S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
|||||
3 |
4 |
5 |
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
18.2.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Réttarkerfi íþróttahreyfingarinnar
Í fyrri pistlum hefur verið fjallað um ýmsar einingar innan hreyfingarinnar, s.s. héraðssambönd og íþróttabandalög, samskipti þeirra við sérsambönd og innbyrðis tengsl gagnvart yfirstjórninni hjá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands. Reifuð hefur verið sú flókna mynd sem skapaðist við það þegar sérsambönd voru stofnuð smám saman á síðustu öld, með verkefni sem að ýmsu leyti voru þvert á ríkjandi héraðsskilgreindar einingar. Fram á síðustu ár hafði þetta skapað glundroða við lausn ágreiningsmála. Til staðar voru fjölmörg dómsstig þessara eininga, og ekki ávallt ljóst hvar höfða átti mál. Ef tekið er dæmi um ólöglegan leikmann í leik þá voru uppi ýmis sjónarmið um það hvar höfða ætti málið, en þau félög sem aðild áttu að leiknum voru t.d. bæði aðilar að héraðssamböndum á sínu svæði, en leikurinn var undir yfirstjórn og skipulagningu viðkomandi sérsambands. Í sjálfu sér gat svo leikurinn sjálfur farið fram á hlutlausum leikvelli, sem jafnvel gat flækt málið enn frekar. Til að flækja þessa mynd enn frekar var gert ráð fyrir s.k. sérráðsdómstólum og sérdómstólum, að ógleymdum sjálfum íþróttadómstóli ÍSÍ sem þó óneitanlega hafði sérstöðu í því að vera skilgreindur sem æðsti áfrýjunardómstóllinn. Að lokum má í þessari upptalningu nefna einstakar úrskurðarnefndir innan eininga hreyfingarinnar sem hafa endanlegt úrskurðarvald, s.s. aganefndir. Verður vikið að því síðar. Ef málið var höfðað fyrir einum dómstóli þá vaknaði jafnframt spurning um það hvert skjóta ætti niðurstöðu málsins til áfrýjunar. Hér skapaðist gjarnan sú flækja að allir dómstólarnir voru fjölskipaðir, gjarnan með jafnmörgum dómurum. Ekkert ferli var til staðar sem tryggði vandaðri málsmeðferð á áfrýjunarstigi – jafnvel má færa rök fyrir því gagnstæða, einkum ef málefni voru á sérhæfðu sviði einstakrar íþróttagreinar. Málskot og tengsl við almenna dómstóla samfélagsins er svo sjónarmið sem fjalla má um í sjálfstæðri grein. Undirritaður er einn þeirra sem barðist fyrir endurskoðun á þessu kerfi, alveg frá sameiningu Íþróttasambands Íslands og Ólympíunefndar Íslands árið 1997. Tók ÍSÍ myndarlega á þeim málum, og voru samin ný dómstólalög innan hreyfingarinnar þar sem gengið var út frá því að menn horfðust í augu við raunveruleikann. Dómstólar héraðssambanda og íþróttabandalaga voru lagðir niður, og sérsamböndum veitt heimild til að koma á fót sínu eigin dómstólakerfi eða nýta beint dómstólakerfi ÍSÍ ella. Dómstólakerfi ÍSÍ var einfaldað og t.a.m. fer einungis einn dómari nú jafnan með mál á fyrsta dómsstigi. Var þetta mikil réttarbót. Þótt með þessu hafi dómstólakerfi íþróttahreyfingarinnar verið einfaldað verulega og fært nær því fyrirkomulagi sem tíðkast í almennu samfélagi þá eru ennþá ýmis sérkenni á heildarkerfi hreyfingarinnar. Ber þar hæst hagsmunamat gagnvart kostnaði og nauðsyn á skjótri úrlausn mála. Mun ég skýra þetta nánar. Segja má að dómarar á leikvelli séu í sjálfu sér “fyrsta dómsstig” í mörgum málum. Ákvarðanir þeirra geta orðið orsök dómsmála innan íþróttahreyfingarinnar. Það er ekki auðvelt að vera dómari t.d. í boltagreinum þar sem taka þarf endanlega ákvörðun með afar skjótum hætti undir gríðarlegri pressu leikmanna og áhorfenda. Ekki er svigrúm til rökræðna, málflutnings eða málalenginga. Fyrir fáeinum árum tók ég dæmi á formannafundi ÍSÍ í tengslum við umfjöllun um vandaða málsmeðferð, andmælarétt og jafnvel réttindagæslu mannréttinda í þáverandi kerfi. Dæmi mitt snerist um knattspyrnuleik. Dæmd er aukaspyrna í leik. Það eru 30 þúsund áhorfendur á vellinum. Fyrirliði hins brotlega liðs mótmælir aukaspyrnunni. Dómarinn stöðvar leikinn, og komið er á fót fjölskipuðum dómstóli í bakherbergi. Fram fer vitnaleiðsla, skoðun sönnunargagna s.s. sjónvarpsupptöku og síðan munnlegur málflutningur. Ferlið tekur 2 ½ klst. og hálftíma síðar hefur dómstóllinn komist að niðurstöðu. Aukaspyrnan skal tekin. En hvað gerist? Jú, fyrirliðinn kemur á ný til dómarans og kveðst vilja áfrýja. Enn þarf nýtt ferli að fara í gang og áhorfendur eru nú orðnir óþolinmóðir, enda farið að rigna. Áfrýjunardómstóllinn þarf að fá skjalfestar vitnaleiðslur o.fl. úr undirrétti og tekur málið nú mun lengri tíma. En viti menn, einungis 4 klst. síðar hefur áfrýjunardómstóllinn komist að þeirri endanlegu niðurstöðu að aukaspyrnan skuli tekin. Ákvörðun dómarans í upphafi hafi verið rétt. Eflaust yrðu málsvarar “hins fullkomna réttlætis” ánægðir með þetta fyrirkomulag, þótt án efa væru einhverjir í þeirra hópi sem hefðu viljað fresta leiknum um viku til viðbótar til þess að fá skorið úr því fyrir alþjóðlegum dómstóli hvort brotið hafi verið á mannréttindum aðila. En ég hygg að flestir sjái fáránleikann í þessu þó öfgakennda dæmi, en það endurspeglar að nokkru þau viðfangsefni sem réttarkerfi íþróttahreyfingarinnar þarf að taka mið af. Málið er nefnilega það að samhengi þarf að vera á milli réttarkerfisins og hagsmuna þess samfélags sem það á að þjóna. Hagsmunir af skjótri málsmeðferð og litlum tilkostnaði eru afar ríkir innan íþróttahreyfingarinnar. Nýjustu hugmyndir lúta að því að auka verulega notkun t.d. sjónvarpsupptaka við dómgæslu í leikjum. Persónulega vara ég við slíkum hugmyndum, þó ég vilji ekki útiloka slíkt í öllum tilvikum fortakslaust. Ég er reyndar einn þeirra með svo gamaldags hugsun að vilja hafa sjarmann af mistökum dómara sem hluta af leiknum sjálfum. Engin myndavél eða áfrýjunardómstóll getur með heildstæðum hætti metið það sem á undan er gengið í kappleik, þau orð sem hafa fallið, þær aðvaranir sem hafa verið gefnar eða samræmi í mati dómara á einstökum þáttum leiksins. Síðan vakna upp spurningar um gæði upptökunnar, sjónarhorni og jafnvel mismunun á því hvort leikur er tekinn upp eða ekki. Það er einfaldlega of margt óljóst í þessu til þess að ég geti fallist á slíkar hugmyndir gagnrýnislaust. Svo er þetta líka bara leikur, eða hvað? Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ. |