© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
 
10.1.2006 | Ólafur Rafnsson
Formannspistill - Íþróttamaður ársins 2005
Í síðasta pistli mínum vék ég að hluta til að árlegri hugvekju minni um val á íþróttamanni ársins og sameiginlegt hóf Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. Velti ég þar upp sjónarmiðum um erfðaeiginleika annarsvegar og vaxandi hlut stóru boltagreinanna hinsvegar - einkum á kostnað einstaklingsíþrótta.

Það sem var ef til vill markverðast við valið að þessu sinni var eflaust sá einhugur sem nú stóð um valið. Ekki eingöngu sú staðreynd að knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen var nú valinn með fullu húsi stiga, heldur ekki síður sá raunveruleiki að venju fremur var ekki nokkur sem gagnrýnt hefur það val eða sett fram önnur sjónarmið, eins og virðist hafa fremur verið viðtekin venja í gegnum árin.

Ekki er að finna rykkorn á þessum titli knattspyrnuhetjunnar okkar - og vil ég senda honum einlægar hamingjuóskir fyrir hönd íslenskrar körfuknattleikshreyfingar. Við getum öll samglaðst af heilindum með honum. Og viðtalið við kónga íþróttastöðvanna, þá Samúel Örn og Arnar Björnsson - maður lifandi, þetta var eins og skrifað handrit að skemmtiþætti. Virtist eiga hnyttin tilsvör við öllum þeirra spurningum, og lét hvergi slá sig út af laginu.

Eiður Smári er afar góð fyrirmynd fyrir börn og ungmenni hér á landi - og raunar um allan heim, jafn frægur og pilturinn er orðinn. Gjöf hans á verðlaunafé sínu til einstakra barna í beinni útsendingu sýndi án efa að hann er sjálfur afar einstakur á sinn hátt. Með því innsiglaði hann með táknrænum hætti þann órjúfanlega hluta sjónarmiða vals íþróttamanns ársins sem felst í persónuleika og framkomu utan vallar.

Raunar má segja að allir þeir einstaklingar sem röðuðu sér í efstu sæti valsins eiga það sameiginlegt að vera afskaplega viðkunnalegir einstaklingar og góðar fyrirmyndir fyrir ungt fólk. Má þar sem dæmi nefna þau Guðjón Val Sigurðsson, Ásthildi Helgadóttur og síðast en ekki síst Jón okkar Arnór Stefánsson, sem varð í fjórða sæti þetta árið. Allir þessir einstaklingar hafa allt til að bera til þess að ná lengra í framtíðinni - íþróttalega getu og rétt hugarfar.

Ég vil í þessu samhengi vísa til fyrri pistla minna um afreksfólk og hugarfar, og bið alla þá sem ætla sér afrek á sviði íþrótta að gera ekki lítið úr hógværð og hrokaleysi afreksmanna, samfara virðingu við mótherja sína og samborgara. Í pistli fyrir nokkrum árum fjallaði ég jafnframt um stéttleysi íþróttahreyfingarinnar – þar var sú skoðun sett fram að hið eina sem skapar einstaklingum virðingu innan íþrótta er tæknileg geta íþróttamannsins samhliða persónuleika og andlegum eiginleikum til þess að fara af skynsemi með þá getu.

Við hjá körfuknattleikshreyfingunni erum auðvitað einstaklega stolt af Jóni Arnóri - sem nú var meðal 10 efstu í kjörinu fjórða árið í röð (ekki annað árið eins og ég misritaði síðast - þakka dugmiklum íþróttafréttamanni fyrir ábendingu þar að lútandi). Hann hefur jafnt og þétt hækkað sig á þessum lista, og var nú sannfærandi í fjórða sæti.

Er hann vel að því kominn eftir að hafa orðið Evrópumeistari með Dynamo St. Pétursborg, vera valinn í byrjunarlið stjörnuleiks FIBA Europe League og síðast en ekki síst að vera lykilmaður í liði Carpisa Napoli í ítölsku úrvalsdeildinni - einni hinni sterkustu í Evrópu - en þegar þetta er ritað er lið hans einmitt í efsta sæti deildarinnar, og Jón Arnór nýlega búinn að eiga stórleik með 21 stig. Spurning hvort hann eigi eftir að hampa meistaratitli á Ítalíu næsta vor - og varla lækka slík afrek hann á lista yfir íþróttamann ársins á Íslandi.

Framundan er stórt íþróttaár, og án efa eigum við eftir að uppskera bæði gleði og sorg íslenskra afreksmanna á árinu. Við bíðum öll í eftirvæntingu með að sjá uppskeruna - og hver það verður sem hampar hinum nýja verðlaunagrip Samtaka íþróttafréttamanna að ári.

Gleðilegt íþróttaár.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá Evrópukeppni U-20 landsliða í Evora í Portúgal árið 1993.  Þjálfarar liðsins þeir Friðrik Ingi Rúnarsson og Torfi Magnússon.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið