© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
16.9.2004 | Ólafur Rafnsson
Körfuboltakennarar
Ég las frétt í Morgunblaðinu í gær sem fjallaði um yfirvofandi kennaraverkfall. Fréttin fjallar í stuttu máli um viðbrögð nokkurra stórfyrirtækja á Íslandi við áhrifum yfirvofandi verkfalls á mætingar starfsmanna sinna vegna grunnskólabarna þeirra, m.a. með því að stofna til íþrótta- og leikjanámskeiða. Ég ætla mér raunar ekki á þessum vettvangi að fjalla nánar um deilurnar sem slíkar, en vona þó að menn beri gæfu til að finna farsæla lausn.

Fréttin var hinsvegar athyglisverð út frá bæjardyrum körfuknattleikshreyfingarinnar vegna þess að af þeim fjórum starfsmannastjórum þeirra stórfyrirtækja sem rætt var við voru tveir aðilar afar kunnugir körfuknattleikshreyfingunni. Er þar um að ræða þá Svala Björgvinsson starfsmannastjóra KB Banka og Jón Kr. Gíslason starfsmannastjóra Össurar hf.

Þeir sem þekkja til þessara heiðursmanna vita að þar fara tveir reyndir leikmenn og einhverjir hæfustu þjálfarar sem við höfum haft á að skipa, auk þess að vera báðir vinsælir sem persónuleikar almennt innan körfuknattleikshreyfingarinnar.

Undirritaður hefur margsinnis í pistlum sínum í gegnum tíðina lagt á það áherslu að íþróttahreyfingin skili samfélaginu betri og hæfari þegnum. En hvort álykta megi sem svo að reynsla af þjálfun og aga í skipulögðu hópastarfi körfuknattleikshreyfingarinnar leiði til þess að menn verði umfram aðra hæfir í ábyrgðarmikil stjórnunarstörf á borð við starfsmannastjórnun stórfyrirtækja skal ósagt látið.

Ég óska þeim félögum Svala og Jóni Kr. velfarnaðar í sínum störfum. Þrátt fyrir annríki hafa þeir hvorugur slitið sig með öllu frá okkar ástsælu íþrótt.

Eins og ég sagði hér að framan þá ætla ég mér ekki með nokkrum hætti að taka afstöðu til kennaradeilunnar á þessum vettvangi. Hagsmunir mínir sem foreldris er vitaskuld að kennarar barnanna séu ánægðir í sínu starfi og hljóti sanngjörn laun fyrir. Landsmenn hljóta almennt að styðja allar sanngjarnar kröfur kennarastéttarinnar til úrbóta á sínum launum.

Eftir sem áður verður það að teljast athyglisvert að formaður Kennarsambands Íslands lýsi störfum íþróttahreyfingarinnar sem verkfallsbroti. Í því getur vart falist annað en sterk viðurkenning á því fræðslu- og kennslustarfi sem felst í hreyfingunni. Það er út af fyrir sig ekkert annað en jákvætt, og hlýtur að vera hvati fyrir stjórnvöld að íhuga betur fjárveitingar til íþróttahreyfingarinnar í ljósi svo afdráttarlausrar yfirlýsingar formanns KÍ.

Ég vonast til að sjá bæði kennara og nemendur fjölmenna á landsleik Íslands og Rúmeníu í Keflavík á sunnudag. Samninganefndir deiluaðila kennaradeilunnar verða sérstaklega boðnar velkomnar - ef deilan leysist í hálfleik og Ísland sigrar Rúmena þá er tvöfaldur íslenskur sigur í höfn.

Ólafur Rafnsson,
formaður KKÍ.

Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Körfuknattleiksfólk úr ÍR, bæði meistaraaflokki karla og kvenna, auk yngri flokka, í hópmyndatöku, líklega 1984.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið