© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
15.11.2005 | Ólafur Rafnsson
Alþjóðavæðing íslensks körfuknattleiks
Í kjölfar umfjöllunar undirritaðs á afrekum ungmennalandsliða Íslands á alþjóðavettvangi er ekki úr vegi að staldra aðeins við og bera saman samskipti Íslands og annarra þjóða almennt að því er varðar körfuknattleik – nú og í fortíðinni.

Fyrstu árin í tæplega 45 ára sögu KKÍ einkenndust ekki af miklum erlendum samskiptum eða fjölþjóðlegri keppni. Vissulega á körfuknattleikurinn á Íslandi að stóru leyti rætur sínar að rekja til samskipta við bandaríska herinn sem hér hefur verið frá því í síðari heimsstyrjöldinni, en bernskuár sambandsins verða þó að teljast hafa fremur einkennst af einangrun – a.m.k. ef miðað er við stöðu mála í dag.

Kaflaskipti urðu með tilkomu erlendra leikmanna um miðbik 8. áratugarins, og hvað sem menn vilja segja neikvætt um þá þróun sem þeir hafa haft á íslenskt íþróttalíf síðan þá hygg ég að óumdeilt sé að þeir hafi innleitt nýjar víddir í körfuknattleikinn sem kappleik – nokkuð sem líklega hefur ávallt verið vanmetið vegna annarra áhersluatriða í veru þeirra hér.

Dvöl og keppni íslenskra leikmanna á erlendri grundu var heldur ekki áberandi fyrstu áratugina. Kappar á borð við Þorstein Hallgrímsson gerðu þó garðinn frægan í Danmörku, og vissulega hefur það vel þekkst að íslenskir leikmenn hafi sótt skóla í Bandaríkjunum samhliða körfuknattleiksiðkun, þótt ekki hafi það verið í sama mæli og nú um stundir.

Þessi þróun hefur náð talsvert lengra í dag ef litið er til fjölda þeirra íslensku leikmanna sem leika körfuknattleik erlendis – beggja vegna Atlantsála. Nema þeir tugum í dag. Á undanförnum áratug eða svo hefur þessi þróun ekki síst einkennst af því að leikmenn hafa verið að skapa sér nafn með stórum liðum í efstu deildum sterkra körfuknattleiksþjóða á borð við Grikkland, Spán, Þýskaland, Rússland og nú síðast Ítalíu. Auðvitað hafa svo sérstöðu hér hin frækilegu afrek NBA-leikmanna okkar, þeirra Péturs Guðmundssonar og Jóns Arnórs Stefánssonar.

Og þá að landsliðum okkar. Leikjafjöldi íslenskra landsliða hefur náð hámarki á undanförnum árum. Ef áratugir KKÍ eru dregnir saman þá var heildarfjöldi leikja 1961-1970 41 talsins, 1971-1980 114 talsins, 1981-1990 198 talsins og 1991-2000 380 talsins. En frá árinu 2001 einu saman hefur heildarfjöldi leikja þegar náð 216. Hér er því um að ræða augljósa þróun að ræða í átt til alþjóðavæðingar.

Í þessu samhengi má jafnframt geta þess að íslensk landslið spila nú að jafnaði víðar í fleiri ríkjum en áður, og orsakast það að hluta til af breyttu keppnisfyrirkomulagi. En fyrstu opinberu landsleikir Íslands utan aðildarríkja Evrópska körfuknattleikssambandsins, FIBA Europe, voru hinsvegar ekki leiknir fyrr en í Kínaferð A-landsliðs karla nú í ágúst s.l. Það er út af fyrir sig merkileg staðreynd.

Svo eru það félagsliðin. Keppnisferðir félagsliða til útlanda þóttu markverð frétt fyrir ekki svo ýkja mörgum árum síðan, og þátttaka í Evrópukeppni hrein upplifun (undirritaður á raunar slíkar minningar frá sínum ferli). Í dag þykir á hinn bóginn varla tiltökumál að fleiri en einn keppnisflokkur fari til keppni á undirbúningstímabili, og þátttaka í mótum í nágrannaríkjunum þykir sjálfsögð.

Leikir félagsliða í Evrópukeppni eru nú ekki einungis í besta falli heima og heiman, heldur eru leiknir heilir riðlar – og lið hafa jafnvel tekið þátt í slíkri keppni ár eftir ár sbr. lið Keflavíkur undanfarin þrjú ár. Ein ánægjulegasta viðbót við þessa flóru er hinsvegar þátttaka kvennaliðs Hauka í Evrópukeppni félagsliða. Auk fjölmargra leikja á undirbúningstímabili félagsliða taka íslensk félagslið þátt í a.m.k. 10-12 leikjum í Evrópukeppni í vetur. Það er eflaust svipað og fyrstu 30 árin í sögu KKÍ.

Miðað við framangreinda samantekt má ljóst vera að alþjóðavæðing íslensks körfuknattleiks er að vaxa sama frá hvaða sjónarhorni slíkt er litið. Þetta hefur án efa átt stóran þátt í þeim árangri sem t.a.m. ungmennalandslið okkar hafa náð á alþjóðavettvangi.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá 40 ára afmælishófi KKÍ 25. febrúar 2001.  Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, með formanni ritnefndar sögu KKÍ, Gunnari Gunnarssyni, og ritstjóra bókarinnar, Skapta Hallgrímssyni.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið