© 2000-2022 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
   
4.2.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Körfubolti og handbolti
Jæja, þá er Heimsmeistarmótinu í handknattleik lokið í Portúgal. Íslenska landsliðið stóð sig þar með prýði, og lauk keppni í 7. sæti. Við óskum þeim til hamingju með árangurinn og Ólympíusætið. Ég er þó þeirrar skoðunar að þótt menn segjast hafa náð markmiðum sínum þá hafi forystumenn liðsins og flestir landsmenn innst inni litið mun hærra að þessu sinni – enda lið okkar óvenju vel skipað og möguleikar á verðlaunapalli sjaldan jafn raunhæfir.

Ég trúi því og vona að íslenskir körfuknattleiksunnendur hafi – sem og Íslendingar allir – í einlægni fagnað sigrum Íslands í Portúgal. Þótt um samkeppnisgrein sé að ræða á innlendum vettvangi þá hljóta allir landsmenn engu að síður að sameinast um alla leikmenn í íslenskum landsliðsbúningi hvar og hvenær sem er í keppni þjóða. Undiritaður er a.m.k. í þeim hópi. Um samkeppni íþróttagreinanna vil ég frekar að góður árangur handbolta leiði einfaldlega til þess að við spýtum í lófana og bætum okkar eigin árangur og stöðu fremur en að aðrar greinar taki dýfu á kostnað þjóðarstoltsins á alþjóðlegum vettvangi.

Eflaust hafa þó ýmsir körfuknattleiksunnendur verið orðnir þreyttir á umfjölluninni um mótið í Portúgal. Undirritaður telur að menn verði að skilja áhuga fjölmiðla þegar þjóðin undirgengst slíkt „æði“ sem raun ber vitni, en verður þó að lýsa vissum vonbrigðum sínum með öfgakennda umfjöllun einstakra fjölmiðla. Vissulega verðskuldaði keppnin mikla umfjöllun, og vissulega voru fjölmiðlarnir með fulltrúa sína á staðnum sem þurftu að réttlæta veru sína þar, en engu að síður má ekki gleyma því að á sama tíma hélt íþróttalífið áfram hér á landi í öðrum íþróttagreinum. Eitthvað mátti vera öfganna á milli.

Þetta var þó útúrdúr. Ætlunin hér var lauslega að bera saman handbolta og körfubolta sem íþróttagreinar. Flestir gera sér grein fyrir stærðarmun þessara greina á heimsvísu, og mótmælir því sannarlega enginn að körfuknattleikur með sínar 450 milljónir iðkenda í öllum heimsálfum er ein stærsta og útbreiddasta íþróttagrein í heimi, já reyndar stærri en knattspyrna ef miðað er við fjölda iðkenda og aðildarsambanda. Það er því afar erfitt fyrir litla þjóð að ná viðlíka árangri.

Samanburður á árangri Íslands í mismunandi íþróttagreinum getur verið erfiður, og getur snúist í senn um stærð greinarinnar, dreifingu á milli heimsálfa og jafnvel keppnisfyrirkomulag. Þegar íslenska fótboltalandsliðið stóð í Frökkum eða þegar íslenska körfuboltalandsliðið var nærri því að leggja Króata þótti ýmsum árangurinn ekki njóta verðskuldaðrar athygli, t.d. í samanburði við handbolta. En á meðan handbolti er ekki jafn stór og útbreidd íþróttagrein og körfubolti og fótbolti, og á meðan íslenskur körfubolti eða fótbolti stendur ekki meðal t.d. 10 efstu þjóða í heimi, verður samanburður ávallt líkt og epli við appelsínur. Á meðan svo er verður íslenska handboltalandsliðið að njóta vafans og menn eiga í sjálfu sér ekki að gera annað en að fagna þeim árangri sem þeir hafa náð fyrir Íslands hönd.

Engum hefur í sjálfu sér komið til hugar að fullyrða að í körfubolta og fótbolta hér á landi séu lakari afreksmenn eða minni íþróttamenn en í handbolta.

Það er athyglisvert að handbolti hefur á undanförnum árum verið að þróa íþróttina í átt að körfuboltanum. Þetta er eflaust sagt af nokkru yfirlæti, en engu að síður er fróðlegt að skoða reglubreytingar á borð við leikhlé og tafarlausa miðju eftir skorað mark, auk umræðu um reglur sambærilega við skotklukku í körfubolta eða “þriggja stiga reglu”. Þetta hefur sannarlega gert handboltann hraðari og skemmtilegri að hætti körfuboltans. Körfubolti hérlendis innleiddi úrslitakeppni og erlenda leikmenn – hvað svo sem mönnum annars finnst um þá þróun – og handbolti fylgdi í kjölfarið. Jafnframt kynnt körfubolti sérstakar reglur hérlendis varðandi sérreglur og útbúnað fyrir yngstu iðkendurna – minnibolta – og í kjölfarið voru sambærilegar reglur innleiddar í handbolta. Körfubolti innleiddi notkun ítarlegrar tölfræði við umfjöllun, og handbolti sem aðrar íþróttagreinar hafa talsvert reynt að þróa slíkt í kjölfarið.

Nýlega heyrði ég athyglisverða kenningu um árangur íslenska handboltalandsliðsins, en hún er sú að annarsvegar hafi Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari innleitt þá aðferð sem lengi hefur verið þekkt í körfubolta, en það er að í upphafi hraðaupphlaups sé boltanum þegar í stað komið í hendurnar á þeim leikmanni sem hefur bestu boltameðferðina, yfirsýnina og sendingarnar, fremur en að hugsa eingöngu um að fara sem fljótast upp völlinn. Hér á ég vitaskuld við Ólaf Stefánsson, sem við körfuboltamenn öfundum handboltann sannarlega og heiðarlega af (við eigum þó Jón Arnór bróður hans innan okkar vébanda).

Auðvitað má jafnframt á léttari nótum benda á að jakkafataklæddir þjálfarar, tilkomumiklar ljósakynningar leikmanna, leikmenn sem gefa “high five” o.s.frv. eru ánægjuleg áhrif frá Bandaríska NBA-körfuboltanum. Nú, svo er það nýjasta tískan að hafa boltann sjálfan appelsínurauðan eins og körfubolta. Þetta fer að hljóma óþægilega líkt samruna.

Ég tel þó að handbolti geti enn lært af ýmislegt af körfubolta, og vil ég þar einkum nefna atriði á borð við blokkeringar („screen“ og „pick and roll“) og varnarhreyfingar (þ.e. fótavinnu). Mér finnst ennþá löstur á handboltanum að menn geti hagnast á broti. Ef til vill er þetta vegna þess að reglur handboltans bjóða ekki upp á það að góð varnarvinna sé verðlaunuð. Þá hlýtur ósamræmi varðandi lengd sókna að vera mönnum áhyggjuefni innan handboltans.

Við innan körfuboltans erum stolt af okkar íþrótt. Hún er hröð og flókin, og e.t.v. þess vegna sem framangreind þróun innan handboltans á sér stað. Einhver orðaði það svo að körfuboltinn sé eins og framhaldsnám af handboltanum, þ.e. að leið þekkingarinnar endi þar sem vegur skilningsins hefst. Ekki skal ég um það segja, en þetta er án efa sagt í glettni. Sjálfur byrjaði ég ungur að æfa handbolta, og stundaði hann reyndar lengur en körfubolta (þetta vissu e.t.v. ekki margir).

Innan körfuboltahreyfingarinnar hafa hinsvegar komið fram neikvæðar athugasemdir á borð við samanburð handbolta við iðkendafjölda og áhuga í rottuhlaupi, Ííslandsmót í bakhrindingum o.s.frv. Slíkar samlíkingar, sem ætlað er að vera niðurlægjandi, eru okkur körfuknattleiksunnendum til minnkunar, og telst ekki á nokkurn hátt fela í sér málefnalegan samanburð. Við ættum frekar að líta til þess sem jákvætt er í okkar eigin íþróttagrein og keppa heiðarlega við handbolta um hylli þjóðarinnar og árangur á alþjóðavettvangi.

Ég vil að lokum senda Guðmundi Ingvarssyni formanni HSÍ og hans fólki hamingjuóskir með gott starf. Þar er duglegt fólk að inna prýðileg störf af hendi. Ég veit af eigin reynslu að þeirra þáttur er mikilvægur en vanmetinn og gleymist sjálfsagt hjá mörgum handboltaunnandanum í öllu fárinu.

Eftir sem áður bjóðum við öllum handboltaunnendum að koma og kynnast unaði og leyndardómum körfuboltans.

Ólafur Rafnsson,
formaður KKÍ.


Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Hreiðar Hreiðarsson leikmaður Njarðvíkur heldur aftur af Ívari Webster leikmanni Hauka í bikarúrslitaleik liðanna 1986.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið