© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
18.3.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Íþróttir og kynþokki
Í síðasta pistli var fjallað um íþróttir og viðskiptalífið. Þykir ýmsum það þurrt viðfangsefni. Málefni þessa leiðara kann að vera fjörlegra og höfða til fleiri, en er engu að síður nokkurt “tabú” þegar kemur að íþróttum. Er það að hluta til með réttu, þar sem eðli íþrótta snýst almennt ekki á nokkurn hátt um kynþokka. Auk þess er íþróttastarf hérlendis að stærstu leyti uppeldisstarfsemi barna og ungmenna, þar sem slík sjónarmið eiga sannarlega ekki heima. Engu að síður er kynþokki tengdur íþróttum með meira áberandi hætti en umræðan gefur tilefni til að ætla.

Flestir muna eftir fjaðrafoki sem varð þegar íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu ákvað að vekja athygli á kappleikjum sínum með því að birta auglýsingu í dagblöðum þar sem þær voru klæddar bikinifatnaði. Olli þetta ýmsum viðbrögðum og umræðu í samfélaginu sem sannarlega yrðu ekki með þeim hætti hjá flestum öðrum einingum samfélagsins en íþróttahreyfingunni. Ég hef reyndar lauslega fjallað um þetta í fyrri pistli, þá í því samhengi að þetta ætti ekki að valda því að íþróttahreyfingin væri sífellt í vörn, m.a. með samanburði við til dæmis ýmsar listgreinar sem byggja stundum á nekt og kynþokka – án þess að valda sambærilegum viðbrögðum samfélagsins.

Reglulega kemur upp “óopinber” umræða innan einstakra íþróttagreina um útlit keppnisbúninga með tilliti til kynþokka. Vegna þess að umræðan er visst “tabú” eins og fyrr segir fer hún gjarnan ekki fram opinberlega. Þó má nefna blakíþróttina, en þar var tekin sú ákvörðun að ákveða form keppnisbúninga kvenna með hliðsjón af því að þeir drægju fram kvenlega eiginleika keppenda.

Ég get reyndar upplýst að sambærileg umræða hefur farið fram á vettvangi alþjóðlegs körfuknattleiks. Í því samhengi hef ég vakið athygli á því að ég telji óeðlilegt að umræðan fari einungis fram varðandi keppnisbúninga kvenkyns þátttakenda. Ef menn á annað borð viðurkenna þessi sjónarmið sem hluta af “markaðssetningu” íþróttagreinar þá sé ég ekki rök fyrir öðru en að sömu sjónarmið eigi við um bæði kynin. Ítrekað skal að umræða þessi er einskorðuð við fullorðna keppendur.

Fram eru komnar ýmsar nýjar “íþróttagreinar” sem virðast byggja nokkuð á kynþokka við markaðssetningu. Keppnir í t.d. strandblaki,svonefndri “hreysti”, svo dæmi séu tekin, virðast t.a.m. að miklu leyti byggja vinsældir sínar nokkuð á útliti og atgervi þátttakendanna – beinlínis kynþokka. Einnig má nefna óbein tengsl við hefðir sem eldri íþróttagreinar hafa byggt á, og má þar sem dæmi nefna kynþokkafullar stúlkur sem virðast ómissandi þegar kynna á nýjar formúlubifreiðar eða upplýsa um hvaða lota sé næst í hnefaleikum, og hefur hin nýheimilaða keppnisgrein hnefaleikar hér á landi tekið upp þá siði í keppnum hérlendis líkt og erlendis.

Ljóst má hinsvegar vera að íþróttagreinum er miserfitt að byggja með meðvituðum hætti á kynþokka við markaðssetningu. Líklega er slíkt auðveldast t.d. í fimleikum, sundi og sambærilegum greinum þar sem klæðnaður þarf að vera sem léttastur. Þar hafa menn þó ekki fallið sérstaklega í slíkar freistingar. Á hinn bóginn getur verið erfitt að gera búninga í t.d. siglinga- eða skíðakeppni kynþokkafulla hafi menn áhuga á slíku.

Ýmsar íþróttir hafa gamlar hefðir sem byggja á skiptingu kynjanna. Má t.d. eflaust fullyrða að það búi að baki pilsnotkun innan tennisíþróttarinnar. Þótt búningar hafi þar orðið ívið djarfari á undanförnum áratugum þá byggja búningar þeirrar ágætu íþróttar á gömlum hefðum, og voru sannarlega vart reistir á kynþokkafullum sjónarmiðum í upphafi síðustu aldar. Hinsvegar geta menn spurt sig hvers vegna ekki hafi t.d. skapast jafn rík “pilshefð” í öðrum sambærilegum íþróttagreinum á borð við badminton, borðtennis og veggtennis.

Reyndar kemst ég nú vart frá þessu málefni án þess að minnast á klappstýrur sem rík hefð er fyrir í íþróttagreinum sem eiga sér uppruna í Bandaríkjunum. Þar á meðal er körfuknattleikur. Enn og aftur er þó kynjamismunur þeirra skemmtana áberandi á þann veg að í yfirgnæfandi hluta tilvika er um kvenfólk að ræða. Varðandi leikmenn í körfubolta þá hafa hinsvegar ýmsir spurt sig hvers vegna nútímakeppnisbúningar – beggja kynja – þurfi að vera svona einstaklega ókynþokkafullir.

Til gamans má reyndar geta þess að ein er sú íþróttagrein – golf – sem er líklega ein af fáum íþróttagreinin sem beinlínis forbýður allt sem lýtur að kynþokka, a.m.k. að því er klæðaburð varðar. Hið sama má reyndar segja um eina af mínum uppáhaldsíþróttagreinum, nefnilega hina rammíslensku þjóðaríþrótt okkar glímuna. Það yrði sannarlega löstur á þeirri ágætu íþróttagrein að hverfa frá hinu þjóðlega inntaki sem búningarnir endurspegla, í átt að kynþokkafullum nútímaklæðum.

Sjónarmið um kynþokka ná annars hærra í yfirstjórnun íþróttahreyfingarinnar en sumir gera sér e.t.v. grein fyrir. Í upphafi þessa árs var haldin hin árlega hátíð vegna kjörs íþróttamanns ársins. Þótt þeir forystumenn sem ávörpuðu samkomuna, m.a. þeir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Ellert B. Schram forseti ÍSÍ, og Adolf Ingi Erlingsson, formaður Samtaka íþróttafréttamanan, hafi allir verið geislandi af kynþokka á sviðinu, þá var engu að síður talið ásýnd hátíðarinnar til tekna að bæta þar við fegurðardrottningu Íslands til þess að aðstoða við verðlaunaafhendingu.

Það er alveg eins með íþróttir og allt annað – menn hafa meira gaman af því að horfa á fallegt fólk. Nú er það hinsvegar hvers lesanda fyrir sig að gera það upp við sig hversu miklu kynþokki raunverulega skiptir hann máli næst þegar hann horfir á íþróttaviðburð.

Það er óþarft að taka fram að pistil þennan ber ekki að taka of alvarlega.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.

Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Leikmenn á leið á lokahóf KKÍ 1988 í gamla Broadway í Mjódd.  Sigurður Ingimundarson, Ragnar Torfason og Guðjón Skúlason
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið