© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
28.1.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Iðkendur og keppendur
Nær allir Íslendingar stunda íþróttir með einum eða öðrum hætti, hvort sem um er að ræða skipulega eða ókerfisbundna iðkun – meðvitað eða ómeðvitað. Barn sem er úti að hjóla, eldri hjón sem eru úti að ganga, einstaklingur í sundlaug eða hestamaður í útreiðartúr. Öll eru þau meira og minna að stunda íþrótt í vissum skilningi þess orðs. Jafnvel ólympíuíþróttagrein.

Hinsvegar er jafnljóst að langt getur verið á milli þeirra forsendna sem sömu einstaklingar leggja í þessa hreyfiþörf eða tómstundagaman. Í mörgum tilvikum byggist iðkunin á þörf fyrir hreyfingu, tómstundagaman, ánægju eða afþreyingu – en í örum tilvikum er um að ræða afar meðvitaða og skipulega uppbyggingu til þess að ná árangri í keppni.

Innan íþróttahreyfingarinnar geta þessar ólíku forsendur haft nokkuð gildi, og í sumum tilvikum jafnvel skipt talsverðu máli fjárhagslega fyrir íþróttafélög og aðra aðila innan íþróttaheyfingarinnar. Fjöldi skráðra þátttakenda getur ráðið mismunandi skiptingu lottótekna eða óbeinum tekjum á borð við fjármagnsaðila sem líta til auglýsingagildis þess fjölda sem stundar viðkomandi íþróttagrein.

Hefur þetta falið í sér þekktar deilur innan íþróttahreyfingarinnar, þótt ekki hafi farið hátt um slíkt meðal almennings. Skilgreining skráðra þátttakenda er því nokkuð sem skiptir máli.

Hvað myndi gerast ef Sundsamband Íslands myndi skrá alla sem sækja sundstaði, Skíðasamband Íslands alla sem renna sér í skíðabrekkum landsins, Danssamband Íslands myndi samviskusamlega skrá niður gesti diskóteka landsins, Frjálsíþróttasamband Íslands myndi sitja fyrir göngugörpum á Ægissíðunni o.s.frv. Allt eru þetta í sjálfu sér íþróttaiðkendur í viðkomandi íþróttagreinum.

Hið sama má í sjálfu sér segja um þá sem leika t.d. knattspyrnu og körfuknattleik sér til heilsubótar í íþróttahúsum landsins, utan hinna skipulögðu æfinga íþróttafélaga. Ég þekki slíkt af eigin reynslu að þar er um ótrúlegan fjölda iðkenda að ræða – en eru ekki formlega skráðir innan íþróttahreyfingarinnar. Sjálfur stunda ég slíkt, og einnig margar af fyrrnefndum íþróttagreinum á almenningsgrundvelli, s.s. sund, golf, hjólreiðar með börnunum o.s.frv.

Persónulega myndi ég án efa treysta mér til þess að ná langt í Íslandsmóti í fagurfræðilegum stíl hjólreiða blárra 10 gíra “karlhjóla” í flokki barnastóla á bögglabera, svo framarlega sem ekki fari hátt um keppnina og fáir ef nokkrir tækju þátt. En hvort það myndi afla mér fyrirsagna í fjölmiðlum eða fleyta mér langt í vali um íþróttamann ársins skal hinsvegar ósagt látið.

Málið snýst e.t.v. um skilgreiningu íþrótta innan vébanda skipulagðrar hreyfingar, og þá hagsmuni sem slík skilgreining felur í sér. Skipulögð iðkun boltaíþrótta innan íþróttafélaga, undir handleiðslu þjálfara og með keppni að markmiði er e.t.v. eitt mjög skýrt dæmi um þá skilgreiningu sem almennt er viðurkennd sem óumdeildur hluti af íþróttahreyfingunni.

Vandamálið er að skilgreiningin er almennt ekki svo auðveld sem í boltagreinunum, og eflaust má finna dæmi um einingar innan íþróttahreyfingarinnar sem misnota sér túlkun skilgreiningar sem tækifæri til þess að “auka” iðkendafjölda sinn í þágu fyrrgreindra hagsmuna innan hreyfingarinnar. Þetta þarf að skilgreina betur. Ef t.d. körfuknattleikur væri tekinn sem dæmi þá væri vitaskuld unnt að auka iðkendafjölda verulega með því að fara um bæinn og skrá niður alla þá sem eru að leika sér utandyra í körfuknattleik við bílskúra og á skólavöllum, skipulega leita uppi alla “hobbýhópa” í íþróttahúsunum, fylgjast með öllum firmakeppnum íþróttafélaganna eða götuboltamótum sem algeng eru á sumrin. Slíkt myndi hinsvegar ekki gefa glögga mynd af því sem almenningur telur vera keppendur í körfuknattleik.

Persónulega stundaði ég t.d. í nokkur ár badminton fyrir hálfum öðrum áratug eða svo ásamt hópi vina. Á þeim tíma veltum við ekki mikið vöngum yfir því að gjaldið sem við greiddum fyrir leigu keppnisvallarins var ávallt tvískipt, þ.e. samhliða leigu vallarins fengum við kvittun fyrir félagsgjöldum í viðkomandi félagi. Ekki veit ég hvort ég var – eða er jafnvel enn þann dag í dag – formlega skráður sem iðkandi þeirrar ágætu íþróttar, en ef svo er þá verður slíkt að teljast afar óeðlilegt með vísan til fyrrgreindrar samlíkingar við notkun annarrar íþróttaaðstöðu annarra íþróttagreina.

Það er nauðsynlegt fyrir íþróttahreyfinguna að koma á fót skilgreiningu iðkenda og keppenda þar sem greinarmunur er gerður á formlegri landskeppni og þátttöku með afreksmarkmið annarsvegar og almennri iðkun íþrótta hinsvegar. Undir almenna þátttöku myndi ég vilja fella þátttöku í firmakeppnum, innanfélagsmótum og óformlegum keppnum sem er einungis bundin við slíkar keppnir án tengsla við skipulegar æfingar.

Án slíkrar skilgreiningar fáum við aldrei marktækar upplýsingar um umfang og eðli íþróttahreyfingarinnar. Með slíkum skilgreiningum, samhliða því að íþróttagreinar séu hvattar til þess að halda skrá yfir almenna iðkendur á grundvelli ánægju og heilsubótar, eru fremur tækifæri til þess að sýna með raunhæfum hætti fram á það hversu útbreidd íþróttaiðkun raunverulega er á Íslandi.

Án slíkrar skilgreiningar mun jafnframt líðast mikið ójafnræði íþróttagreina, og deilur um óheiðarleika og mismunun munu fá byr undir báða vængi. Íþróttahreyfingin byggir mikið á reglum um jafna aðstöðu þátttakenda og siðferði sem ætlað er að koma í veg fyrir óíþróttamannslegt svindl. Þetta ber okkur að virða í hvívetna.

Á síðasta íþróttaþingi ÍSÍ var lögð fram tillaga sem greinilega var ætlað a.m.k. að skapa umræðu um þessi málefni. Er það vel. Vonandi ber okkur gæfa í sameiningu til þess að búa okkur til sameiginlegar leikreglur byggðar á jafnræði – og umfram allt að fara eftir þeim.

Ólafur Rafnsson.
Formaður KKÍ.



Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Ívar Ásgrímsson og Ólafur Rafnsson úr Haukum í baráttu um frákast við Axel Nikulásson úr Keflavík.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið