© 2000-2022 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
   
28.1.2004 | Karl Jónsson
Fanta-deildin í minnibolta
Þjónustumiðstöð UMFÍ á Vestfjörðum, sem stjórnað er af Héraðssambandi Vestfirðinga, HSV, setti upp tilraunaverkefni á sínu þjónustusvæði í vetur, svokallaða Fanta-deild í minnibolta. Þjónustusvæði HSV nær yfir alla Vestfirði. Aðildarsamböndin eru auk HSV, Héraðssamband Bolungarvíkur og Héraðssambandið Hrafnaflóki. Héraðssamband Strandamanna hefur hallast meira í samstarf við Vestur-Húnvetninga m.a. vegna landfræðilegra ástæðna, en þeim var samt sem áður boðið að taka þátt í þessu verkefni.

Markmið verkefnisins var að búa til mótavettvang fyrir krakka yfir vetrartímann án þess að þau eða heimili þeirra þurfi að kosta til miklu fjármagni eða eyða miklum tíma í ferðalög.

Annað markmið verkefnisins var líka að tengja saman hinar dreifðu byggðir Vestfjarða, koma á samskiptum á milli norður- og suðursvæðanna sem ekki hafa verið mikil til þessa.

Körfuboltinn varð fyrir valinu m.a. vegna þess hversu vel hann hentar smærri byggðarlögum og hversu útbreiddur hann er sem vetraríþrótt á Vestfjörðum. Um útbreiðsluverkefni í körfubolta er ekki að ræða þar sem markmið verkefnisins eru hafin yfir einstaka íþróttagreinar. Það var einfaldlega talið að körfuboltinn hentaði vel þessu markmiði. Verði reynsla þessa verkefnis góð er áhugi fyrir því að fjölga íþróttagreinum á næsta ári.

Vífilfell kemur að verkefninu sem sérstakur styrktaraðili. Fyrirtækið gaf þátttakendum boli og bolta og heitir verkefnið eftir einu vörumerkja þess eða Fanta-deildin. Verkefnasjóður UMFÍ styrkti verkefnið um 150 þúsund krónur og fyrir þann styrk var hægt að útbúa kynningarefni og koma upp heimasíðu á netinu á slóðinni www.hsv.is/minnibolti

Nú þegar hafa verið haldin tvö mót, annað á Ísafirði í umsjá KFÍ og hitt í umsjá Harðar á Patreksfirði. Framkvæmd mótanna er ákveðnum skilyrðum háð, t.d. mega framkvæmdaraðilar ekki innheimta hærra keppnisgjald en 1500 krónur af þátttakendum og innifalið í því verður að vera heit máltíð að móti loknu og minjagripur. Bæði félögin buðu upp á pizzur að loknum mótunum, KFÍ gaf þátttakendum kakókönnur sem merktar voru félaginu og Hörður gaf öllum þátttakendum verðlaunapening. Félögin þurfa einnig að útvega hirðljósmyndara til að taka myndir sem settar eru inn á vef verkefnisins.

Mótin eru keyrð í gegn á einum degi þannig að allir komast til síns heima að þeim loknum. Framkvæmd leikjanna helgast algjörlega af aðstæðum á leikstað, ekki eru gerðar kröfur um aðbúnað t.d. vallarstærð né leiktíma eða fjölda leikja. Þetta miðast allt við aðstæður á hverjum stað fyrir sig og fjölda þátttökuliða. Sem dæmi var leikin tvöföld umferð á tveimur völlum á Ísafirði, en einföld umferð á einum velli í íþróttahúsinu á Patreksfirði. Þar hafði reyndar þátttökuliðum fjölgað um eitt hjá hvoru kyni.

Stig eru skráð og leikskýrslur haldnar en liðum er ekki raðað niður eftir sigrum og töpum.

Samhliða liðakeppninni er keppt í einstaklingskeppni, svokallaðri þríþraut. Hún samanstendur af hraðadrippli þar sem krakkarnir eiga að drippa fyrirfram ákveðna braut á sem skemmstum tíma, vítaskotum þar sem þau fá 15 skot til að hitta úr og að lokum skot á tíma, þar sem þau fá eina mínútu til að safna sem flestum stigum, en þau geta fengið eitt, tvö eða þrjú stig fyrir hvert skot allt eftir því hvaðan þau hitta. Sigurvegari hverrar greinar hlýtur 50 stig, sá næsti 40 og síðan koll af kolli niður í 10 stig. Sigurvegarinn í heildarkeppninni er sá sem flest stig samanlagt hefur fengið.

Sérstök forkeppni fer fram innan þátttökufélaganna fyrir hvert mót og út úr þeirri keppni koma tvær stúlkur og tveir strákar frá hverju félagi sem keppa síðan til úrslita á mótunum sjálfum.

Allir þátttakendur í úrslitunum hafa fengið sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa komist í úrslitin en engin sérstök verðlaun eru fyrir sæti.

Á fyrsta mótinu sem haldið var á Ísafirði í október voru þátttakendur frá Ísafirði, Bolungarvík, Bíldudal og Patreksfirði. Stúlknaliðin voru þrjú; sameiginlegt lið frá KFÍ og UMFB, ÍF Bíldudals og Hörður frá Patreksfirði. Hjá strákunum voru liðin einnig þrjú; Frá KFÍ, Herði og sameiginlegt lið frá UMFB og ÍF Bíldudals. Aðeins einn strákur frá Bíldudal tók þátt í mótinu og var honum komið haganlega fyrir í liði Bolvíkinga. Það er nefnilega möguleiki fyrir alla að taka þátt í þessu verkefni þó að þeir tilheyri ekki neinu ákveðnu liði, það er bara unnið úr því á mótsstað.

Á mótinu á Patreksfirði höfðu Tálknfirðinga síðan bæst við með bæði stúlkna og drengjalið og því eru þátttökufélögin orðin 5 samtals í þessu verkefni, sem er mjög ánægjulegt og styður við markmið þessa verkefnis.

Framundan eru tvö mót fram á haust. Það fyrra í Bolungarvík í mars og það seinna á Bíldudal í glænýju íþróttahúsi þar í apríl.

Þátttakendur í verkefninu

Eftir að seinna mótinu er lokið verður farið yfir reynsluna af þessu verkefni og metið hvort forsendur séu fyrir framhaldi á því. Eins og fyrr segir er áhugi á því að bæta inn í þetta fleiri íþróttagreinum, hugsanlega einni fyrir næsta vetur og síðan fleirum ef kostur er síðar.

Áframhald verkefnisins ræðst einnig á því hvort að áhugi verði fyrir hendi af hálfu styrktaraðila. Samstarfið við Vífilfell hefur gengið frábærlega og vonumst við til þess að þeir hafi áhuga á því að koma að málum næsta vetur einnig í stærri og sterkari Fanta-deild en áður og vonandi með fleiri íþróttagreinum einnig.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Íslands- og bikarmeistarar ÍS vorið 1991. Aftari röð frá vinstri: Jóhann H. Bjarnason þjálfari, Sigríður Vilhjálmsdóttir, Vanda Sigurgeirsdóttir, Elínborg Guðnadóttir, Díanna Gunnarsdóttir, Unnur Hallgrímsdóttir, Jenny Prange, Erla Kristinsdóttir og Ragnhildur Jónsdóttir sjúkraþjálfari. Fremri röð frá vinstri: Júlía Sigursteinsdóttir, Kristín Sigurðardóttir, Þórdís Hrafnkelsdóttir, Kolbrún Leifsdóttir, Vigdís Þórisdóttir og Hafdís Helgadóttir.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið