© 2000-2022 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
   
14.4.2004 | Ólafur Rafnsson
Hamingjuóskir með veturinn
Enn eitt keppnistímabil í íslenskum körfuknattleik er að baki. Veturinn hefur verið sérstæðari en oft áður, og er það m.a. afleiðing nýrra reglna sem samþykktar voru í fyrra varðandi umgjörð leikja, launaþak og nýstárlegar reglur varðandi hlutgengi erlendra leikmanna.

Varðandi hið fyrsta þá leikur ekki vafi á því að hvaða skoðun sem menn annars kunna að hafa á lukkudýrum eða öðrum slíkum atriðum þá hefur umgjörð leikja í Intersport deildinni verið glæsilegri en nokkru sinni fyrr. Atriði sem fyrir fáeinum misserum þóttu bera vott um kraftmikið starf viðkomandi félaga þykja nú sjálfsagt mál – þótt markið sé nú jafnvel sett enn hærra.

Varla leikur heldur vafi á því að launaþak náði fjárhagslegum tilgangi sínum að því er varðar hina erlendu leikmenn – raunar svo að umræður á síðasta ársþingi um möguleika á 1-2 erlendum leikmönnum var fjarri lagi, því allt að þrír erlendir leikmenn rúmuðust í flestum tilvikum undir launaþakinu – að vísu með tilfæringum sem allir eru e.t.v. ekki sammála um að séu af hinu góða s.s. varðandi þátt íslenskra leikmanna – en sú staðreynd að laun erlendra leikmanna lækkuðu verulega má ekki týnast í þeirri umræðu.

Um fjölda hinna erlendu leikmanna hef ég fjallað ítarlega í pistlum fyrr á þessu ári og ætla ekki að endurtaka hér. Ljóst er þó að sú þróun varð ekki eins og að var stefnt, og á formannafundi með aðildarfélögum okkar í mars s.l. kom fram eindreginn vilji til breytinga – þótt ekki væru allir sammála um hversu langt eigi að ganga. Það liggur því fyrir komandi ársþingi að komast að lýðræðislegri niðurstöðu um framhaldið.

Fyrir aðra en þröngsýnustu neikvæðniseinstaklinga hlýtur þó að standa upp úr þennan veturinn að sá körfubolti sem í boði hefur verið í vetur er í hærri gæðaflokki en áður hefur sést – raunar íþróttaskemmtun sem ýmsir hafa verið reiðubúnir til að greiða talsverða fjármuni fyrir að sjá á erlendri grundu. Tilþrif og æsispennandi leikir í úrslitakeppni kórónuðu svo veturinn.

Vert er að óska sigurvegurum í öllum keppnisflokkum til hamingju með sinn árangur, og ekki verður hjá því litið að óska Keflvíkingum sérstaklega til hamingju með árangur meistaraflokka sinna – sem vel að merkja var með minni atbeina erlendra leikmanna en flestra annarra liða. Þá var þátttaka þeirra í Evrópukeppninni til fyrirmyndar, og til eftirbreytni fyrir önnur metnaðarfull félög.

Útbreiðsla körfuknattleiksins endurspeglaðist svo e.t.v. í athyglisverðum árangri í sveitarfélögum sem ekki hafa verið áberandi undanfarin keppnistímabil, en það eru t.d. Stykkishólmur og Þorlákshöfn. Snæfellingar unnu hug og hjörtu þjóðarinnar meira en nokkuð annað körfuknattleikslið í langan tíma, og Þór í Þorlákshöfn sýndi dug og hugrekki þótt ýmsar hremmingar þar hafi leitt til þess að árangurinn varð e.t.v. ekki í samræmi við væntingar. Þeir búa þó án efa vel af reynslu sinni.

Í lok vetrar fengum við svo ánægjulegar fréttir af góðum árangri íslenskra liða á Scania Cup í Svíþjóð. Sannarlega tilefni til hamingjuóska til Njarðvíkinga og annarra sem stóðu sig vel þar. Þessi árangur kemur undirrituðum e.t.v. ekki jafn mikið á óvart og mörgum, og er gaman að segja frá því að á fundi Norðurlandaþjóða í byrjun þessa árs voru fulltrúar Íslands teknir á eintal af hópi fundarmanna þar sem spurningin var einföld: “Hvað í ósköpunum eruð þið að gera í uppbyggingu leikmanna á Íslandi, þar sem þið mætið ár eftir ár á Norðurlandamót bæði félagsliða og landsliða og náið þar árangri langt umfram það sem á að vera unnt af svo fámennri þjóð”. Okkur leiddist því ekki að fá fréttir af því að Njarðvíkingar hafi undirstrikað þennan árangur svo skömmu síðar á Scania Cup.

Ég þakka ykkur öllum sem lögðuð hönd á plóginn í vetur – leikmönnum, þjálfurum, stjórnarmönnum, dómurum, vefstjórum, starfsfólki ritaraborða og öllum öðrum sem tóku þátt í veislu keppnistímabilsins.

Takk fyrir veturinn.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Lið Íslands skipað leikmönnum 20 ára og yngri tók þátt í B-deild Evrópukeppninnar sumarið 2006. Liðinu stjórnaði Einar Árni Jóhannsson.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið