafi tapað leiknum með 11 stigum vegna setu Guðjóns á bekknum.
Kærði telur að kærandi sé að notfæra sér orðalag reglugerðarinnar en taki ekki tillit til "anda" og tilgangs reglugerðarinnar sem sé að koma í veg fyrir ósanngirni vegna nýs leikdags. Slík ósanngirni hafi ekki verið til staðar í þessu tilfelli. Stjórnendur og forráðamenn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur hafi samtals fleiri hundruð ára reynslu að baki í stjórnun og rekstri körfuboltaliða. Þeim sé alveg ljóst að um yfirsjón var að ræða og að skynsamlegra hefði verið að hafa Guðjón ekki á leikskýrslu í umræddum leik. Kærði viðurkennir yfirsjón sína en telur engu að síður afar óréttlátt, óíþróttamannslegt og ódrengilegt af kæranda að kæra með von um breytt úrslit þar sem umrædd yfirsjón hafði engin áhrif á leikinn. Kærða finnst afar mikilvægt að viðurlög séu í samræmi við alvarleika brotsins og það er úr öllu samhengi að dæma leikinn tapaðan vegna þessarar yfirsjónar sem hafði engin áhrif á framgang leiksins.
Kærði óskar sérstaklega eftir því að fram komi að sé vafi um hvort 14.gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót eigi við eða ekki og sé vafi hvort þátttaka í leik sé fólgin í því að vera skráður á leikskýrslu þá eigi þeir að njóta vafans.

IV.

Í máli þessu koma fram ýmsar siðferðisspurningar um sanngirni, óréttlæti, óíþróttarmannslega hegðun og ódrengskap vegna framkominnar kæru. Allt eru þetta spurningar sem aðilar þessa máls og körfuknattleikshreyfingin í heild verður að spyrja sjálfan sig og svara og hvaða stefnu þessi mál eru að taka. Dómara þessa máls er hins vegar sá vandi á höndum að geta ekki tekið afstöðu til siðferðislegra spurninga heldur verður hann að meta og dæma málið út frá staðreyndum málsins og með túlkun á lögum og reglum KKÍ.
Staðreynt er að leikur Keflavíkur og Hamars/Selfoss í Iceland Express deild karla átti að fara fram fimmtudaginn 15. desember 2005. Leikurinn fór fram 12. janúar 2006. Í 14. gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót kemur fram að mótanefnd KKÍ sé heimilt að taka ákvörðun um að fresta leik af gildum ástæðum. Ekki er nauðsynlegt skilyrði 14.gr. að um ófyrirsjánleg atvik sé að ræða. Mótanefnd frestað leiknum vegna þátttöku Keflavíkur í Evrópukeppni með vísan til 14.gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót. Kærði getur því ekki borið fyrir sig að 14.gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót eigi ekki við um tilvik þetta.
Staðreynt er að Guðjón Skúlason var ekki löglegur leikmaður með Keflavík fyrr en 29. desember 2005. Guðjón Skúlason var skráður leikmaður á leikskýrslu í leiknum þann 12. janúar 2006, þrátt fyrir þá staðreynd að hann léki ekki með í leiknum. Í 14.gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót segir að þeir einir hafi rétt til þátttöku sem til þess höfðu rétt fyrir upphaflega leikinn. Samkvæmt framansögðu hafði Guðjón ekki rétt til að leika í leiknum sem fram átti að fara þann 15. desember 2005.
Guðjón var þátttandi í leiknum um leið og hann var skráður sem leikmaður á leikskýrslu. Í grein 4.1.2 í leikreglum um körfuknattleik sem tóku gildi þann 1. september 2004 kemur fram að leikmaður megi leika þegar nafn hans hefur verið sett á leikskýrslu áður en leikur hefst. Í sömu reglum lið B.3.3 kemur fram að ritari skrái nöfn og kennitölu leikmanna beggja liða og notar til þess leikmannalista sem hann fær frá þjálfara eða fulltrúa hans og í lið B.3.3.2 segir “ í næsta dálk skal ritari rita nöfn leikmanna sem þátt taka í leiknum...”.
Að framan er rakið að Guðjóni Skúlasyni var óheimilt að taka þátt í framangreindum leik og mætti liðið því ólöglega skipað til leiksins. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót telst lið sem ólöglega er skipað hafa tapað leik í samræmi við reglur FIBA hverju sinni. Áralöng venja er fyrir því að beita reglum FIBA um “game lost by forfeit”. Reglur FIBA sem hér er vísað til eru “Official Basketball Rules” sem tóku gildi þann 1. september 2004, grein 20 liður 2.1 er kveða á um að lið sem tapar leik af einhverjum ástæðum tapi honum með stigatölunni 20-0. Telst Keflavík því hafa tapað nefndum leik með stigatölunni 20-0.

Viðurlög við sumum brotum voru áður ákveðin í reglugerð um körfuknattleiksmót en eru nú í höndum dómstólsins, sbr. 16. gr. laga um dómstóla KKÍ. Hér háttar svo til að Keflavík notaði leikmann sem uppfyllir ekki reglur um hlutgengi. Sem meginreglu verður að gera ráð fyrir því að félög sæti sektum þegar þau nota ólöglega leikmenn. Með hliðsjón af máli þessu þykir ekki ástæða að beita sektum.

Bogi Hjálmtýsson, dómari í dómstól KKÍ kveður upp dóm þennan.


DÓMSORÐ.

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur telst hafa tapað leik gegn Hamar/Selfoss sem fram fór þann 12. janúar 2006, í Iceland Express deild karla með stigatölunni 20-0.

Bogi Hjálmtýsson, dómari í dómstól KKÍ.



Heimilt er að skjóta til áfrýjunardómstóls KKÍ, dómum og úrskurðum dómstóls KKÍ og er áfrýjunarfrestur 5 virkir dagar frá því að dómur var kveðinn upp sbr. ákvæði 11.gr. laga um dómstól KKÍ.

Dómurinn er sendur til KKÍ í tölvupósti. KKÍ skal birta dóminn fyrir málsaðilum og á heimasíðu KKÍ í samræmi við ákvæði 17. gr. laga um dómstól KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Svona á að fagna!    Krakkarnir úr íslensku liðunum fögnuðu vel og innilega á Norðurlandamótinu árið 2004. En þrjú af fjórum liðum Íslands stóðu uppi sem sigurvegarar og til að fagna góðum árangri skelltu liðin sér í sturtu.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið