S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
|||||
3 |
4 |
5 |
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
9.3.2004 | Ólafur Rafnsson
Tímamót í dómarastétt
Þótt fréttirnar hafi verið látlausar býr að baki þeim stærri og merkilegri saga. Helgi og Leifur eru er vissulega – og vonandi – ekki að leggja flautuna á hilluna, heldur taka sér frí frá krefjandi og tímafreku hlutverki alþjóðlegrar dómgæslu þar sem menn þurfa að vera reiðubúnir að taka tilnefningum hvar og hvenær sem er, möglunarlaust. Slíkt reynir í senn á fjölskyldulíf og launastörf. Ásýnd íslenskrar dómarastéttar undanfarin 10-15 ár einkennist öðru fremur af frægu þríeyki, þeim Kristni Albertssyni, Helga Bragasyni og Leifi Garðarssyni. Þessir þrír hafa borið ægishjálm yfir stéttina lengst af þess tímabils – og voru lengi allir virkir sem alþjóðlegir FIBA-dómarar. Oft bar á góma umræða um nánd þessara þriggja í aldri, og jafnframt vandkvæði sem sumir óttuðust þegar þeir drægju sig í hlé, mögulega allir á svipuðu tímabili. Flestir dómarar af yngri kynslóðinni hafa án efa borið virðingu fyrir þessu þríeyki, og litið til þeirra sem fyrirmynda – og jafnvel markmiða. Það væri því e.t.v. hollt fyrir hina yngri að velta ferli þessara aðila fyrir sér. Leið þeirra “á toppinn” hefur ekki komið sjálfkrafa á silfurfati. Allir hafa þessir þrír aðilar starfað mikið að málefnum körfuknattleiksins utan vallar. Má þar sem dæmi nefna að Kristinn Albertsson hefur bæði verið framkvæmdastjóri og stjórnarmaður KKÍ – og var raunar ótrúlega ungur á þeim tíma – auk þess að hafa verið virkur í dómaranefnd og fyrirsvarsmálum dómara. Helgi sat um skeið í stjórn KKÍ og hefur einnig verið virkur í hagsmunamálum dómara og stjórn KKDÍ. Leifur Garðarsson – gamli félagi minn úr Haukum – á eflaust eftirminnilegasta feril sem formaður dómaranefndar KKÍ í mörg ár samhliða öðrum félagsstörfum. Þessi félagslega þátttaka er sannarlega íhugunarefni fyrir unga metnaðarfulla dómara í dag. Vissulega eiga þessir þrír aðilar það jafnframt sameiginlegt í dag að vera í krefjandi starfi utan dómgæsluhlutverksins – og allir fjölskyldumenn. Það vakna samt ýmsar spurningar þegar þrír af okkar reyndustu og öflugustu dómurum draga sig í hlé, að hluta til eða öllu leyti, á þeim aldri sem toppferillinn ætti jafnan að vera að hefjast. Þessir aðilar eru allir um eða undir fertugu – í raun bara dómarapiltar ennþá samkvæmt dómaraalmanakinu – þrátt fyrir u.þ.b. þúsund leikja feril hver. Undirritaður vonar sannarlega að íslenskur körfuknattleikur fái að njóta krafta þessara aðila sem lengst – hvort sem þekking þeirra og reynsla verður nýtt innan eða utan körfuknattleiksvallarins. Þessum pistli er á engan hátt ætlað að vera nein kveðja til þeirra, heldur fremur hvatning til að líta metnaðarfullum augum á dómaraalmanakið sitt. Þótt reynsla þeirra hafi hlaðist utan á þá yngri en gengur og gerist er engin ástæða ennþá til að skipta reynslunni út fyrir spik og sældarlíf. Hvar í liði sem menn standa, og hvaða hildi sem menn kunna að hafa háð við þessa tilteknu dómara – eða aðra dómara ef út í það er farið – þá hljóta menn á tímamótum að þakka fyrir það sem vel er gert. Það geri ég hér með til þessara þriggja heiðursmanna. En endilega haldiði áfram að dæma… Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ. |