© 2000-2022 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
   
20.1.2004 | Ólafur Rafnsson
Jafnrétti
Ég er e.t.v. ekki hæfasti aðilinn til að ræða svo víðtæka og pólitíska spurningu sem jafnréttishugmyndin er. Þó ég telji mig vera harðan jafnréttissinna þá er það nú oft þannig með mig og kynbræður mína að við erum meiri í orði en á borði að því leyti. En tilefni þessarar umræðu eru sjónarmið sem ýmsir hafa skotið að mér í kjölfar umfjöllunar um “stelpuslaginn” í Seljaskóla í síðustu viku, og varðandi þá afstöðu stjórnar KKÍ að hafa fram að þessu ekki gert báðum kynjum jafnt undir höfði að því er varðar stjörnuleiki. Vissulega góðar, gildar og vel þegnar ábendingar.

Þessi sjónarmið leiddu hinsvegar hugann að því að á þessum annars vel heppnaða viðburði þá voru báðir þjálfararnir karlkyns – þeir Pétur og Ívar. Ég tók einnig eftir því að báðir dómararnir voru karlkyns – þeir Erlingur og Lárus. Ef út í það er farið þá var allt ritaraborðið karlkyns, svo ekki sé minnst á tölfræðisnillinginn – hann Óskar. Kynnir kvöldsins – hinn geðþekki fjölmiðlamaður Valtýr Björn – er einnig aldeilis karlkyns. Og já, meira að segja lukkudýrin sem stóðu sig svo vel – virtust vera karlkyns (ræddi lítillega við þau eftir leikinn).

Eftir stendur þá að nánast einu kvenkyns þátttakendurnir í viðburðinum hafi verið leikmennirnir sjálfir. Vitaskuld verð ég þó að gera fyrirvara um aðra aðila er að skipulagningunni hafa komið og starfað bak við tjöldin og mér er ekki kunnugt um.

Nú er þessari ábendingu alls ekki ætlað að draga úr gildi viðburðarins á grundvelli kynjajafnréttis, heldur fremur að lýsa þeim veruleika sem er til staðar í okkar ágætu körfuknattleikshreyfingu – og reyndar íþróttahreyfingunni almennt – en það er skortur á þátttöku kvenna á öllum sviðum starfseminnar. Auðvitað er þetta ekki algilt, og er víða að finna öflugar konur í stjórnunarstöðum – á borð við Elínborgu hjá ÍS sem borið hefur það félag meira og minna á herðum sér í á annan áratug.

Körfuknattleikssamband Íslands hleypti árið 1998 af stokkunum s.k. “Sókn í kvennakörfuknattleik” og tel ég tvímælalaust að það átak hafi átt sinn þátt í þeirri miklu grósku sem endurspeglast nú í gríðarlegum fjölda efnilegra leikmanna og vexti í deildarkeppni 2. deildar kvenna.

Þetta átak laut hinsvegar að uppbyggingu leikmanna. Þróun hefur á hinn bóginn skort hjá okkur að því leyti að nýta þann mikla dulda auð sem við eigum í því að geta fjölgað kvenkyns einstaklingum í stjórnunarstöðum hreyfingarinnar. Þá á ég í senn við fjölgun innan stjórna félaganna, þjálfara, dómara, starfsmenn ritaraborða og tölfræði o.s.frv. Þetta er afar verðugt verkefni fyrir okkur.

Raunar stendur nú yfir undirbúningur víðtæks átak á vegum Körfuknattleikssambands Íslands er lýtur að stjórnendaþróun, er ætlað er að fjölga stjórnarmönnum félaga og gera þá hæfari og langlífari í starfi. Eitt sem litið er til í því samhengi er fjölgun kvenna í stjórnunarstöðum. Ég lít svo á að þar sé ekki um einhliða vinnu við að hvetja konur til slíkrar þátttöku, heldur jafnframt beri konur nokkra ábyrgð á því að sækjast eftir störfum á öllum sviðum okkar sjálfboðaliðsstarfsemi.

Munum að jafnrétti felur í raun bæði í sér réttindi og skyldur.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá keppni drengjalandsliðs Íslands í úrslitakeppni Evrópukeppninnar í Tyrklandi árið 1993.  Guðfinnur Friðjónsson og Ómar Sigmarsson ásamt ónefndum tyrkneskum flautuleikara.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið