© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
7.5.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Ræða formanns á ársþingi KKÍ
Ágætu félagar,

Stjórn KKÍ hefur lagt fram skýrslu sína um þau verkefni sem unnið hefur verið að á því starfsári sem nú er að ljúka. Starfsárið hefur einkennst af þjóðfélagsbreytingum sem í auknum mæli þrengja að tilteknum sviðum íþróttahreyfingarinnar – ekki síst sérsamböndum innan vébanda ÍSÍ.

Kröfur verða sífellt meiri, samhliða því að úrræði til að verða við þeim kröfum hafa frekar dregist saman en hitt. Við þekkjum það öll að fyrirtæki gera ekki lengur styrktarsamninga heldur harða viðskiptasamninga.

Það sem ef til vill hefur gert þetta umhverfi enn erfiðara er að keppinautar á þessum markaði eru fleiri og stærri en áður. Í reynd eru t.d. ekki mörg íslensk fyrirtæki sem eiga auðvelt með að kaupa heildarstuðning á efstu deildum stærstu íþróttagreina landsins. Þá byggja sjónvarpsstöðvar nú í auknum mæli rekstur sinn á kostun dagskrárefnis, sem dregur óneitanlega úr möguleikum stóru íþróttagreinanna á markaðssetningu sinna stuðningsaðila. Þannig má áfram telja.

Stærsta breytingin er þó e.t.v. fólgin í því að ríkisreknar listastofnanir hafa nú í síauknum mæli verið að rugga þeim báti sem skapað hefur viðkvæmt jafnvægi á milli ríkisframlaga til listastofnana annarsvegar og sjálfsbjargarnauðsynjar íþróttahreyfingarinnar á almennum markaði hinsvegar með því að leita fjármagns í auglýsingum og stuðningsaðilum að hætti íþróttahreyfingarinnar. Ég tel íþróttahreyfinguna á Íslandi ekki hafa gætt hagsmuna sinna nægilega vel að þessu leyti. Jafnræði er nauðsynlegt, og annaðhvort fáum við ríkisframlög til rekstrar eða fáum að hafa hinn almenna markað án samkeppni við ríkisrekna aðila.

En samfélagið er einnig að breytast. Byltingarkennd aukning á framboði afþreyingarefnis samhliða breyttum lifnaðarháttum þjóðarinnar hefur leitt til þess að ýmsar eininga samfélagsins hafa átt erfitt með að laða til sín áhorfendur. Á það jafnt við um íþróttastarfsemi, listastarfsemi sem og aðra félagsstarfsemi. Í vetur sótti ég leiksýningu í Þjóðleikhúsinu þar sem einungis var setið á 10 fremstu bekkjunum. Ég hef sótt fræðafund í félagasamtökum í vetur þar sem unnt hefur verið að telja fundargesti á fingrum sér – að fyrirlesurum meðtöldum. Og já, ég hef einnig sótt kappleiki í efstu deildum körfuknattleiks þar sem áhorfendur hafa rétt náð einu hundraði.

Þjóðin vill láta mata sig á beinum útsendingum, og sættir sig nú ekki við neitt annað en það allra besta sem fyrirfinnst í heiminum á hverju sviði. Við þetta er erfitt að keppa.

En hvað er þá til ráða? Eigum við að gefast upp? Það er sannarlega ekki háttur þeirra sem starfað hafa innan íslensks körfuknattleiks. Mikilvægt er fyrir okkur að standa saman um að tileinka okkur nýja tækni og þróa nýjar leiðir, og umfram allt að standa saman um framkvæmd þeirra leiða eftir að ákvörðun hefur verið tekin. Það er okkur mikilvægt að standa ekki að gengisfellingu markaðsafurða okkar með sífelldu niðurrifi á opinberum vettvangi – eins og því miður fámennur hópur virðist telja vænlegt til árangurs.

Það er þroskamerki og forsenda framfara að við fjöllum rækilega um þróunarmálefni okkar á réttum vettvangi, innan okkar eigin raða, og stöndum svo sameiginlega að því að gera það besta úr niðurstöðunni. Það sjá allir í hendi sér að þótt kapplið geti lagt upp leikskipulag með ýmsum hætti þá er mikilvægast að allir leikmennirnir spili eftir sama skipulagi, þótt þeir kunni að hafa persónulegar skoðanir á því hvort það er betra eða verra en annað.

Að öðrum kosti tapa þeir allir leiknum – þeir eru í sama liði og samherjarnir hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Vera má að einstökum leikmanni sé það mikilvægara að ná persónulegum árangri innan vallar en að liðið sigri. Ég held að við séum öll sammála um viðhorf til slíkra leikmanna sem taka einkahagsmuni sína fram yfir hagsmuni liðsins. Slíkir leikmenn kunna alltaf að vera til staðar – innan vallar sem utan – og að mínu mati er mikilvægt að þátttaka slíkra aðila sé með minnsta móti ef ekki er unnt að fá þá til að breyta viðhorfi sínu til “liðsins”.

- - -

Mig langar til þess að víkja að stöðu íslensks körfuknattleiks á alþjóðavettvangi. Eins og flestum ykkar ætti að vera kunnugt um hafa verið miklar hræringar innan Evrópu að því er varðar baráttu um Evrópukeppni félagsliða – sem hefur fram á síðari ár verið fjárhagsleg mjólkurkú hreyfingarinnar. Hefur þessi barátta leitt til verulegrar eftirgjafar á hagsmunum landsliða gagnvart hagsmunum félagsliða, og mun þetta bitna meira á íslenskum körfuknattleik en margir kunna að gera sér grein fyrir, ekki síst í ljósi þess að íslensk félagslið hafa ekki notið ávaxtanna þar sem þau taka ekki þátt í alþjóðlegum keppnum vegna kostnaðar.

KKÍ hefur á undanförnum árum á vettvangi FIBA barist fyrir breyttu fyrirkomulagi A-landsliða karla innan Evrópu, sem leiddi til þess á síðasta ári að þær tillögur voru samþykktar. Þetta þýddi þátttöku okkar í undanúrslitakeppni Evrópumótsins á ný – en þar höfum við ekki leikið s.l. tvö ár – og jafnframt að meðal þátttökuþjóða yrðu allar bestu þjóðir álfunnar. Þetta var mikill sigur. En þrátt fyrir að leikdagar hafi þegar verið ákveðnir, fyrst í nóvember á þessu ári, þá var þessu kerfi hinsvegar fyrirvaralaust kollvarpað með ótrúlegum hætti nú nýlega, og munu næstu leikir Íslands í keppninni því ekki verða fyrr en í september 2004.

Nú er staðan því sú að við höfum skyndilega verið sviptir möguleikanum á því að fá landsleiki gegn 24 bestu þjóðum álfunnar. Við höfum verið sviptir þeim möguleika að markaðssetja leiki okkar innan keppnistímabilsins með auknum tekjum og minni tilkostnaði. Því til viðbótar hefur fjárhagsleg þróun félagsliðakeppni Evrópu leitt til þess að við höfum nú verið sviptir þeim takmörkuðu fjármunum sem FIBA lagði til landsliða fyrir slíka þátttöku. Þetta er stór biti að kyngja í einu lagi.

Fyrir tveimur og hálfu ári ýtti KKÍ úr vör nýrri afreksstefnu til sex ára. Þróunin í Evrópu – samhliða skertum fjárhagsforsendum landsliðanna – hefur raskað þeirri áætlun verulega. Sú áætlun sem sett hafði verið upp fram að leikjunum í nóvember hrynur nú algerlega. Eftir sem áður mun liðið nú taka þátt í Smáþjóðaleikunum á Möltu eftir mánuð, og æfingaleikjum hér á landi gegn Noregi nú í maí, en það verður svo sannarlega verkefni nýrrar landsliðsnefndar að afloknu þessu ársþingi að leggja nýjar línur fyrir næsta ár.

Engum ætti þó að dyljast að við höfum líklega aldrei haft á að skipa jafn miklu úrvali frábærra leikmanna í öllum stöðum, og því svíður það enn meir að fá ekki að fylgja afreksstefnunni eftir í samræmi við þá þróun.

Andstætt því sem sumir hafa haldið fram þá hefur hlutlægur árangur landsliðsins á undanförnum árum verið betri en áður. Má þar sem dæmi nefna árangur liðsins á Norðurlandamótinu í fyrrasumar þar sem við vorum jafnir Svíum og Finnum að stigum í efsta sæti, en hlutum þriðja sæti vegna innbyrðis stigaskors. Þá má ekki gleyma því að fyrsti sigurinn í undanúrslitakeppni Evrópumótsins leit dagsins ljós fyrir tveimur árum – og það á útivelli. Einnig hafa þó á undanförnum árum verið ósigrar sem við erum ósáttir við, ekki síst í síðustu undankeppni EM sem hefði getað tryggt okkur sæti í undanúrslitunum s.l. tvö ár. Vandamálið undanfarin tvö ár hefur einkum verið fólgið í skorti á fjölda landsleikja gegn sterkum þjóðum.

Framundan gerum við nú hinsvegar skýra kröfu til sigurs á Smáþjóðaleikum – en keppni smáþjóða innan álfunnar hefur gjarnan verið með nokkuð sérstæðum hætti. Er það vegna sérstakra hlutgengisreglna ríkisborgararéttar sem gilda í sumum smáríkjanna, og gilda t.a.m. ekki í almennum mótum á vegum FIBA. Þessi þróun er nú að hluta til komin hingað til lands í formi erlendra leikmanna sem hlotið hafa íslenskan ríkisborgararétt. Mun þetta án efa hafa meiri áhrif á þróun landsliða á komandi árum og jafnvel draga úr sérkennum landsliða sem úrvalsliða þjóða ef of langt verður gengið í því að nánast “kaupa” leikmenn til landsliða.

Tel ég nauðsynlegt að skapa ítarlega umræðu um þessa þróun og áhrif hennar á framtíð landsliða almennt. Þetta er nefnilega ekki einskorðað við Ísland, og tæknilega getum við horft upp á það innan skamms að landsleikir tiltekinna þjóða í Evrópu verði að meirihluta skipaðir leikmönnum upprunnum utan álfunnar, og hafa fengið skyndi-ríkisborgararétt á s.l. misserum. Hvort við viljum þetta, og hversu langt slíkt á að ganga er nauðsynlegt að velta fyrir sér fyrr en seinna ef unnt á að vera að grípa inn í þá þróun.

Varðandi kvennalandslið Íslands þá varð það jafnframt fórnarlamb skipulagsbreytinga þar sem samstarf Norðurlandanna hefur breyst nokkuð í kjölfar opnunar Evrópu til austurs. Þjóðir á borð við Svía og Finna hafa nú í vaxandi mæli litið til Eystrasaltsríkjanna, bæði þar sem þau geta boðið upp á öflugri körfuknattleik og minni ferðakostnað. Olli þetta m.a. því að Norðurlandamótið sem halda átti á Íslandi síðastliðið sumar féll niður. Enn sannast því að Ísland er Ísafjörður Evrópu.

Hinsvegar stóð liðið sig prýðilega á móti í Luxemborg milli jóla og nýárs, og mun svo taka þátt í Smáþjóðaleikunum á Möltu líkt og karlalandsliðið nú í byrjun júní. Bindum við miklar vonir við árangur liðsins, en ljóst má vera að nauðsynlegt er að tryggja liðinu frekari verkefni en verið hafa á undanförnu ári.

Annars virðist vaxtarbroddur íslensks körfuknattleiks undanfarin misseri hafa verið á sviði kvennakörfuknattleiks. Aldrei hafa verið jafn mörg lið skráð til keppni, og aldrei jafn margir hæfileikaríkir leikmenn. Aldrei hefur verið jafn hart barist í senn um fall og sigur, og líklega má segja að breidd góðra liða hafi sjaldan verið jafn mikil – e.t.v. fyrir utan nokkra yfirburði eins liðs þennan veturinn.

Hvort þetta er að einhverju leyti að þakka átaki okkar um sókn í kvennakörfuknattleik fyrir 5 árum síðan skal ósagt látið, en til gamans skal minnt á að sumir höfðu allt á hornum sér gagnvart KKÍ þegar menn töldu niðursveiflu vera ráðandi fyrir fáeinum árum. Ekki er ég að biðja þá aðila að koma nú og klappa KKÍ á öxlina, en ítreka hinsvegar sjónarmið okkar um að þetta er fyrst og síðast á valdi félaganna sjálfra – þ.e. bæði uppsveifla og niðursveifla.

Það er e.t.v. gagnlegt að hafa þetta hugfast þegar hin meinta niðursveifla varð fyrir nokkrum misserum þá var staðan sú að svo virtist sem allir bestu leikmenn landsins virtust hópast í tvö lið, sem vissulega leiddi til hágæðakörfuknattleiks í viðureignum þeirra tveggja liða, en að sama skapi takmarkaðri uppbyggingu utan þeirra liða. Menn sjá e.t.v. samhengi við umfjöllun um keppnisfyrirkomulag eða sjónvarpsútsendingar sem einu grundvallaratriðin við uppbyggingu íþróttarinnar. Það eru sannarlega mikilvæg tæki, en þó ekki annað en tæki. Raunverulegur árangur byggir á öflugu starfi félaganna sjálfra.

Yngri landslið Íslands hafa verið gerð út með nokkuð hefðbundnum hætti á þessu starfsári. Þar stendur e.t.v. upp úr sú ákvörðun stjórnar KKÍ að draga drengjalandslið Íslands út úr milliriðilskeppni í Tyrklandi nú í apríl vegna stríðsátakanna í Írak. Þrátt fyrir að vonbrigðin hafi verið yfirþyrmandi að þurfa að grípa til slíkra ráðstafana þá höfum við fengið mikinn skilning og stuðning hér innanlands á þeirri ákvörðn. Eftir á hinsvegar að koma í ljós hvort þetta hafi sektir í för með sér frá FIBA.

Þá er ánægjulegt að fyrsta opinbera keppnin sem KKÍ stendur fyrir í yngri flokkum í FIBA móti verður nú í júlí í sumar þegar Promotion Cup í unglingaflokki kvenna fer fram að Ásvöllum í Hafnarfirði. Hefur nýráðinn framkvæmdastjóri FIBA-Europe reyndar boðað komu sína hingað til lands á þeim tíma, en framkvæmdastjóri FIBA hefur aldrei sótt Ísland heim.

Ég vil nefna eitt mál sem valdið hefur mér nokkrum áhyggjum, en það eru slök skýrsluskil félaga innan okkar vébanda. Þegar við fengum í hendur iðkendatölur vegna ársins 2001 í hendur brá okkur vissulega í brún, ekki síst þar sem fjöldi keppnisflokka endurspeglaði ekki slíka fækkun. Við nánari skoðun reyndist það vera rétt, þ.e. verulegt misræmi var þar á milli sem ekki verður skýrt með öðrum hætti en slakri skráningu iðkenda.

Vil ég leggja áherslu á að félög vandi nokkuð til verka á þessu sviði því þetta skiptir okkur talsverðu máli. Auk þess að geta haldið utan um skipulag sambandsins þá eru þessar tölur mikilvægar þegar kemur að úthlutun atkvæðafjölda, lottófjármagns og varðar einnig ímyndar hreyfingarinnar. Það er ekki gott afspurnar fyrir okkur að falla úr því að vera þriðja stærsta grein innan ÍSÍ í það að vera sú sjöunda, einkum ef það er í raun rangt. Hér koma reyndar einnig til umdeildar aðferðir við skráningu iðkenda hjá einstökum íþróttagreinum – en breytir ekki nauðsyn okkar á að hafa okkar skráningu rétta.

Ennfremur vil ég ítreka orð mín frá fyrri ársþingum um að félög veiti meiri athygli stjórnarstörfum aðila innan körfuknattleiks á vegum yfirstjórnunareininga. Má þar sem dæmi nefna aðalstjórnir sinna félaga, íþróttabandalög og héraðssambönd, og í sjálfu sér innan KKÍ líka. Þetta segi ég m.a. í ljósi atvika sem upp komu innan tveggja félaga okkar s.l. haust þar sem ákvarðanir um að leggja af meistaraflokka virðast hafa verið teknar að nokkru vegna hagsmuna og sjónarmiða annarra íþróttagreina innan þeirra sömu félaga.

Ársþing þetta kann að marka byltingarkennd spor í þróun íslensks körfuknattleiks á næstu árum vegna fyrirliggjandi tillagna um afar róttækar breytingar á keppnishaldi okkar. Bið ég þingfulltrúa því að kynna sér rækilega þær tillögur, mynda sér skoðun og taka virkan þátt í umræðum í þingnefndum.

Að lokum vil ég vekja athygli þingfulltrúa á því að kynna sér stefnumarkmið stjórnmálaflokkanna varðandi afstöðu þeirra til íþróttastarfs í landinu, og þótt ég muni alls ekki halda hér á lofti flokkspólitískum sjónarmiðum þá tel ég æskilegt að við tökum mið af því sem þar kemur fram þegar við ákveðum hvar við köstum atkvæði okkar í komandi Alþingiskosningum um næstu helgi.

Óska ég okkur öllum velfarnaðar í þingstörfunum.

Takk fyrir.

Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Páll Axel, leikmaður Grindavíkur keyrir hér að körfunni fram hjá Halldóri Erni, leikmanni Breiðabliks, í Smáranum haustið 2008. Grindavík sigraði í leiknum 61:79
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið