S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
|||||
3 |
4 |
5 |
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
30.4.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Patentlausnir
Þær lausnir sem leitað er munu í flestum tilvikum ávallt hafa kosti og galla. Í afar fáum tilvikum er raunhæft að tala um fullkomnar lausnir – „patentlausnir“. Nær lagi væri að tala um bestu lausnina „miðað við aðstæður“, en þær aðstæður geta þó verið afar ólíkar og mismunandi eftir markmiðum og sjónarmiðum þeirra sem að ákvörðunartöku koma. Þar getur t.d. þurft að líta til langtímamarkmiða o.s.frv. þar sem tímabundnir vaxtaverkir kunna að hafa áhrif. Ýmsir gætu litið svo á að besta lausnin sé fólgin í mestu málamiðluninni – þar sem allir fara sem ánægðastir frá borði, eða e.t.v. allir jafn óánægðir – á meðan aðrir kynnu að líta svo á að besta lausnin lúti markaðslegum sjónarmiðum, fjárhagslegum eða öðrum slíkum. Allt fer þetta eftir málefni því sem er á döfinni hverju sinni og aðkomu einstakra ákvörðunaraðila að málinu. Í flestum tilvikum verður hinsvegar að komast að niðurstöðu, og jafnan einungis ein leið á endanum valin. Forsendur viðkomandi ákvörðunaraðila til framfara felast hinsvegar í því að virða ákvörðun sem hefur verið lýðræðislega tekin á grundvelli nægra upplýsinga og heiðarlegra skoðanaskipta – hvort sem menn hafa í upphafi verið sammála tillögunni eða ekki. Þegar lýðræðislegri niðurstöðu er fylgt eftir kunna hinsvegar að koma í ljós ágallar sem öllum voru e.t.v. ekki ljósir á þeim tíma sem ákvörðun var tekin. Vaxtarverkir langtímamarkmiða er gott dæmi um slíkt. Gildir þá einu hversu ítarleg umræða kann að hafa átt sér stað, og hversu harkaleg skoðanaskipti voru á milli andstæðra hagsmuna eða sjónarmiða. Oft vilja menn nefnilega trúa því að tiltekin niðurstaða leysi öll vandamál – jafnvel að allsendis óskyld málefni leysist af sjálfu sér og allt fari á besta hugsanlega veg. Þetta eru þó í sumum tilvikum draumsýnir og jafnvel óskhyggja. Þótt slíkt endurspegli e.t.v. alúð gagnvart málefninu þá mega menn ekki blindast af slíku. Um næstu helgi verður haldið ársþing Körfuknattleikssambands Íslands í Stykkishólmi. Að venju eru þar fjölmargar tillögur sem liggja fyrir til úrlausnar – tillögur sem ýmsir einstaklingar hafa af dugnaði og dálæti á framgangi íþróttarinnar lagt talsverða vinnu í. Íslensk körfuknattleikshreyfing hefur verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa almennt á að skipa fulltrúum sem bera hag íþróttarinnar fyrir brjósti og taka af einurð og málefnaleika virkan þátt í umræðum þingsins. Stærsta málefni þingsins er án efa ráðgerðar breytingar á keppnisfyrirkomulagi í efstu deildum karla. Keppnisfyrirkomulag er einmitt prýðilegt dæmi um málefni þar sem vart verður talið að til séu neinar „patentlausnir“. Afar ólík sjónarmið um t.d. liðafjölda, leikjafjölda, lengd móts, tilvist úrslitakeppni eða ekki, riðla eða ekki riðla, sanngirni, spennu, útbreiðslu, landsbyggðaruppbyggingu, körfuboltalegar framfarir leikmanna, markaðsleg sjónarmið, fjárhagsleg sjónarmið (bæði tekjur og gjöld), einfaldleika og skiljanleika mótahaldsins, stöðugleika mótahalds o.s.frv. o.s.frv. geta valdið því að menn sjái niðurstöðu máls í ólíku ljósi. Hið fullkomna keppnisfyrirkomulag er vart til. Íslensk körfuknattleikshreyfing hefur á hinn bóginn verið óhrædd við þróunarstarf á því sviði – og ekki óttast breytingar sem menn hafa haft trú á að séu íþróttinni til framdráttar, án þess þó að raska um of nauðsynlegum stöðugleika. Verður reyndar að meta það í ljósi reynslunnar að ákvarðanir um breytingar hafa fram að þessu verið íþróttinni fremur til framdráttar, hvort sem það er einskær heppni eða – eins og ég hallast reyndar fremur að – vegna faglegra og lýðræðislegra vinnubragða við ákvörðunartöku í gegnum tíðina. Ég vara við að menn nálgist viðfangsefnið sem „patentlausn“. Keppnisfyrirkomulag eitt sér fjölgar ekki áhorfendum sjálfkrafa eða eykur umfjöllun fjölmiðla. Það eykur ekki sjálfkrafa tekjur hreyfingarinnar eða margfaldar útbreiðslu íþróttarinnar. Keppnisfyrirkomulag er hinsvegar tæki sem við notum til þess að vinna að framangreindum þáttum samhliða öflugu starfi innan félaganna og sambandsins. Fari þetta ekki saman er keppnisfyrirkomulag sem slíkt lítið annað en tómur pappakassi. Það er mikilvægt að allir sem koma að ákvörðunartökunni kynni sér málefnið til hlítar og komi sjónarmiðum sínum á framfæri með skipulegum og málefnalegum hætti svo upplýst lýðræði nái að njóta sín. Þótt ekki verði komist að neinum „patentlausnum“ þá hygg ég og vona að menn komist í það minnsta að „bestu lausninni“. Ég hvet alla körfuknattleiksunnendur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, og alla fulltrúa á ársþingi til þess að taka virkan þátt í umræðunni. Svo gerum við það besta úr niðurstöðunni. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ |