© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
26.1.2005 | Ólafur Rafnsson
Ekki svo slæmt
Evrópudraumur Keflavíkurliðsins er búinn – í bili að minnsta kosti. Leikirnir voru allir stórskemmtilegir og lituðu flóru körfuboltalífsins hér á landi líflegum litum. Ekki síst hefur þessi þátttaka verið ánægjuleg með hliðsjón af hinu skipta keppnistímabili FIBA sem kemur í veg fyrir verkefni landsliða innan keppnistímabilsins, og takmarkar þar með alþjóðlega kappleiki á Íslandi.

Keflvíkingar voru sársvekktir að tapa fyrir svissneska liðinu Benetton Olympic frá Fribourg í Sviss, og voru vonbrigðin e.t.v. skiljanleg í ljósi þess að liðið náði ekki að fullu að sýna sitt rétta andlit á heimavelli líkt og í fyrri umferðum. Vegna mismunandi fjölda liða í deildum keppninnar voru Keflvíkingar í raun grátlega nálægt því að komast í undanúrslitakeppni mótsins.

Hinsvegar tel ég hógværð Keflvíkinga gagnvart hinu svissneska liði vera óþarfa, því liðið er firnasterkt atvinnumannalið. Enginn heimamaður leikur þar mikilvægt hlutverk, heldur eru leikmenn aðkeyptir frá Bandaríkjunum (þrír), Finnlandi, Serbíu (tveir), Króatíu og Bosníu. Liðið lék að mínu mati feikiöflugan og árangursríkan körfuknattleik, og sjaldan sem jafn skipulagður varnarleikur hefur sést hér á landi.

En árangur Keflvíkinga hefur vakið verðskuldaða athygli – ekki eingöngu hér á landi þar sem fjölmiðlar hafa virkilega tekið vel við sér – heldur ekki síður erlendis, m.a. innan vébanda Evrópusambandsins, FIBA Europe. Ennfremur hafa þagnað þær raddir sem heyrðust á síðasta keppnistímabili um að Keflavíkurliðið byggði einungis á tveimur erlendum leikmönnum. Íslensku piltarnir okkar hafa sannað sig.

Í nóvember síðastliðinn sótti ég fund í stjórn FIBA Europe. Meðal meðstjórnenda þar er Yvan Mainini, forseti franska körfuknattleikssambandsins og fyrrverandi forseti Evrópudeildar FIBA. Við sátum saman eina kvöldstund þar sem hann hafði mikinn áhuga á starfi okkar uppi á litla Íslandi, og sagði það í raun vera ómögulegt í sínum huga að dvergþjóðin gæti unnið franskt efstudeildarlið – ekki einu sinni heldur tvisvar. Sagði Yvan félög í efstu deild í Frakklandi velta á bilinu 1,2-1,5 millj. Evra, eða sem nemur samanlagðri heildarveltu meirihluta liðanna 12 í Intersportdeildinni.

Fórum við að bera saman frekari tölfræði, og hristist hann reglulega af hlátri. Á Íslandi eru á bilinu 5-6000 iðkendur, en í Frakklandi eru þeir áætlaðir nálægt 4 milljónum, þar af 450.000 “licenced players”. Á Íslandi skipuleggjum við mótahald 55-60 félaga í u.þ.b. 2.300 leikjum á ári. Í Frakklandi er að finna 4.500 klúbba og nálægt 350.000 leiki á vegum franska körfuknattleikssambandsins árlega (sem Yvan segir vel að merkja að sé alla að finna í tölvugagnagrunni sambandsins). Á meðan KKÍ er að basla við að halda úti tveimur starfsmönnum eru þeir nálægt 100 hjá FFBB.

Það er von mín og trú að fleiri íslensk félagslið muni reyna að fylgja í fótspor Keflvíkinga og huga að aukinni þátttöku í alþjóðlegri keppni félagsliða. Að mínu mati er fyllilega grundvöllur fyrir slíkt hjá fleiri liðum, og sannarlega bætir þetta getu og reynslu leikmanna okkar. Ef skynsamlega er haldið á fjármálum slíkra verkefna getur slík þátttaka vart orðið til annars en framþróunar fyrir íslenskan körfuknattleik.

Blikur eru hinsvegar á lofti varðandi núverandi fyrirkomulag Evrópukeppna félagsliða, bæði vegna aukins fjölda liða sem skrá sig til þátttöku, og eins vegna breytinga er kunna að verða gerðar í kjölfar samkomulags FIBA Europe við ULEB. Átti ég ítarlegt símtal við framkvæmdastjóra FIBA Europe – Nar Zanolin – um málið í vikunni, og hann sagði að málið myndi skýrast á stjórnarfundi FIBA Europe í Budapest um miðjan mars. Er ráðgert að kynna þær niðurstöður á formannafundi KKÍ síðari hluta mars-mánaðar.

Á þessu stigi vil ég þó óska Keflvíkingum til hamingju með árangurinn, og tileinka þær hamingjuóskir ekki síður þeim sem í kringum liðið standa, svo sem stjórn og áhorfendum. Meira að segja trommusveitin skoraði nokkur stig í leikjunum…

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá 40 ára afmælishófi KKÍ 24. febrúar 2001.  Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands ávarpar veislugesti.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið