© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
12.2.2004 | Ólafur Rafnsson
Erlendir leikmenn – íþróttaleg áhrif
Þá er komið að þriðja og síðasta pistli mínum um erlenda leikmenn í íslenskum körfuknattleik, forsendur og sögulegan bakgrunn, útbreiðslulegar og fjárhagslegar afleiðingar. Þessum pistli er ætlað að fjalla um það sem flestir myndu væntanlega telja kjarna málsins – nefnilega íþróttalegar afleiðingar.

Tilvera hinna erlendu leikmanna er síður en svo sér-íslenskt fyrirbæri. Í flestum nágrannalöndum okkar hefur þetta tíðkast mun lengur og í mun ríkari mæli en hér á landi. Fyrir 2-3 áratugum síðan var mun meiri munur á körfuknattleik í Evrópu og í Bandaríkjunum en er í dag, en hvort streymi bandarískra atvinnumanna til Evrópu er ein af orsökum þess að bilið hefur minnkað með afgerandi hætti milli þessara svæða ætla ég að láta lesendum eftir að meta og mynda sér skoðun á.

Þegar fyrstu erlendu leikmennirnir komu til Íslands á áttunda áratugnum voru þeir undantekningarlítið yfirburðaleikmenn í sínum liðum – og gátu hreinlega unnið heilu og hálfu mótin nánast upp á eigin spýtur. Slíkt einfaldlega getur varla gerst í dag. Dæmi var um að einstakur leikmaður skoraði 100 stig í leik, já áður en þriggja stiga reglan var tekin upp.

Ein helstu íþróttalegu rökin fyrir veru erlendra leikmanna hafa í gegnum tíðina verið þau að íslenskir leikmenn yrðu betri leikmenn á að spila við sér sterkari andstæðinga. Þetta var sérstaklega áberandi hér áður fyrr þegar verulegur skortur var á hávöxnum leikmönnum hér á landi. Ég hygg að fæstir myndu mótmæla því að í gegnum tíðina eigi erlendir leikmenn stóran þátt í framþróun íslensks körfuknattleiks og íslenskra leikmanna. En vissulega má öllu ofgera, og það er e.t.v. það sem menn standa frammi fyrir í dag að meta hvort sú er orðin raunin.

Ef litið er til árangurs Íslands gagnvart nágrannalöndunum þá hefur staða okkar án efa batnað verulega undanfarna áratugi. Hvort það er tilvist erlendra leikmanna að þakka að einhverju eða öllu leyti er sjónarmið, en þá ber að hafa í huga að þær þjóðir hafa í flestum tilvikum haft fleiri erlenda leikmenn á sínum snærum en við. Í Noregi var t.a.m. sett regla í nýju BLNO-deildinni um að tveir erlendir leikmenn væru skylda, en á sama tíma var sett regla sem tryggja átti að tiltekinn fjöldi norskra ríkisborgara yrði að vera inni á vellinum hverju sinni. Þetta hefur reyndar valdið deilum þeirra við Eftirlitsstofnun EFTA – ESA – en það er önnur saga þótt áhugaverð sé.

Hér erum við e.t.v. komin að kjarna málsins, en það er hvort málið snúist ekki einfaldlega um hinn gullna meðalveg – ekki öfgana hvort banna eigi algerlega eða opna að fullu. Kann ekki að vera að menn þurfi að líta til kosta beggja öfga og reyna að sameina þá – halda tengingu við erlenda leikmenn til að fylla nauðsynlegar stöður og vera lærdómur fyrir íslenska leikmenn, á sama tíma og tryggt er að fjöldi þeirra sé ekki svo mikill að íslensku leikmennirnir verði ekkert annað en statistar og áhorfendur á hina erlendu “snillinga”?

Í því samhengi er nauðsynlegt að menn velti fyrir sér kerfinu fordómalaust og allir aðilar gefi eftir af sínum kröfum til að ná ásættanlegri heildarlausn.

Eitt sjónarmið tel ég að nauðsynlegt sé að komist á framfæri, en það er sú staðreynd hversu sjálfsagt við teljum vera að okkar eigin leikmenn leggist í víking og leiki körfuknattleik í öðrum ríkjum, þ.m.t. í háskólum í Bandaríkjunum sem framleiða flesta hina erlendu leikmenn sem hér um ræðir. Getum við litið framhjá því að skoða málið frá hinni hliðinni í tengslum við þá nálægt 20 íslensku leikmenn sem leika erlendis?

Með svipuðum hætti má setja fram það sjónarmið að erlendir leikmenn séu Íslandi mikilvægari en mörgum öðrum ríkjum – a.m.k. nágrannaríkjum okkar – vegna þess hversu erfitt er fyrir okkur að taka þátt í alþjóðlegri keppni vegna fjarlægðar og kostnaðar. Þetta sjónarmið átti sannarlega við fyrir 20-30 árum þegar þessi þróun hófst.

Erlendir leikmenn eru staðreynd í íslenskum körfuknattleik í dag, og nauðsynlegt að menn vinni sameiginlega að því að ná sem mestum íþróttalegum arði út úr þeirri fjárfestingu sem í þeim felst. Menn þurfa að gera sér grein fyrir vandamálum í formi “erlendra” leikmanna með íslenskt ríkisfang. Menn þurfa að gera sér grein fyrir áhrifum Bosman-úrskurðarins. Menn þurfa að gera sér grein fyrir vanda þeirra liða sem ekki hafa framhaldsskóla eða takmarkalítinn iðkendafjölda. Menn þurfa að gera sér grein fyrir fjárhagslegum kostum og göllum. Og síðast en ekki síst þá þurfa menn að gera sér grein fyrir íþróttalegum afleiðingum þess að leyfa, fjölga eða banna.

Með öll sjónarmið, forsendur og málavexti í huga – og eingöngu þannig – getur vitræn umræða um reglukerfi í kringum hlutgengi erlendra leikmanna leitt af sér niðurstöðu. Slík niðurstaða verður aldrei gallalaus, en markmið okkar og hlutverk á að vera að vega og meta hagsmuni og finna lýðræðislega bestu lausnina hverju sinni.

Ég þakka lesendum fyrir þolinmæðina og áhugann.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá ferð U-20 ára landsliðs karla til Illinois í Bandaríkjunum árið 1982.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið