© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
   
31.10.2005 | Bogi Hjálmtýsson
Dómstóll KKÍ - Mál 6/2005
Ár 2005, mánudaginn 31. október er dómþing körfuknattleiksdómstóls KKÍ sett og háð af Boga Hjálmtýssyni, að Bæjarhrauni 18, Hafnarfirði.

Fyrir er tekið:
Mál nr. 6/2005;
Körfuknattleiksdeild U.M.F.N.
gegn
Körfuknattleiksdeild Skallagríms.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

DÓMUR.

I.
Mál þetta var móttekið af skrifstofu KKÍ þann 16. október 2005. Kærandi er Körfuknattleiksdeild U.M.F.N., kt. 650182-0229, Norðurstíg 4, 260 Reykjanesbæ. Kærður er Körfuknattleiksdeild Skallagríms, kt. 590593-2499, Skallagrímsgötu 7, 310 Borgarnesi.

Málinu var úthlutað undirrituðum dómara í dómstól KKÍ þann 27. október s.l.

Dómkröfur kæranda;
Kærandi krefst þess að í leik U.M.F.N og Skallagríms sem fram fór þann 13. október 2005, í Iceland Express deild karla, verði kæranda dæmdur 20-0 sigur.
Kærandi gerir einnig þá kröfu að tölfræði leikmanna U.M.F.N. haldi þrátt fyrir að fallist verði á kröfu um 20-0 sigur.

Kærði hefur ekki látið málið til sín taka.

Eftirtalin skjöl hafa verið lögð fram í málinu;
Nr. 1 kæra.
Nr. 2 afrit leikskýrslu.
Nr. 3 afrit af tilkynningu til kærða um greinargerðarfrest.
Nr. 4 útskrift af heimasíðu KKÍ varðandi félagaskipti.
Nr. 5 staðfesting framkvæmdastjóra KKÍ dags. 31. október 2005.



II.
Sem rökstuðning fyrir kröfum sínum um 20-0 sigur í leiknum vísar kærandi til heimasíðu KKÍ þar sem fram komi í félagaskiptaskjali að Dimitar Karadzovski sé ekki löglegur leikmaður Skallagríms fyrr en 29. október 2005 og skv. 2. gr. b) reglugerðar KKÍ um félagaskipti verði leikmaður sem óskar félagaskipta á keppnistímabili löglegur með hinu nýja félagi einum mánuði eftir móttöku beiðni um félagaskipti á skrifstofu KKÍ og þar sem þessi mánuður hafi ekki verið liðinn sé leikmaðurinn ekki með leikheimild.
Sem rökstuðning fyrir kröfum sínum um tölfræði vísar kærandi til þess að rík áhersla sé á að tölfræði leikmanna haldi enda hafi leikmenn U.M.F.N. ekki viðhafst neitt rangt við í þessu tilfelli og því ósanngjarnt þeim að skekkja myndina af heildartölfræði deildarinnar ef að hún færi út vegna framferði Borgnesinga.

III.
Framkvæmdastjóri KKÍ gaf kærða frest til að tjá sig um málið með tölvupósti dags. 19. október s.l., til kl: 12:00, þriðjudaginn 25. október s.l.
Kærði hefur ekki komið fram með neinar athugasemdir og er málið því tekið til meðferðar samkvæmt framlögðum gögnum með vísan til 8.gr.laga fyrir dómstóla KKÍ, án sérstakrar þingfestar eða bókana í þingbók.

IV.
Að framan er rakið að kærði hefur ekki látið málið til sín taka og er því rétt að líta svo á að hann telji fullyrðingar kæranda þess efnis að Dimitar Karadzovski hafi ekki uppfyllt hlutgengisreglur og því verið ólöglegur í leik liðanna sem fram fór þann 13. október 2005, í Iceland Express deild karla, réttar. Í grein 4.1.1. í leikreglum í körfuknattleik er gilda frá 1. september 2004 kemur fram að liðsmaður er hlutgengur þegar hann hefur fengið heimild til þess að leika fyrir lið samkvæmt reglum sem settar eru af skipuleggjendum keppninnar. Samkvæmt upplýsingum frá KKÍ um félagaskipti, hefur Dimitar Karadzovski heimild til þess að leika með Skallagrími frá og með 29. október 2005 að telja. Samkvæmt framanrituðu var Dimitar Karadzovski óheimilt að taka þátt í framangreindum leik samkvæmt ákvæðum 11. gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót og mætti liðið því ólöglega skipað til leiksins. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót telst lið sem ólöglega er skipað hafa tapað leik í samræmi við reglur FIBA hverju sinni. Áralöng venja er fyrir því að beita reglum FIBA um “game lost by forfeit”. Reglur FIBA sem hér er vísað til eru Official Basketball Rules sem tóku gildi þann 1. september 2004, grein 20 liður 2.1 er kveða á um að lið sem tapar leik af einhverjum ástæðum tapi honum með stigatölunni 20-0. Telst Skallagrímur því hafa tapað nefndum leik með stigatölunni 20-0.
Viðurlög við sumum brotum voru áður ákveðin í reglugerð um körfuknattleiksmót en eru nú í höndum dómstólsins, sbr. 16. gr. laga um dómstóla KKÍ. Hér háttar svo til að Skallagrímur notaði leikmann sem uppfyllir ekki reglur um hlutgengi. Gera verður ráð fyrir að félög sæti sektum þegar þau nota ólöglega leikmenn. Með hliðsjón af eðli brotsins þykir refsing, sekt í máli þessu hæfilega ákveðin 15.000 krónur.
Varðandi þá kröfu kæranda að tölfræði leikmanna U.M.F.N. haldi þrátt fyrir að fallist verði á kröfu um 20-0 sigur þá er sú krafa ekki studd neinum tilvísunum í lög eða reglur. Af 16.gr. laga um dómstól KKÍ verður ekki séð að gert sé ráð fyrir slíkri dómsniðurstöðu. Kröfu þessari er því vísað frá dómi.

Bogi Hjálmtýsson, dómari í dómstól KKÍ kveður upp dóm þennan.


DÓMSORÐ.

Körfuknattleiksdeild Skallagríms telst hafa tapað leik gegn Körfuknattleiksdeild U.M.F.N sem fram fór þann 13. október 2005, í Iceland Express deild karla með stigatölunni 20-0.
Körfuknattleiksdeild Skallagríms greiði 15.000 króna sekt til KKÍ.
Kröfum kæranda varðandi tölfræði er vísað frá dómi.

Dómurinn er sendur til KKÍ í tölvupósti. KKÍ skal birta dóminn fyrir málsaðilum og á heimasíðu KKÍ í samræmi við ákvæði 17. gr. laga um dómstól KKÍ.


Bogi Hjálmtýsson, dómari í dómstól KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Pálína Gunnlaugsdóttir, Haukum, reynir að fara framhjá Marín Rós Karlsdóttur, Keflavík, í æfingaleik haustið 2006.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið