© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
   
6.6.2005 | Hrannar Hólm
Ferðapistill: Silfur varð raunin hjá karlalandsliðinu í Andorra
A-landslið karla hélt til Andorra í síðustu viku til keppni við heimamenn, Lúxemburg, San Marínó og Kýpur. Þessi keppni er haldin annað hvert ár og höfum við Íslendingar lent í öðru og þriðja sæti keppninnar síðan 1993, en þá unnum við mótið, líkt og árið 1991. Þar á undan lentum við tvisvar í öðru sæti. Það var yfirlýst markmið þjálfara og landsliðsnefndar að vinna sigur, þrátt fyrir að geta ekki tjaldað til sterkasta liði landsins í þetta skiptið. Reyndar voru óvenju margir öflugir leikmenn fjarri góðu gamni, sem dæmi má nefna þá Jakob Sigurðsson, Jón Arnór Stefánsson, Loga Gunnarsson, Friðrik Stefánsson, Damon Johnson og Jón Norðdal Hafsteinsson.

Aðbúnaður í Andorra var með besta móti, gisting og matur í háum gæðaflokki og æfingaaðstaða til fyrirmyndar. Veðrið var gott, reyndar var hitinn mikill, um og yfir 30 stig frá og með þriðjudeginum. Andorra er í töluverðri hæð, um 1500 m yfir sjávarmáli og voru leikmenn frekar andstuttir á fyrstu æfingunni, en höfðu vanist andstæðum á öðrum degi.

Fyrsti leikurinn var á miðvikudeginum gegn Andorra sem hafði kastað frá sér sigri gegn San Marínó deginum áður. Andorra var með áberandi slakasta liðið í keppninni og tapaði öllum leikjunum. Enda kom á daginn að þeir náðu ekki að halda í við hraðan leik okkar manna sem voru á tánum allan leikinn og unnu sannfærandi sigur, 107-77. Hlynur (22 st.), Magnús (20) og Sigurður (14) voru fremstir í flokki okkar manna í þægilegum leik. 3ja stiga hittnin var afar góð, 13 skot af 26 rötuðu rétta leið, þar af setti Maggi niður 6 af 8. Hlynur var afar sterkur í fráköstunum, hirti 12 slík. Egill Jónasson átti skemmtilega innkomu og gersamlega lokaði leið heimamanna að körfunni með því að trufla og verja skot heimamanna. Darryl (11), Helgi (10) og Pavel (8) voru einnig iðnir við kolann.

Á fimmtudeginum mættum við liði Lúxembúrgar sem hafði ætlað sér sigur í mótinu, rétt eins og við. Lúxembúrg hafi beðið 10 stiga ósigur gegn Kýpur í fyrsta leik mótsins og voru þeir ákveðnir að landa sigri. Þeirra helstu leikmenn eru Raniek bræður, öflugir leikmenn og góðar skyttur, sá stærri, Martin, er atvinnumaður í Grikklandi. Einnig hafa þeir tvo Kana í sínu liði og er annar þeirra, Steve Smith, ansi öflugur sóknarmaður. Galli Lúxara er að þeir hafa engan miðherja og eiga erfitt með að fara mikið inn í teiginn í sókninni. Okkar menn byrjuðu afar vel en svo datt botninn úr leiknum. Lengst af leiddu Lúxarar og þegar tæpar þrjár mínútur lifðu leiks var staðan 68-60 fyrir Lúx. En íslensku strákarnir léku afar góða svæðisvörn á lokakaflanum og lokuðu algerlega á sókn Lúxara sem urðu hálfhræddir og frusu í sóknarleiknum, ef svo má að orði komast. Arnar Freyr (5st) kom sterkur inn í lokin og keyrði upp hraðann. Darryl og Páll Axel skoruðu mikilvægar körfur í lokin og Hlynur innsiglaði sigurinn með frábærum fráköstum á lokamínútunum, hirti risafrákast í vörninni og náði síðan eigin frákasti eftir misheppnað víti. Í lokin hafði Ísland náð að jafna og rúmlega það, skoraði 13 stig á móti einu og vann leikinn 73-69. Sigurður var stigahæstur (14st, 7 fr), en auk hans skoruðu Darryl (11), Páll (10), Hlynur (10) og Magnús (9) bróðurpartinn.

Á föstudaginn var komið að úrslitaleiknum gegn Kýpur. Kýpverjar hafa á öflugu liði að skipa og leika afar fastan og aggressívan varnarleik. Þeirra helsta stjarna er bakvörður, Kouranis, sem leikur með PAOK Salonikis í efstu deild á Grikklandi, gríðarlega góður körfuboltamaður. En auk hans eru Jo Jo Garcia og gamli Grindvíkingurinn Darrin Fawkes sterkir sem og fleiri. Óvænta hetjan þeirra var örvhentur leikmaður (númer 7) sem hitti hreinlega úr ótrúlegum skotum, dettandi aftur á bak og fleira, og réðu íslensku varnarmennirnir ekki við hann. En það sem varð okkur að falli var einkennilegt stemmningaleysi á upphafsmínútunum. Kýpur komst í 16-0 áður en okkar menn náðu að svara fyrir sig. Darryl hafði rifbeinsbrotnað daginn áður og gat því lítið leikið sökum eymsla, og aðrir náðu ekki að rífa sig upp fyrr en í seinni hálfleik, en þá var það of seint. Kýpur náði 25 stiga forskoti sem Ísland minnkaði niður í 12, en krafturinn dugði ekki til að jafna og Kýpur hjólaði aftur fram úr og vann sannfærandi sigur, 80-56. Mikil vonbrigði, sér í lagi að hafa ekki náð að veita Kýpur almennilega keppni. Hlynur (15st, 12fr) og Magnús (14st) voru atkvæðamestir.

En nú var einn leikur eftir, gegn San Marínó. Sá leikur var afar mikilvægur, gullið var úr sögunni, en fyrir þennan leik var ljóst að Ísland gæti hafnað í öðru, þriðja eða fjórða sætinu. San Marínó hefur ágæta leikmenn, tveir þeirra eru atvinnumenn í sterkum deildum, einn í efstu deild á Spáni og annar í efstu deild á Ítalíu. Leikstjórnandi þeirra er gamall refur í bransanum og skorar oftar en ekki mikilvægar körfur þegar á þarf að halda. Leikurinn var góður og hraðinn töluverður. Íslenska liðið var í fínu formi og fór Magnús (27 st) fremstur í flokki, setti niður nokkra ótrúlega þrista og endaði með sjö slíka, reyndar úr 17 tilraunum, en 41% nýting í 3ja stiga skotum er vel ásættanleg. Leikurinn var jafn framan af, helst vegna þess hve illa okkur gekk að nýta vítaskotin. En hraðinn vann með okkur. San Marínó hafði færri skiptimenn og þegar leið á leikinn fóru þeir að lýjast og höfðu engin svör. Arnar Freyr (12 st, 5 stoðs) átti frábæra innkomu og skoraði sjö stig í röð á lokakaflanum þegar Ísland sigldi framúr. Magnús kórónaði skotsýningu sína með flautukörfu í lokin og tryggði 12 stiga sigur, 94-82. Hlynur stóð sig vel í leiknum (19 st., 9 fr), þótt ekki hafi hann verið sterkur á línunni. Helgi Magnússon átt frábæran leik, 9 stig og 9 fráköst, og var mjög öflugur í vörninni í lokin.

Að þessum leik loknum voru menn ánægðir með að hafa að minnsta kosti náð silfrinu, þótt gullið hafi gengið okkur úr greipum. Stefnan er sett á að landa gullinu næst og vonumst við til þess að geta teflt fram okkar sterkasta liði, því miðað við metnað og markmið landsliðsins er nauðsynlegt að ná þeirri stöðu að verða bestir meðal þeirra smáu.

Heilt yfir má segja að Hlynur og Magnús hafi verið okkar bestu menn á mótinu. Pavel og Arnar Freyr áttu góða leiki og geta augljóslega báðir stýrt leik landsliðsins. Helgi og Siggi voru að jafnaði góðir. Páll Axel og Fannar áttu ágæta spretti en Darryl var meiddur og gat lítið leikið. Egill kom sterkur inn á móti Andorra og svo aftur á móti San Marínó en fékk full mikið af villum. Sævar nýtti tímann sinn vel í fyrsta leiknum, en fékk ekki tækifæri eftir það, það kemur síðar.

Sigurður Ingimundarson þjálfari var fjarri góðu gamni, þar sem kona hans var að fæða barn á þriðjudaginn og óskum við þeim báðum til hamingju með nýja strákinn. Friðrik Ragnarsson tók stöðu landsliðsþjálfara í þessari keppni og stóð sig með sóma.

Stig íslenska liðsins skoruðu:
• Magnús 70
• Hlynur 66
• Sigurður 42
• Helgi og Darryl 28
• Arnar Freyr 25
• Fannar 23
• Páll Axel 21
• Pavel 19
• Sævar og Egill 4

Flest fráköst
• Hlynur 40
• Helgi 20
• Fannar 17
• Sigurður og Páll Axel 15
• Magnús 14
• Pavel 11
• Darryl 10
• Egill 7
• Arnar Freyr 6

Flestar stoðsendingar
• Pavel 12
• Arnar Freyr og Magnús 8
• Darryl 7
• Helgi og Sigurður 6
• Hlynur 5

Stolnir boltar
• Hlynur 9
• Pavel 4
• Páll Axel 3

Leiknar mínútur
• Hlynur 129
• Magnús 105
• Sigurður 94
• Helgi 81
• Páll Axel og Pavel 80
• Darryl 67
• Fannar 60
• Arnar Freyr 59
• Egill 40
• Sævar 6
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá ársþingi KKÍ á Flúðum árið 1994.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið