© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
   
21.1.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - SKILGREINING ÍÞRÓTTAGREINA
Í kjölfar hugleiðinga um sjónarmið við val á íþróttmanni ársins getur verið fróðlegt að velta fyrir sér fleiri skilgreiningarforsendum. Ekki er óalgengt að talað sé um “boltagreinarnar” sem stærstu og vinsælustu íþróttagreinar landsins, og þá yfirleitt átt við körfuknattleik, knattspyrnu og handknattleik. Reyndar má það til sanns vegar færa, en hinsvegar koma til aðrar íþróttagreinar sem skv. skráðum iðkendafjölda blanda sér þar inn á milli, s.s. golf og hestaíþróttir.

Eftirfarandi pistil ber reyndar e.t.v. fremur að líta á til gamans en vísindalegs sannleiks varðandi hugleiðingar undirritaðs um skilgreiningu íþróttagreina í flokka. Er þar um að ræða ýmsar mótsagnir og í sjálfu sér vangaveltur um það hvort tilekin grein skuli flokkast undir íþróttir yfirleitt. Bið ég menn því að taka eftirfarandi fremur til gamans.

Boltagreinar hafa þótt nokkuð hefðbundin skilgreining hér á landi. Þar er um að ræða liðsíþrótt þar sem félög tefla fram hópi leikmanna sem byggja árangur sinn á liðsheild. Þessi skilgreining hefur verið nokkuð óumdeild, og myndu falla undir hana t.d. körfubolti, fótbolti, handbolti og blak. En hvað með t.d. íshokkí? Pökkurinn er vissulega fjær bolta en t.d. tennis- eða golfbolti, en engu að síður hlýtur leikurinn sjálfur, umgjörð hans og reglur að liggja nær “boltaíþróttum”.

Og svo eru það hinar s.k. “einstaklingsgreinar”. Frjálsar íþróttir eru án efa hin hreina upphaflega ímynd íþrótta, en því til viðbótar má nefna t.d. skíðaíþróttir, sund, tennis, hjólreiðar og fimleika. Þessar íþróttagreinar eiga það sameiginlegt að krefjast afar mikillar tækni samhliða nauðsynlegu líkamlegu atgervi. Enginn velkist í vafa um að þessar greinar teljast allar til grundvallaríþróttagreina.

Sumar íþróttagreinar krefjast tækjabúnaðar - vélbúnaðar eða tæknibúnaðar - sem nauðsynlegra hjálpartækja. Í þeim hópi má t.d. nefna hestakappreiðar, kappakstur og annað mótorsport. Árangur í þessum greinum er óhjákvæmilega samtvinnaður þeim “búnaði” sem notaður er, þrátt fyrir að líkamlegt atgervi keppendanna sem slíkra skipti einnig miklu máli. Óvíst er hvort Michael Schumacher yrði heimsmeistari á hvaða bifreið sem er, og jafn óvíst hvort algerlega væri sama hvaða hest Sigurbjörn Bárðarson sæti – þótt auðvitað beri að líta til þess að sömu íþróttamenn eru sem slíkir framúrskarandi, og ná betri árangri en aðrir miðað við sama “búnað”. Engu að síður má að þessu leyti setja þessar íþróttagreinar í sjálfstæðan flokk m.t.t. “búnaðar”.

Einn flokkur gæti kallast bardagaíþróttir, en undir hann falla keppnisgreinar sem byggja á líkamlegu einvígi tveggja (eða fleiri) einstaklinga. Undir þennan flokk myndu falla hinar fjölbreyttu útgáfur austurlenskra bardagaíþrótta, skylmingar, auk hnefaleika og hinnar rammíslensku þjóðaríþróttar – glímu.

Svo eru það greinarnar sem sumir telja til tómstundagamans, en krefjast engu að síður tækni og nákvæmni. Þar má t.d. nefna golf, pílukast, skotfimi, snóker og keilu. Margir hafa einhverju sinni prófað framangreinar íþróttagreinar, en fæstir hafa iðkað þær með íþróttalega keppni að markmiði. Í huga flestra eru þær ánægjulegt tómstundagaman, en eiga það þó sameiginlegt að njóta mikilla vinsælda í heiminum sem alvöruíþróttagreinar. Munurinn þarna er e.t.v. fólginn í því hvort menn iðka viðkomandi greinar sem iðkendur eða keppendur.

Enn má nefna sjálfstæðan flokk sem heitið gæti “huglægar íþróttagreinar”, en þar reynir umfram allt á skynsemi, þekkingu og aðra andans leikfimi. Í þessum hópi ber hæst “íþróttir” á borð við skák og bridge, en þótt margir telji slíkt ekki til íþrótta sem slíkra – og eiga ekki aðild að Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands - en engu að síður virðist óumdeilt að fjalla um afreksmenn á þessu sviði innan íþróttafrétta fjölmiðla.

Þegar fjallað er um huglægar íþróttagreinar þá vaknar vitaskuld spurning um það hvort allt sem byggir á keppni sem slíkri teljist til íþrótta. Hvað með t.d. spurningakeppni, tónlistarkeppni eða fegurðarsamkepppni. Allt byggir þetta að nokkru á tæknilegum hæfileikum og líkamlegu atgervi þar sem niðurstaða snýst um keppni sem velur “þann besta” og/eða byggir á huglægu mati áhorfenda eða “dómara”, og á þeim grundvelli er jafnframt ekki langt á milli íþróttagreina á borð við t.d. dans, þolfimi eða fimleika.

Talsvert langur vegur er á milli annarsvegar huglægs mats dómara á fegurð, erfiðleika eða öðrum matskenndum skilyrðum og hinsvegar hlutlægra úrslita í kúluvarpi, boltaíþróttum eða skíðagöngu. Þar gildir það eitt hver er sigurvegari – fremstur, eða betri í keppni tveggja eða fleiri aðila. Í slíkum tilvikum geta menn endalaust deilt um það hver sýndi bestu tilþrifin eða átti fagurfræðilega bestu þátttökuna. Hlutlæg skilyrði um árangur ráða því ein hver telst sigurvegari.

E.t.v. má endalaust velta upp slíkum skilgreiningum, en að lokum þá vil ég ítreka að framangreint er fyrst og fremst sett fram til gamans og fróðleiks fremur en að teljast vísindaleg úttekt eða málefnaleg skilgreining.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.



Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá ferð A-landsliðs karla á mót á Möltu í desember 1986.  Teitur Örlygsson, Páll Kolbeinsson, Hreiðar Hreiðarsson, Einar Ólafsson, Pálmar Sigurðsson og Gunnar Þorvarðarson í einni af hinum frægu gömlu rútum á Möltu.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið