© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
9.11.2005 | Halldór Halldórsson
Félagaskiptanefnd KKÍ - Mál nr.1/2005
Úrskurður félagaskiptanefndar KKÍ

í málinu nr. 1 /2005

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks
vegna félagaskipta
Meagan Hoffman


Miðvikukdaginn 9. nóvember 2005 kvað félagaskiptanefnd KKÍ upp úrskurð í ofangreindu máli. Kærandi er Körfuknattleiksdeild Breiðabliks í Kópavogi.
I
Kröfur
Þess er krafist að nefndin úrskurði að nýskrá beri Meagan Hoffman í íþróttafélagið Breiðablik, sbr. e. lið 2. gr. reglugerðar um félagaskipti. Þess er og krafist að viðurkennt verði að Meagan Hoffman sé orðin löglegur leikmaður Breiðabliks og sé hlutgeng til þátttöku í mótum á vegum KKÍ frá og með 1. nóvember 2005.

Einnig er krafist að gjald skv. f. lið 3. gr. reglugerðar KKÍ um félagaskipti verði fellt niður.
II
Málsatvik
Kæarandi lýsir málsatvikum svo: Breiðablik óskaði eftir því að Meagan Hoffman, sem er Bandaríkjamaður með breskt ríkisfang, yrði nýskráð í Breiðablik. Hún hefur einungis spilað körfubolta með bandarískum háskóla, Adam State College og þar af leiðandi hefur hún aldrei spilað körfubolta með íþróttafélagi sem er hluti af KKÍ eða FIBA. Þessari nýskráningu var hafnað af hálfu KKÍ og talið að hún þyrfti að bíða í mánuð, án nokkurs rökstuðnings fyrir þessari afstöðu. Í framhaldi af því hefur Breiðablik ákveðið að kæra ákvörðun KKÍ til félagaskiptanefnd KKÍ .
Fyrir liggur að eftir að KKÍ hafði móttekið beiðni kæranda um félagaskiptin var kæranda tilkynnt munnlega og með tölvupósti að leikmaðurinn fengi leikheimild einum mánuði síðar. Af hálfu nefndarinnar var óskað eftir sjónarmiðum KKÍ varðandi mál þetta og bárust þau í tölvupósti 7. þessa mánaðar. Þar kemur fram að svo hafi verið litið á að erlendur leikmaður eða félag í hans umboði sé að óska eftir félagsskiptum janfvel þótt leikmaðurinn sé að koma beint úr skóla og þannig hafi þessum málum verið háttað hingað til.

III
Málsástæður og lagarök kæranda
Kærandi bendir á að í a. lið 1. gr. reglugerðar um félagskipti sé tekið fram að félagaskipti og hlutgengi annarra en íslenskra ríkisborgara fari eftir reglugerð um erlenda leikmenn. Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar um erlenda leikmenn sé kveðið á um þeir leikmenn sem hafa ríkisfang Evrópulands og hafa heimild til að spila hér á landi samkvæmt reglum FIBA, skuli undirgangast sömu reglur og gilda um íslenska leikmenn.
Telur kærandi að samkvæmt þessu sé ljóst að grundvöllur fyrir ákvörðun um nýskráningu Megan Hoffman byggist á reglugerð KKÍ um félagaskipti og að sömu reglur eigi að gilda um hana og íslenska leikmenn, þar sem hún hafi breskt ríkisfang. Uppfyllt hafi verið allar formkröfur fyrir nýskráningu hennar sbr. 3. gr. reglugerðar fyrir erlenda leikmenn.
Kærandi vísar einnig til 2. gr. reglugerðar KKÍ um félagaskipti en þar sé mælt fyrir um um tímabil félagskipta. Í d. lið ákvæðisins sé tekið fram að félagaskipti í mfl. kvenna, frá 1. september til 5. janúar, séu frjáls og lúti sömu skilyrðum og í b. lið ákvæðisins. Í b. lið ákvæðisins komi fram að ef leikmaður uppfyllir hlutgengisreglur, og beiðni uppfyllir formreglur reglugerðarinnar, verði leikmaður sem óskar félagaskipta á keppnistímabili löglegur með hinu nýja félagi einum mánuði eftir móttöku beiðni um félagaskipti á skrifstofu KKÍ.
Kærandi telur aftur á móti ljóst beiðni Breiðabliks fyrir Meagan Hoffman sé ekki ósk um félagaskipti heldur beiðni um nýskráningu. Meagan hafi aldrei leikið með félagi innan FIBA heldur einungis háskóla í Bandaríkjum þar sem hún stundaði nám og er fædd og uppalin. Kærandi heldur því fram að ekki séu til settar reglur varðandi nýskráningu leikmanna en framkvæmdin hefi verið sú að þegar leikmaður spilar sinn fyrsta leik með viðkomandi félagi þá skráist þeir sjálfkrafa í það félag og þurfa þeir ekki að bíða í mánuð eftir að fá leikheimild. Því sé augljóst að Meagan Hoffman þurfi ekki að bíða í mánuð eftir því að fá leikheimild enda gildi um hana sömu reglur og íslendinga.
Kærandi bendi á að þar sem sömu reglur eigi gilda um erlenda leikmenn með evrópskt ríkisfang og íslenska leikmenn verði að gæta jafnræðis í ákvarðanatöku um nýskráningu og félagskipti. Tekur kærandi dæmi af íslenskum leikmanni sem fer til Bandaríkjanna tveggja ára gamall og spilar fyrir skólalið þar í landi. Seinna á lífsleiðinni þegar hann er orðinn tvítugur kemur hann til Íslands í lok október og langar að spila með íslensku liði. Þessi leikmaður þyrfti ekki að bíða í mánuð eftir leikheimild og telur kærði ljóst að af samtölum við starfsmenn KKÍ að þessi leikmaður fengi leikheimild undir eins. Sama eigi við um leikmenn í yngri flokkum þeir séu sjálfkrafa skráðir í það félag sem þeir leika fyrst með og þurfi ekki að bíða í mánuð eftir leikheimild
Kærandi telur að ef Meagan Hoffman fái ekki leikheimild nú þegar og þurfi að bíða í mánuð sé ekki jafnræði milli íslenskra leikmanna og erlendra leikmanna með evrópskt ríkisfang. Engin málefnaleg rök búi að baki slíku misrétti. Þá tekur kærandi fram að þótt fyrri framkvæmd KKÍ á nýskráningu erlendra leikmanna með evrópskt ríkisfang hafi farið í bága við ofangreindar reglur rýri það í engu ofangreindan rökstuðning. Ólögmæt framkvæmd á nýskráningu geti aldrei orðið slík framkvæmdarvenja að hún ryðji brott reglum sem gilda um íslenska leikmenn, sem einnig eiga að gilda um erlenda leikmenn með evrópskt ríkisfang, sbr. skýrt orðalag 2. mgr. 1. gr. reglugerðar um erlenda leikmenn. Slík ólögmæt framkvæmdarvenja valdi misrétti á milli íslenskra leikmanna og erlendra leikmanna með evrópskt ríkisfang án þess að málefnaleg rök búi þar að baki. Ef slíkt misrétti ætti að vera regla þyrfti að kveða skýrt á um það í lögum og reglum KKÍ.
Kærandi telur ljóst að ef úrskurður félagskiptanefndar KKÍ verður honum og Meagan Hoffman í hag sé ljóst að gjald skv. f. lið 3. gr. reglugerðar KKÍ um félagaskipti eigi ekki rétt á sér þar sem með réttri framkvæmd hefði KKÍ átt að veita Meagan leikheimild án nokkurra vandkvæða. Er því eðlilegt að gjaldið verði fellt niður eða að KKÍ verði gert að geriða gjaldið.

IV
Niðurstaða
Í máli þessu reynir á túlkun reglna um heimildir erlendra leikmanna til að leika með félagsliðum hér á landi. Reglur um félagaskipti eiga í grunninn ekki við í þessu máli þar sem fyrir liggur að umræddur leikmaður er ekki að skipta um félag í venjulegum skilningi. Það virðist óumdeilt að leikmaðurinn hefur ekki leikið með erlendu félagsliði heldur einvörðungu með háskóla í því landi sem hún hefur verið búsett allt frá barnæsku. Leikmaðurinn er með tvöfalt ríkisfang, enskt og bandarískt, og þegar svo háttar til og annað ríkisfangið er frá landi í Evrópu þá hefur verið litið svo á að heimilt sé að notast við það ríkisfang og í þessu tilfelli telst leikmaðurinn því enskur. Fallast verður á með kæranda að túlka beri reglur um leikmenn sem koma frá landi í Evrópu þannig að um þá gildi sömu reglur og um íslenska leikmenn. Um það hefur skapast áralöng venja að íslenskir leikmenn sem leika með skólaliðum erlendis teljast ekki hafa skipt um félag og eru gjaldgengir með þeim liðum hér á landi sem þeir léku síðast með án nokkurra tilkynninga þar um. Þá liggur og fyrir að einföld skráning dugar til þess að íslenskur leikmaður teljist hlutgengur með því liði sem hann leikur fyrst með hér á landi enda hafi hann ekki leikið með öðru félagsliði á Íslandi eða erlendis. Það er því mat nefndarinnar að þær reglur sem eru í gildi í dag hér á landi standi því ekki í vegi að leikmaður frá landi í Evrópu, sem ekki hefur leikið með félagsliði, teljist löglegur með liði hér á landi frá og með þeim tíma að tilkynning um slíkt berst til KKÍ. Skiptir hér ekki máli þó að af hálfu KKÍ hafi hingað til verið talið að leikmaður sem kemur úr erlendum háskóla sé að óska eftir félagsskiptum. Af hálfu KKÍ var upplýst að FIBA hefur gefið út að ekki þurfi að framvísa ,,letter of clearance” ef leikmenn eru að koma beint úr bandarískum háskólum. Þess í stað þurfi þeir að undirrita yfirlýsingu þar um. Rennir þetta enn frekari stoðum undir sjónarmið kæranda þess efnis að ekki skuli líta á þátttöku leikmannsins í leikjum með háskólaliði á þann veg að hann hafi leikið með félagsliði. Almenna reglan mun vera sú að ,,letter of clearance” þarf að liggja fyrir þegar leikmenn skipta um félag millli landa. Niðurstaða nefndarinnar er því sú að fallast ber á kröfu kæranda enda hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til annars en að öðrum formskilyrðum um skráningu hennar í Breiðablik sé fullnægt, þar með talin undirritun yfirlýsingar í samræmi við kröfur FIBA.
Að mati nefndarinnar er það ekki í hennar verkahring að ákveða hvort gjald fyrir félagsskipti skuli greitt eða ekki og verður því ekki skorið úr þeirri kröfu kæranda með þessum úrskurði. Kærugjald skal ekki greitt.

Úrskurðarorð
Nýskrá skal Meagan Hoffman í íþróttafélagið Breiðablik, frá og með 1. nóvember sl.
Kröfu kæranda um niðurfellingu á greiðslu félagsskiptagjalds er vísað frá.
Kærugjald er fellt niður.


F.h. félagaskiptanefndar

Halldór Halldórsson
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá leik Hauka og ÍR í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði árið 1983.  Hjörtur heitinn Oddsson sækir.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið