S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
|||||
3 |
4 |
5 |
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
12.2.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Stjórnkerfi íþróttahreyfingarinnar
Það er ekki von að almenningur skilji þetta kerfi íþróttafélaga og fjölmargra deilda þeirra, íþróttabandalaga og héraðssambanda, sérsambanda og sérráða. Sumar einingar eru svæðisbundnar en aðrar – jafnvel með sömu verkefni – eru tengdar einstökum greinum. Ég hygg reyndar að fjölmargir stjórnendur innan hreyfingarinnar sjálfrar skilji ekki þetta kerfi eða virkni þess til hlítar, og þaðan af síður ástæður þess að það þurfi að vera svona flókið. Við þetta bætast síðan einingar sem ekki eru innan vébanda ÍSÍ, og má þar sem dæmi nefna skák og bridge, ýmsar kraftaíþróttir, og síðast en ekki síst Ungmennafélag Íslands. Í sjálfu sér er ekki með nokkurri sanngirni hægt að ætlast til þess að venjulegt fólk setji sig inn í hlutverk hverrar einingar fyrir sig, innbyrðis samskipti og ástæður þess að þær eru aðskildar í svo margar einingar. Það er ekki óvarlegt að álykta að þetta flókna kerfi leiði til þess að hugarfar til fjárveitinga og styrkja verði neikvæðara. Auðvelt er að fá á tilfinninguna að fjármunir renni í flókna og óskilgreinda “hít”. Vitaskuld þekkja þeir sem starfa innan hreyfingarinnar að slíkt er ekki tilfellið, hversu vel sem sömu aðilar að öðru leyti þekkja til samsetningar stjórnkerfisins sem slíks. Ég hygg að það væri öllum aðilum innan vébanda íþróttahreyfingarinnar hollt að móta sér skoðanir á því hvernig íþróttahreyfingin yrði best byggð upp frá grunni. Ef unnt væri að ýta öllu út af borðinu á svipstundu og hanna nýtt stjórnskipulag í ímynduðum hugarheimi, algerlega án tillits til núverandi stofnana íþróttahreyfingarinnar – hvernig myndi það líta út? Án efa ekki eins og það kerfi sem við búum við í dag. Annað einkenni stjórnkerfis íþróttahreyfingarinnar er sjálfboðaliðsstarfið. Yfirgnæfandi fjöldi stjórnenda innan hreyfingarinnar sinnir þeim störfum utan síns reglulega vinnutíma, jafnan algerlega án endurgjalds – og ber reyndar oftar en ekki umtalsverðan kostnað af þessu “áhugamáli” sínu. Á sama tíma og hugsjónin að baki sjálboðaliðsstörfunum er sá drifkraftur sem knýr starfsemi íþróttahreyfingarinnar áfram þá er hún jafnframt akkilesarhæll hreyfingarinnar. Það er sama hversu mikinn metnað eða stóra hugsjón menn kunna að hafa fyrir hönd hreyfingarinnar, þá er þetta áhugamál sem menn sinna ekki fyrr en að afloknum erfiðum vinnudegi. Óhjákvæmilega er tími stjórnenda því takmarkaður, og er oftar en ekki tekinn frá fjölskyldu og öðrum áhugamálum. Þetta veikbyggða innra stjórnkerfi hreyfingarinnar leiðir svo aftur til þess að hreyfingin er ekki eins vel í stakk búin til þess að keppa við ýmsar aðrar stofnanir samfélagsins sem hafa á sínum snærum launaða sérhæfða starfsmenn sem sinna því sem aðalstarfi að útbreiða starfsemina og afla fjár til hennar. Sjálfboðaliðafyrirkomulagið leiðir til þess að menn staldra stutt við á þessum vettvangi, enda fer sívaxandi tími stjórnenda íþróttahreyfingarinnar í að afla fjár og leysa peningaleg vandamál fortíðar, nútíðar og framtíðar. Þeir aðilar sem endast í störfum fyrir íþróttahreyfinguna eru þá yfirleitt álitnir nokkurskonar sérvitringar sem dagað hafa uppi í steinrunninni afstöðu til félagsstarfs. Undirritaður er ef til vill í þeim hópi. Það er reyndar fróðlegt að velta fyrir sér mismunandi hvötum einstaklinga til þess að starfa í þágu íþróttahreyfingarinnar. Ekki er það vegna peninga. Ekki er það vegna þjóðfélagsstöðu eða þess að það þyki “fínt”. Ekki er það vegna skorts á afþreyingarmöguleikum innan samfélagsins. Ekki eru það völd. Ekki er það vegna almenns þakklætis skjólstæðinga hreyfingarinnar. Algengasta “orsök” þess að fólk fer að starfa innan íþróttahreyfingarinnar er eflaust í upphafi að taka þátt í félagsstarfi barna sinna. Ánægjulegur félagsskapur og þjálfun í félagsstarfi hefur eflaust og vonandi orðið einhverjum stjórnendum til framdráttar. Eflaust eru til þeir stjórnendur sem meðvitað eða ómeðvitað hafa komið til starfa í hreyfingunni til þess eins “að láta gott af sér leiða”. Slíkir þátttakendur eru afar verðmætir, einkum ef þeir endast vegna ánægjulega félagsskaparins. Það er skoðun undirritaðs að forsendur þátttöku stjórnenda íþróttahreyfingarinnar skipti máli. Það getur verið hættulegt að fá inn í hreyfinguna aðila sem ætla sér að nýta sér stjórnunarstörfin til eigin feriluppbyggingar, og má þar sem dæmi nefna atorkusama menn sem vegna framtíðarhugmynda sinna um pólitískan feril eða frama í atvinnulífi hafi af ábyrgðarleysi lagt starfsemi hreyfingarinnar að veði til slíks frama. Eins mikið og íþróttahreyfingin þarf á stjórnendum og sjálfboðaliðum að halda þá þarf það að vera á forsendum hreyfingarinnar. Menn mega ekki missa sjónar af tilgangi hennar og skjólstæðingum – grasrótinni. Vandamál íþróttahreyfingarinnar í dag er hinsvegar sú staðreynd að sjálfboðavinna er ekki lengur í tísku, kröfur hafa aukist samhliða versnandi fjárhagslegu umhverfi, og íþróttir eru vegna hins veika stjórnskipulags að verða undir í samanburði við aðrar stofnanir samfélagsins. Ef ekki verður breyting á þá er sannarlega um varanlegan vanda hreyfingarinnar að ræða. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ. |