S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
|||||
3 |
4 |
5 |
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
11.10.2005 | Ólafur Rafnsson
Ný heimasíða
Heiður að hönnun og uppsetningu síðunnar á Gunnar Freyr Steinsson, líkt og hinnar fyrri, og kunnum við honum bestu þakkir fyrir enda starf þetta minnst unnið af fjárhagslegum ávinningi. Gerir það metnað við gerð síðunnar e.t.v. merkilegri af hversu litlum efnum hún í raun er unnin. Áhugamenn og þátttakendur í körfuknattleik voru í öndverðu í nokkrum fararbroddi innan íþróttahreyfingarinnar við nýtingu netsins – og enn bera metnaðarfullar síður aðildarfélaga okkar fórnfúsu og glæstu starfi vitni. Alls halda nú 30-35 aðildarfélög úti heimasíðum, þótt misvirkar séu. Margar þeirra eru í senn einkar glæsilegar, fjölbreyttar og virkar. Sumar hverjar hafa gengið í gegnum kynslóðaskipti, og verður vart ásættanlegt annað en að sérsambandið sjálft haldi í við slíka þróun endurnýjunar. Þá þreytist undirritaður seint á tilraunum sínum við að vekja athygli á hinni nýju metnaðarfullu starfsstétt sjálfboðaliða innan hreyfingarinnar – vefstjórunum – sem færa okkur nýja vídd upplýsingastreymis, en standa oftast sjálfir verulega í skugganum að baki lyklaborðum sínum. KKÍ hefur undanfarin ár skipulega reynt að efla og skilgreina umfjöllun á heimasíðu sambandsins, og hefur í þeim efnum verið lögð megináhersla á þrjá þætti. Í fyrsta lagi verður heimasíðan að þjóna markmiðum nútíma upplýsingastreymis – til áhugamanna, aðildarfélaga og fjölmiðla. Upplýsingar á heimasíðunni um hreyfinguna, tengiliði og samskiptaupplýsingar, reglur og skipulag, dóma og úrskurði, félagaskipti o.s.frv. eru allt atriði sem í senn spara mikla vinnu við upplýsingamiðlun og smyrja hjól starfseminnar. Ófullnægjandi upplýsingastreymi er helsta uppspretta óánægju og misskilnings. Í öðru lagi er heimasíðan sameiginlegur fréttavettvangur íslensks körfuknattleiks. Í því samhengi hefur verið skilgreint nokkuð ítarlega hvað teljist fjallað um á síðunni, og e.t.v. ekki síður hvað ekki eigi að fjalla um þar. Lögð hefur verið áhersla á að tíðni fréttaáreitis sé viðeigandi og viðfangsefnin innan marka skilgreindrar fréttastefnu – og án þess að fara inn á svið sérhæfðra miðla sem eru betur í stakk búnir til að fjalla um afmörkuð málefni, s.s. umfjöllun um einstaka leiki. Í þriðja lagi er fréttasíðan öflugt útbreiðslutæki. Engin launung er á að síða á vegum sérsambands er ekki algerlega hlutlaus vettvangur þótt áhersla sé lögð á að rétt sé farið með viðfangsefnin. Útbreiðsla fagnaðarerindisins auðveldast fyrst og síðast í því hversu íþrótt okkar er í reynd heillandi, og frásagnir af beinum og óbeinum körfuknattleiksfréttum verður jákvæð útbreiðsla, og tilvísanir á miðla sem fjalla vel um körfuknattleik eiga ekki að vera sparaðar. Ekki má gleyma í þessu samhengi að netið er miðill ungu kynslóðarinnar. Pistill þessi markar upphaf nýs reglulegs dálks á heimasíðunni, og er einn af fimm reglulegum þáttum sem ráðgert er að halda úti um ólík málefni, og finna má sérstaklega í safni hægra megin á síðunni. Vill undirritaður að lokum taka fram að þessir pistlar eru persónulegir af hálfu undirritaðs, en ekki skoðun eða stefna stjórnar KKÍ. Einnig – e.t.v. að gefnu tilefni – skal tekið fram að undirritaður ritar ávallt undir eigin nafni, og hefur ekki talið sér þörf á að taka þátt í nafnlausum pistlaskrifum eða umræðum á netinu. Telji einhver að ritstíll og framsetning sé til eftirbreytni þá lítur undirritaður í sjálfu sér á það sem hrós, en vonar að viðkomandi aðilar geri nánari grein fyrir sér eins og heiðarlegt verður að teljast. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ. |