S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
|||||
3 |
4 |
5 |
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
10.11.2004 | Jóhannes Sveinsson
Dómstóll KKÍ - Mál nr. 5/2004
Fyrir er tekið: Mál nr.5 /2004 Haukar gegn Fjölni Í málinu er kveðinn upp svofelldur DÓMUR. I Mál þetta er móttekið af skrifstofu KKÍ 8. október s.l. og gögn málsins send formanni dómsins með tölvupósti sama dag. Kærandi er Körfukn.deild Hauka. Kærði er Körfukn.deild Fjölnis í Grafarvogi. Dómsformaður úthlutaði málinu til undirritaðs dómara hinn 14. október s.l. Var kæra Hauka þá þann sama dag send til forsvarsmanna Fjölnis og þeim gefinn kostur á að skila varnargreinargerð í samræmi við ákvæði laga KKÍ um dómstól sambandsins. Greinargerð Fjölnis barst skrifstofu KKÍ hinn 18. október s.l. Boðað var til þinghalds hinn 4. nóvember s.l. en því var frestað að beiðni kæranda til 5. nóvember. Voru þá lögð fram viðbótargögn og fram fór munnlegur málflutningur. Dómkröfur. Kærandi krefst þess að aðallega að Haukum verði dæmdur sigur í leik þeirra við Fjölni í Íslandsmóti karla hinn 7. október 2004 en til vara að úrslit leiksins verði dæmd ógild og liðin eigist við að nýju. Kærði krefst þess að kærunni verði vísað frá Eftirtalin skjöl hafa verið lögð fram í málinu. Nr. 1 kæra. Nr. 2 greinargerð Fjölnis.; Nr. 3. Athugasemdir dómara leiksins; Nr. 4. Leikskýrsla. II Í kæru Hauka segir um kæruefnið og röksemdir fyrir því að úrslit leiksins séu kærð á þeirri forsendu að dómarar leiksins hafi ranglega dæmt fullkomlega löglega körfu af Haukum undir lok loksins. Leikklukkan í Íþróttamiðstöðinni í Grafarvogi hafi ekki farið í gang þegar Haukar áttu innkast frá hliðarlínu og 8 sekúndur eftir af leiknum, en á þeim tíma hafi þeim tekist að skoða tveggja stiga körfu í þann mund sem tíminn var að renna út. Dómararnir hafi hins vegar ákveðið að dæma körfuna af og látið leik hefjast að nýju frá hliðarlínu með 8 sekúndur eftir. Tókst Haukum þá ekki að skora og í stað þess að Haukar ynnu leikinn 88 – 87 þá hafi hann tapast með einu stigi 87 – 86, því Haukum tókst ekki að skora aftur á þessum “auka” 8 sekúndum sem bætt var við leikinn. Haukar vísa til þess að í stað þess að dómararnir brygðust við eins og við þeir höfðu áður gert í leiknum þegar leikklukkan brást, þ.e með því að meta hve langur tími leið frá því innkast var tekið og þangað til boltinn fór í gegnum hringinn, þá hafi þeir ákveðið að breyta algerlega út af því sem þeir höfðu áður gert og láta endurtaka þessa 8 sekúndur frá byrjun. Haukar krefjast þess að fordæmið sem dómararnir gáfu í fyrri hálfleik við sambærilegar uppákomur verði látið gilda út allan leikinn og að karfan sem Haukar skoruðu fullkomlega löglega verði látin standa og Haukum því dæmdur sigur. Klukkan í húsinu hafi “frosið” í allavega tveimur tilfellum í fyrri hálfleik og það hefði því átt að vera tilefni til að dómarar og/eða tímaverðir væru sérstaklega vakandi fyrir þessu í lok leiksins, sem var ekki gert. Af hálfu Fjölnis er það staðfest að leikklukkan hafi ekki farið í gang og ekki mótmælt að Haukar hafi skorað þá körfu sem vísað er til í kærunni. Í greinargerðinni er því jafnframt þeirri skoðun lýst að dómarar leiksins hafi á engan hátt gert mistök þegar þessi atburðarrás átti sér stað. Það sem gerist á meðan klukkan gengur ekki geti ekki verið hluti af leiknum. Fjölnir vísar til þess að jafnvel í þeim tilvikum að dómarar geri mistök er það ófrávíkjanleg regla að þeim verði ekki breytt eftirá. Í 44. grein laganna (2.8) stendur "Ekki er hægt að leiðrétta mistök eftir að dómari hefur undirritað skýrsluna". Körfuknattleiksdeild Fjölnis fer því fram á að kæru körfuknattleiksdeildar Hauka verði vísað frá, þar sem kæran eigi sér enga stoð í lögum eða reglugerðum KKÍ né í körfuknattleiksreglum FIBA. III Í skýrslu aðaldómara leiksins, Aðalsteins Hjartarsonar, sem dómari kallaði eftir, er málsatvikum lýst með sama hætti og í kæru Hauka. Í skýrslunni segir jafnframt að dómarar hafi tekið þá ákvörðun að láta körfuna ekki gilda og hefja leik að nýju á sama stað af þeim ástæðum: 1) að þeir hafi ekki getað metið með fullri vissu að karfan hafi verið skouruð innan tímamarka; og 2) að ekki hafi verið hægt að slá því föstu að leikmenn hafi leikið á fullu þrátt fyrir að leikklukkan hafi verið stopp. Hugsanlega hafi einhverjir verið að bíða eftir flauti dómarans. Ekki er vísað til neinnar tiltekinnar reglu í körfuknattleiksreglum fyrir þessari ákvörðun dómaranna. Í skýrslu dómarans kemur jafnframt fram kvörtun vegna leikklukkunnar í Íþrottamiðstöðinni í Grafarvogi og sagt að þarfna sé um að ræða aðeins það síðasta af fjöldamörgum atvikum þar sem leikklukkan hefur frosið og haft veruleg áhrif á framgang leikja. IV. Niðurstaða Aðalkrafa Hauka um sigur í leiknum: Við munnlegan málflutning kom það fram að málsaðilar voru sammála um að umrædd karfa hefði verið skoruð áður en 8 sekúndur liðu frá því að innkast var tekið. Fram kom í máli beggja að líklega hefðu þá verið eftir 2-3 sekúndur þegar karfan var skoruð og var þá m.a. vísað til tímamælinga eftir sjónvarpsupptöku. Dómara þessa máls virðist þannig vera ótvírætt að ef leikklukkan hefði ekki bilað hefðu Haukar komist yfir í leiknum og Fjölnir haft einhverjar 2-3 sekúndur til að jafna leikinn eða vinna. Ekki er hægt að útiloka slíkt enda áttu Fjölnismenn skotrétt skv. leikskýrslu. Í ljósi þess er alls ekki hægt að fallast á aðalkröfu Hauka í málinu um að þeim verði dæmdur sigur í leiknum. Varakrafa Hauka um ógildingu úrslita. Er þá spurningin hvort að þessi bilun á leikklukkunni og ákvörðun dómara um að láta leik hefjast að nýju leiði til þess að úrslit leiksins verði dæmd ógild og liðin eigist við að nýju. Við mat á því þarf í fyrsta lagi að það er meginregla að ákvarðanir dómara, sem teknar eru á staðnum í hita leiksins, verða ekki endurskoðaðar. Mistök sem kunna að verða gerð eru einfaldlega hluti leiksins, enda oft um matskennd atvik að ræða sem afgreiða þarf án tafar. Hér þykir þó rétt að rekja þær reglur sem virðast gilda um þessa aðstöðu. Samkvæmt gr. 16.1.1. í körfuknattleiksreglum er karfa gild þegar knöttur sem er í leik fer ofan í körfuna. Um það hvenær knöttur er í leik gildir gr. 10.2. í reglunum, þ.e. að um leið og bolti hefur verið afhentur leikmanni til að taka innkast telst hann vera í leik. Hann fer ekki úr leik fyrr en dómari hefur flautað í þessu tilviki. Knötturinn virðist þannig hafa verið í leik þegar karfan var skoruð en hins vegar leiddi bilun í tækjum til þess að ákveðið var að hún yrði dæmd ógild. Körfuknattleiksreglur eru ekki skýrar um það hvernig hefði átt að bregðast við þeim aðstæðum sem upp komu en þó virðist dómara að af gr. 44.2.3. í reglunum, þar sem segir: ,,Allar villur, stig skoruð, leiktími sem líður og annað sem gerist áður en mistökin uppgötvast skal ekki fella úr gildi” megi ráða að það sé í takt við eðli leiksins og anda reglnanna að láta það standa sem gerst hefur þrátt fyrir að mistök hafi átt sér stað. Leikreglurnar eru hins vegar ekki afdráttarlausar um bilun í tækjum leiksins. Hér verður ekki kveðið upp úr um það hvort dómarar leiksins hafi gert mistök með því að taka umrædda ákvörðun en a.m.k. verður ekki fullyrt að sú ákvörðun hafi verið rétt. Hafi ákvörðunin verið röng er hins vegar ekki innan valdsviðs dómstólsins að leiðrétta hana. Í öðru lagi skiptir það máli að samkvæmt gr. 7. í reglugerð um körfuknattleiksmót ber heimalið ábyrgð á framkvæmd leiks fari fram á eðlilegan hátt. Vanræksla í þeim efnum getur m.a. leitt til þess að leikur teljist tapaður. Samkvæmt skýrslu aðaldómara leiks Hauka og Fjölnis hafði leikklukkan bilað oft í leikjum á undirbúningstímabili og nokkrum sinnum áður í þessum sama leik. Á þessu ber heimilið ábyrgð og er nánast forkastanlegt að láta leikinn fara fram við þessar aðstæður án þess a.m.k. að einhver varaútbúnaður væri tiltækur í húsinu, þó ekki væri nema skeiðklukka. Í málinu liggur það fyrir að ef heimaliðið hefði ekki vanrækt þessar skyldur sínar hefðu Haukar langlíklegast borið sigur af hólmi í viðureigninni, þótt ekki sé hægt að slá því alveg föstu. Staðan er því sú að heimaliðið virðist hagnast á því að hafa hlutina ekki í lagi. Gallinn á framkvæmd leiksins réð líklega úrslitum, og það heimaliðinu í hag. Að mati dómarans er ekki hægt að viðurkenna úrslit leiks sem fást með þeim hætti og í ljósi þess telur dómari að fallast beri á varakröfu Hauka, ógilda úrslit leiksins og fela mótanefnd að láta hann fara fram að nýju. Jóhannes Karl Sveinsson, tilnefndur dómari í máli þessu, kveður upp úrskurðinn. Afrýjunarfrestur er 5 dagar frá uppkvaðningu dómsins, en skrifstofu KKÍ er falið að birta dóminn í dag með sannanlegum hætti. DÓMSORÐ. Úrslit í leik Fjölnis og Hauka í Intersport-deildinni er fram fór hinn 7. október s.l. eru ógild. Liðin eigist við að nýju. Jóhannes Karl Sveinsson. Dómurinn er sendur til KKÍ í tölvupósti og skrifstofu sambandsins falið að birta dóminn fyrir aðilum. Dóminn skal birta á heimasíðu KKÍ í samræmi við ákvæði 17. gr. laga um dómstóla KKÍ. |