S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
|||||
3 |
4 |
5 |
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
4.3.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Bosman dómurinn
Undirritaður er í hópi þeirra sem telja þennan dóm rangan – í versta falli mistök, en í besta falli verulega oftúlkaðan. Er sú niðurstaða í senn byggð á lögfræðilegum hugleiðingum og íþróttapólitískum sjónarmiðum. Vil ég reyna að rökstyðja þá niðurstöðu mína nánar. Íþróttahreyfingin eru frjáls félagasamtök sem í eðli sínu byggja á félagslegri áhugamannaiðkun á einstökum íþróttagreinum. Í reynd er það svo að yfirgnæfandi meirihluti þegna íþróttasamfélagsins starfar á þeim grunni. Sem slík hefur hreyfingin sett sér sjálf sínar innri reglur um skipulag og forsendur þátttöku, og taka menn þátt í störfum hreyfingarinnar af fúsum og frjálsum vilja. Enginn er þvingaður til að taka þátt. Reglur íþróttahreyfingarinnar hafa að mínu mati í sjálfu sér lítið sem ekkert með réttarreglur samfélagsins að gera. Þetta eru í reynd tvö réttarkerfi óháð hvort öðru, og úrlausn deilumála lúta sjálfstæðum niðurstöðum hvors kerfis um sig. Vitaskuld geta þessi kerfi þó skarast þannig að bæði kerfin gætu sjálfstætt þurft að meðhöndla einstök málefni. Þannig myndi t.d. almenna réttarkerfið geta tekið til vísvitandi ofbeldisbrots innan íþróttahreyfingarinnar, en þar með er ekki sjálfgefið að íþróttahreyfingin myndi dæma viðkomandi leikmann í leikbann – og öfugt – þ.e. leikbrot sem myndi ekki varða nokkurri refsingu í almennu réttarkerfi kynni að valda leikmanni leikbanni innan íþróttahreyfingarinnar viðurlögum. Meðferð málanna er að jafnaði óháð hvor annarri. Dæmi um þetta gæti t.d. verið mótmæli leikmanns gagnvart dómara. Dómari leiksins getur haft heimild til að víkja leikmanni af velli fyrir slíkt, sem jafnvel gæti orsakað leikbann í næsta leik á eftir. Miklar þyrftu þó svívirðingarnar að vera til þess að dómarinn gæti sótt mál á hendur leikmanninum fyrir almennum dómstólum, þar sem atriði á borð við stjórnarskrárverndað tjáningarfrelsi hafa talsvert vægi. Annað dæmi mætti reyndar nefna varðandi jafnrétti kynjanna. Hvaða endemis fordómar felast t.d. í því að undirritaður getur ekki skráð sig í kvennaflokk síns félags á grundvelli lögbundins réttar um að eigi megi mismuna mönnum á grundvelli kynferðis? Í lögum er kveðið á um að “hvers kyns mismunum eftir kynferði, bein eða óbein, er óheimil”. Rökrétt? En ljóst er að slíkt myndi með öllu kippa grundvelli undan kynjaskiptingu í íþróttum. Þriðja dæmið mætti nefna – sem vel að merkja hefur verið í umræðunni undanfarin misseri – en það eru lyfjamálefni. Sú staðreynd að menn neyti efna sem kaupa má með löglegum hætti á almennum markaði skuli orsaka keppnisbann jafnvel svo árum skiptir. Íþróttahreyfingin setur – og á sannarlega að setja – mun strangari reglur um neyslu lyfja en almenna samfélagið, og fráleitt væri að taka þann rétt frá íþróttasamfélaginu að geta sett slíkar forsendur fyrir þátttöku og hlutgengi án utanaðkomandi afskipta. Staðreyndin er sú að í reynd var ekkert sem bannaði Jean Marc Bosman að finna sér nýjan vinnuveitanda – hvaða félag sem honum þóknaðist og vildi ráða hann til starfa til að æfa knattspyrnu eða hvað annað sem er. Bæði honum og félaginu voru ljósar þær reglur sem giltu á þeim vettvangi sem Bosman var ætlað að starfa, þ.m.t. hlutgengisreglur. Það að leikir félagsliðs hans myndu tapast ef vinnuveitandinn kysi að etja honum gegn tilteknum hópi annarra leikmanna hefur að mínu mati ekkert með mannréttindi hans að gera né atvinnuréttindi. Það varðar hinsvegar innri hlutgengismál frjálsra félagasamtaka. Þau samtök hafa aldrei bannað Jean Marc Bosman að gera atvinnusamning við einn eða annan, hvort sem það er til að slá grasið á keppnisvellinum eða leika knattspyrnu á honum. Atvinnusamningur felur í eðli sínu að innt er af hendi vinna gegn greiðslu endurgjalds. Ekkert kom í sjálfu sér í veg fyrir það. Hér er á ferðinni mikill misskilningur, eða eins og einhver orðaði það svo skemmtilega “víðáttumikil vanþekking”. Hver er annars munurinn á því að banna leikmanni að “sinna sínu starfi” vegna leikbanns sem ekki hefði valdið honum viðurlögum í almenna réttarkerfinu, t.d. aga- eða lyfjabrots, fremur en að viðkomandi leikmaður uppfylli ekki reglur hreyfingarinnar um hlutgengi? Á þessu tvennu er að mínu mati enginn eðlismunur. Hafa ber í huga að t.d. innan körfuknattleikshreyfingarinnar í Evrópu þá hefur Bosman dómurinn verið látinn gilda með víðtækari hætti en almenn lög gera ráð fyrir, þ.e.a.s. dómurinn er kveðinn upp af Evrópudómstólnum og gildir því sem slíkur einungis innan ríkja Evrópska Efnahagssvæðisins. FIBA hefur þó í Evrópu heimfært sömu reglur fyrir allar 50 aðildarþjóðir FIBA í Evrópu. Þetta byggir á frjálsri og meðvitaðri ákvörðun þings sambandsins, eftir ítarlegar umræður. Meginrökin voru þau að ekki væri um jafnrétti að ræða milli evrópskra félagsliða innan EES og liða utan EES í Evrópukeppnum félagsliða. Liðin innan EES gátu haft innanborðs leikmenn af öllu svæðinu, en liðin utan EES gátu aðeins valið úr leikmönnum frá sinni þjóð, auk tveggja erlendra leikmanna. Bosman dómurinn gildir sem niðurstaða í dag, og á því byggir íþróttahreyfingin. Ég hygg hinsvegar að niðurstaða dómstólsins yrði vart sú sama í dag, þrátt fyrir það fordæmi sem sett var með Bosman dóminum. Ekki endilega vegna breyttra lagareglna, heldur e.t.v. fremur vegna þess að menn hafi gert sér grein fyrir því hversu óeðlileg niðurstaðan er með framkvæmdinni í kjölfarið. Nauðsynlegt er að taka fram að framangreind niðurstaða mín er - eins og sagði í upphafi pistilsins - byggð á lögfræðilegum hugleiðingum og íþróttapólitískum sjónarmiðum. Felur niðurstaðan ekki á nokkurn hátt í sér tilvísun til þess hvort undirritaður sé fylgjandi eða andvígur því fyrirkomulagi sem Bosman dómurinn hefur leitt til. Málið snýst hinsvegar e.t.v. um það hvort eðlilegra hefði þá verið að ná fram slíku fyrirkomulagi með meðvitaðri ákvörðunartöku hinna frjálsu samtaka sem íþróttahreyfingin er heldur en þvinguðum dómi innan almenna samfélagsins. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ |