© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
26.1.2004 | Ólafur Rafnsson
Erlendir leikmenn
Erlendir leikmenn og tilvera þeirra í íslenskum körfuknattleik er nokkuð sem flestir innan hreyfingarinnar hafa skoðun á – og satt að segja eru varla nokkur málefni sem fá menn til að tjá sig með jafn afgerandi hætti og af jafn mikilli tilfinningu eins og þegar málefni erlendra leikmanna ber á góma. Er það í sjálfu sér hið besta mál, enda setja erlendir leikmenn mikinn svip á körfuknattleik hér á landi og starfsemi félaga í efstu deildum snýst að hluta til um tilvist þeirra.

Það kann því að virka eldfimt að formaður KKÍ tjái sig opinberlega á heimasíðu sambandsins um þessi málefni, en engu að síður langar mig til þess að reyna að setja fram tiltekin sjónarmið og málavexti sem kunna að varpa nægu ljósi á málin til þess að gera almenna umræðu gagnlegri og málefnalegri fyrir vikið. Ég mun af þeim sökum ekki setja fram sérstakar skoðanir í þessum pistlum, heldur mun ég láta hreyfingunni eftir að móta þær.

Ætlun mín er að fjalla um þetta málefni í þremur pistlum. Í fyrsta lagi mun ég fjalla þessum pistli almennt um forsendur veru erlendra leikmanna og e.t.v. skoða það í bæði útbreiðslulegu og sögulegu samhengi. Í öðrum pistli mun ég fjalla um málefnið frá fjárhagslegum sjónarmiðum og í þriðja pistlinum mun ég fjalla um málið frá sjónarhorni íþróttalegra afleiðinga.

Ég man glögglega þegar fyrstu erlendu leikmennirnir komu hingað til lands á áttunda áratug síðustu aldar. Á þeim tíma voru blökkumenn ekki algeng sjón á götum hérlendis og ef til vill voru þessir leikmenn eftirminnilegastir vegna þátttöku þeirra í skemmtanalífi landsmanna, hversu óverðskulduð sem slík minning kann að vera. Ég hygg hinsvegar að enginn vafi leiki á því að sú athygli jók áhuga á körfuknattleik og bætti víðsýni og getu íslenskra leikmanna á þeim tíma.

Á fyrri hluta níunda áratugarins voru erlendir leikmenn bannaðir um skeið, og sú reynsla leiddi a.m.k. til þess að ákveðið var að leyfa þá á nýjan leik. Um miðjan tíunda áratuginn varð svo ákveðin bylting í formi Bosman-úrskurðarins. Ég hef í fyrri pistlum raunar lýst þeirri skoðun minni að sá úrskurður sé oftúlkaður, en það breytir vitaskuld ekki því réttarástandi sem við búum við að hann sé gildandi regla.

Önnur byltingarkennd breyting varð á s.l. ári þegar samþykkt var reglugerð um úrvalsdeild karla þess efnis að þátttaka erlendra leikmanna var ákvörðuð með launaþaki í stað vegabréfs. Leiddi það til þess að ríkisfang erlendra leikmanna breyttist úr evrópskum til bandarískra, og það sem meira er – svartir leikmenn urðu meira áberandi en nokkru sinni fyrr, þrátt fyrir að í raun hafi “erlendum” leikmönnum ekki fjölgað sem slíkum að höfðatölu. Átti það við a.m.k. fram að síðustu áramótum.

Til þess að menn geti fjallað um þessar breytingar með málefnalegum hætti er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir aðstöðunni sem menn voru í áður, hvaða vandamálum menn stóðu frammi fyrir að leysa og hverju menn vildu áorka með breytingum. Hluti af því eru fjárhagsleg sjónarmið og íþróttaleg sjónarmið, sem ég hyggst fjalla um í næstu tveimur pistlum.

Á mörgum undanförnum ársþingum hafa komið fram tillögur bæði um að banna erlenda leikmenn og jafnframt að fjölga þeim. Endurspeglar það fyrst og fremst mismunandi aðstöðu ólíkra félaga á Íslandi. Mörgum er ljóst að mörg félög, einkum á Höfuðborgarsvæðinu, hafa átt við fjárhagslega erfiðleika að etja og hafa talið erlenda leikmenn of þunga í skauti fjárhagslega, en við skulum ekki heldur ekki gera lítið úr sjónarmiðum liða í t.d. smærri sveitarfélögum á landsbyggðinni með mikla körfuboltahefð en t.d engan framhaldsskóla – og missa því uppalda leikmenn sína gjarnan í burtu á besta aldri. Ég hygg að flestir séu sammála um að flóra íslenskra liða í körfuknattleik væri fátækari án þeirra sveitarfélaga.

Annað vandamál er vissulega Bosman-úrskurðurinn, sem í sinni tærustu mynd kemur í veg fyrir það að við bönnum erlenda leikmenn – a.m.k. evrópska. Raunar verður hér að hafa í huga að Bosman-úrskurðurinn tekur eingöngu til ríkja EES, en FIBA ákvað að útvíkka áhrif dómsins til allra Evrópuríkja. Íslenskur körfuknattleikur er vissulega ekki bundinn af þeirri útvíkkun, en eftir standa þá ríki EES. Flestir hafa verið sammála um að úrval leikmanna sem reiðubúnir eru að koma til Íslands frá þeim ríkjum er ekki mikið – nema gegn talsverðum fjármunum.

Þriðja vandamálið – sem á að nokkru rætur sínar að rekja til Bosman-úrskurðarins – er sá fjöldi erlendra leikmanna sem fengið hefur íslenskan ríkisborgararétt. Verði erlendir leikmenn bannaðir þá hafa slíkir leikmenn gríðarlega mikið vægi, og verðmæti fyrir þau lið sem eru svo lánsöm að hafa þau innan sinna raða. Skapar það mikið og óæskilegt ójafnvægi. Þetta eru ekki hugleiðingar um möguleika heldur raunverulega stöðu sem hreyfingin hefur staðið frammi fyrir undanfarin ár.

Ég vil taka það fram að lokum – til öryggis – að pistlar þessir eru ritaðir af undirrituðum persónulega og eru ekki samantekt eða umfjöllun af hálfu stjórnar KKÍ. Í því samhengi vil ég koma á framfæri áhyggjum mínum með þá þróun sem nú virðist vera að verða staðreynd á grundvelli gildandi reglna – einkum nú eftir áramótin. Ég hvet hinsvegar menn til að ræða þetta málefnalega og án fordóma gagnvart andstæðum sjónarmiðum. Ef menn hafa “patentlausnir” þá hvet ég viðkomandi til að koma þeim þegar í stað á framfæri. Yfirleitt eru hinsvegar rök með og móti. Við höfum verkefni að leysa, sem þarfnast umræðu og lausna – ekki niðurrifs.

Næsti pistill verður um fjárhagshliðina.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
A landslið karla sem tók þátt í C riðli Evrópukeppninnar í Hempstead árið  1977. Aftari röð frá vinstri: Birgir Örn Birgis þjálfari, Steinn Sveinsson sem var í landsliðsnefnd, Torfi Magnússon, Val, Bjarni Jóhannesson, KR, Pétur Guðmundsson, Val, Jón Jörundsson, ÍR, Bjarni Gunnar Sveinsson og Einar Bollason þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Gunnar Þorvarðarson, Njarðvík, Kári Marísson, Njarðvík, Kristin Jörundsson, ÍR, Ríkharður Hrafnkelsson Val og Jón Sigurðsson, Ármanni.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið