© 2000-2022 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
   
1.2.2005 | Ólafur Rafnsson
Leikur án snertingar?
Nú er þátttöku Íslands á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Túnis lokið. Ekki varð árangur samkvæmt væntingum, nú þriðja stórmótið í röð, en ekki er ætlun að fjalla um það hér – a.m.k. ekki að svo stöddu – heldur ætlun að velta fyrir sér samanburði á líkamlegum átökum handknattleiks annarsvegar og körfuknattleiks hinsvegar.

Á heimasíðu Körfuknattleiksdómarafélags Íslands er að finna fastan daglegan lið sem felst í spakmæli dagsins. Fyrir nokkru stóð þar spekin: “Körfubolti er íþrótt án snertingar, en handbolti er snerting án íþróttar”. Hvort tveggja er vitaskuld rangt. Hér er um að ræða gálgahúmor einhvers snillings – sem eflaust hefur horn í síðu íþrótta almennt. Vonandi er niðurstaða þessa pistils raunar ekki sú að hið síðarnefnda kunni að eiga jafnvel betur við um körfuknattleik – því miður.

Þegar William Naismith fann upp hinn heillandi leik körfubolta í lok nítjándu aldar þá var ekki mikið um líkamlega árekstra og átök leikmanna á milli. Sú er sannarlega ekki raunin í dag, og þeir sem halda slíku fram verða vart sakaðir um mikla þekkingu á nútíma körfuknattleik.

Nægir þar að horfa á hin gríðarlega miklu átök sem stöðugt eiga sér stað inni í vítateig, og raunar eru gjarnan utan athygli almennra áhorfenda hverju sinni þar sem þau átök eru oftar en ekki fjarri boltanum. En þetta er e.t.v. mergurinn málsins, þ.e. þeim reglum sem unnið er eftir í dag er fyrst og fremst ætlað að vernda leikmanninn með boltann hverju sinni, og sanngjarna möguleika sóknarmannsins á að njóta þess t.d. að hafa komið sér í skotfæri. Skothendi skal vera frjáls og líkamleg snerting við skotmann er talsverðum takmörkum háð.

Ef bornar eru saman íþróttagreinarnar handknattleikur og körfuknattleikur þá hygg ég að ef menn skoða málið nánar þá er í raun mun meira um stöðug líkamleg átök og snertingar t.d. í maður-á-mann varnarleik í körfuknattleik, heldur en hefðbundinni svæðisvörn í handknattleik þar sem boltinn gengur jafnan utan varnarlínu án snertingar milli liða – nema þá einkum með höndum varnarmanna.

Undantekning frá þessu eru stöðug átök línumanna í handknattleik fyrir stöðu sinni. Hefur þróunin orðið sú að í vaxandi hluta tilvika virðast skipa þá stöðu líkamlega sterkustu leikmenn liða. Gott dæmi um þetta er íslenski landsliðsmaðurinn hrausti, Sigfús Sigurðsson, sem ég hygg raunar að sé einn af fáum íslenskum handknattleiksmönnum sem hafa líkamlega burði til stöðuátaka við stóra og sterka miðherja í körfuknattleiksteignum.

Undirritaður æfði handknattleik í fjöldamörg ár á yngri árum. Ég verð að segja að það er aðdáunarvert hversu reglur í handknattleik hafa breyst með skynsömum hætti á undanförnum árum – menn hafa verið óhræddir við að þróa íþróttina með breytingum til samræmis við það sem vel hefur gengið annarsstaðar, t.d. í körfuknattleik. Það nákvæmlega sama myndum við gera – og höfum án efa gert – þegar svo ber undir.

Enn er þó nokkuð í land á ýmsum sviðum. Vissulega er ég hlutdrægur, en ég get þó ekki látið hjá líða að gagnrýna þann hluta handknattleiksins sem felst í því hversu auðveldlega varnarmaður getur hagnast á broti sínu. Það er dyggð í varnarleik körfuknattleiks að vinna fótavinnu rétt og leggja á sig fyrirfram við að stöðva sóknarmann með snerpu, réttri beitingu skrokks í stað handa o.s.frv. Það að geta bjargað sér með höndum og glórulausum hrindingum án viðeigandi viðurlaga leiðir til þess að lítill hvati er til þróunar í varnarleik.

Afkáralegt ásetningsbrot á sleggjunni skemmtilegu Einari Hólmgeirssyni í lok leiksins gegn Slóveníu er e.t.v. gott dæmi um skort á úrræðum gagnvart þessu vandamáli, á meðan slíkt brot myndi leiða til vítaskota og innkasts í kjölfarið í körfuknattleik. Ég hygg að sú þróun innan körfuknattleiksins að verðlauna vandaðan varnarleik geri þann þátt leiksins áferðarfallegri og áhugaverðari.

Ég bið menn – fordómalaust, en þó til gamans – að gera sér í hugarlund hvernig körfuknattleikur myndi þróast með heimildum til að rífa í og halda leikmönnum með höndum. Með sama hætti hvernig handknattleikur gæti þróast ef slíkt yrði með sama hætti bannað. Reynum að sjá Sigfús Sigurðsson fyrir okkur í körfuknattleiksvörn – og Friðrik Stefánsson í handknattleiksvörn.

Hvort körfuknattleikur eigi að vera leikur án snertingar er hinsvegar annað mál – allt annað mál. Þessum pistli er ekki ætlað að fara djúpt í heimspekilegar hugleiðingar um það hvernig íþróttin okkar ætti að vera.

Aukin líkamleg átök í körfuknattleik tengjast vissulega öðru áhyggjuefni sem er fjölgun mála hjá aganefnd KKÍ, einkum vegna atvika í yngri flokkum. Tilefni er til að fjalla um það í síðari pistlum, en ég tek fram að þessi pistill var að mestu ritaður talsvert áður en átökin í leik Indiana Pacers og Detroit Pistons áttu sér stað.

Snertumst...en varlega…

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Leikmenn á leið á lokahóf KKÍ 1988 í gamla Broadway í Mjódd.  Hreiðar Hreiðarsson, Tryggvi Jónsson og Henning Henningsson.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið