© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
28.1.2004 | Ólafur Rafnsson
Fjölliðamót í minnibolta
Undirritaður eyddi drjúgum hluta síðustu helgar á fjölliðamóti í minnibolta kvenna að Ásvöllum í Hafnarfirði. Svosem ekki ætlunin að fara að varpa hér inn sí og æ einhverjum lífsreynslusögum formannsins (heitir það ekki “blogg” í dag?), en slíkur viðburður getur þó vakið upp ýmsar hugleiðingar. Köllum þetta því “pistil”.

Á mótinu endurspeglaðist kraftur unglingastarfs okkar aðildarfélaga. Þarna voru mætt Suðurnesjaliðin Njarðvík og Keflavík – þar sem hefð er fyrir öflugu og árangursríku unglingastarfi – og svo tiltölulega nýrri félög á borð við Hamar í Hveragerði og Fjölni í Grafarvogi, sem sýndu að framtíðin er þeirra. Og svo auðvitað liðið mitt – Haukastelpurnar – sem ég verð að fá að halda með þrátt fyrir annars hlutlausan atbeina að körfuknattleikshreyfingunni. Verið er að vinna virkilega gott starf hjá öllum þessum félögum.

Fjölliðamótin eru mannamót. Þar hittir maður marga sem vilja ræða hitt og þetta varðandi körfuboltann almennt. Hið besta mál. Þarna mæta ýmsir einstaklingar í allt öðru hlutverki en dagsdaglega, og einhvern veginn skapast ávallt góð stemmning og afslappað andrúmsloft milli foreldra, þjálfara, skipuleggjenda og annarra. Þetta er merkilegur menningarviðburður sem slíkur.

Framkvæmd fjölliðamótsins að Ásvöllum var hnökralaus. Fjöldi sjálfboðaliða leggur hönd á plóginn á slíkum viðburði. Manna þarf ritaraborð og dómgæslu í hverjum leik, unglingaráð og stjórn annast skipulagningu, samskipti við KKÍ, útgáfu leikjaplans, útvegun kaffis og bakkelsis og starfsfólks í sjoppuna. Allt störf sem þykja orðið sjálfsögð en fela engu að síður í sér fórnfúst sjálfboðaliðsstarf sem hvergi er settur verðmiði á. Haukar eiga heiður skilinn fyrir framkvæmdina. Að baki liðunum er svo vitaskuld vinna við þjálfun, útvegun og utanumhald keppnisbúninga, akstur leikmanna á keppnisstað o.s.frv., sem ekki er síður mikilvægt.

Eitt langar mig að minnast á, en það er hlutur áhorfenda – sem í flestum tilvikum eru foreldrar og aðstandendur. Þokkalegur fjöldi mætti á kappleikina og skapaði skemmtilega stemmningu. Ég hef upplifað samsvarandi mót í öðrum íþróttagreinum og verð af því tilefni að lýsa yfir stolti mínu yfir áhorfendum / aðstandendum yngri flokka í körfuknattleik þegar kemur að því að vera með uppbyggilega hvatningu. Við virðumst vera blessunarlega laus við foreldra steytandi hnefum að dómurum, þjálfurum og jafnvel börnunum sjálfum á leikvellinum.

Annað eru þjálfararnir sjálfir. Flestir þeirra eru duglegir við uppbyggilega hvatningu og leiðbeiningu til leikmanna – reyna vissulega að stýra liði sínu til sigurs, en ekki hef ég upplifað neinn þeirra skunda yfir nein siðferðisstrik á þeirri leið. Eins var afar vel gætt þess að óska andstæðingum skipulega til hamingju í leikslok, hvort sem um var að ræða sigurlið eða taplið. Það er mikilvægt uppeldisatriði í mínum huga. Allir leikmenn skildu sem vinir óháð úrslitum.

Ég sá hluta úrslitaleiks milli Hamars og Njarðvíkur. Sannarlega vel leikinn og spennandi leikur, þar sem úrslit réðust á lokasekúndum eftir að liðin höfðu skipst á um að hafa forystuna. En það sem mér fannst nokkuð skemmtilegt var að úrslitakörfuna skoraði ung og efnileg telpa – Erna Lind Teitsdóttir – sem í sjálfu sér væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að hún er dóttir Teits okkar Örlygssonar. Var þetta tilviljun eða getur virkilega verið að þetta gangi í erfðir? “Sá gamli” hefur aldeilis “smellt nokkrum bösserum” í gegnum tíðina.

Svo eru það dómararnir. Ég hygg að óvíða sé erfiðara að sinna dómgæslu heldur en í minnibolta. Reglur geta verið matskenndari, og mikið þarf að taka af “skynsömum” ákvörðunum. Talsverðan þroska þarf til að sigla bilið á milli þess að láta leikinn ganga reglunum samkvæmt, en á sama tíma að leiðbeina leikmönnum og í vissum tilvikum að sýna ofurlítinn skilning á aðstæðum. Þessi þáttur leiksins var í góðu lagi hjá þeim sem að málum komu að Ásvöllum um helgina.

Eftir stendur í minningunni venjulegt fjölliðamót – eitt af fjölmörgum þessa tilteknu helgi hér á Íslandi. Sú staðreynd er e.t.v. sú merkilegasta að baki þessum pistli, nefnilega að þetta var einungis smávægilegt brot af starfsemi hreyfingarinnar á venjulegri fjölliðamótshelgi. Ekkert sem telst fréttnæmt í fjölmiðlum, en stór hluti af menningu og daglegu lífi Íslensku þjóðarinnar. Ekki meira, ekki minna.

Mér fannst helginni vel varið.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Keith Vassell hóf tímabilið 2006-2007 sem spilandi þjálfari með Fjölni, en lauk því sem leikmaður ÍR.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið