S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
||
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
31 |
14.1.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Sjónarmið um val á íþróttamanni ársins
Við val á íþróttamanni ársins er félagsmönnum Samtaka íþróttafréttamanna fjölbreyttari vandi á höndum en gróska í íslensku íþróttalífi og fjölgun afreksmanna á alþjóðlegum vettvangi. Með vali sínu hafa þeir kastast inn í hringiðu erfiðra skilgreininga mismunandi íþróttagreina. Hvernig á t.d. að bera saman árangur einstaklingsíþróttamanns og kappliðs í hópíþrótt? Hvernig á að meta huglæga mælikvarða gagnvart hlutlægum? Á alþjóðlegur árangur að ráða afgerandi atkvæðum eða getur yfirburðaárangur innanlands staðið slíku jafnfætis? Á að taka tillit til mismunar kynja? Á að taka tillit til stærðar íþróttagreinar á alþjóðavísu? Einstaklingsíþróttamenn verða – eðli málsins samkvæmt – jafnan meira áberandi en hópíþróttamenn. Þetta er einfalt að skoða hlutlægt með því að lesa lista yfir þá sem hampað hafa titlinum Íþróttamaður ársins í gegnum tíðina. Einstaklingsíþróttamenn standa ávallt og falla einir með sínum árangri. Liðsmenn hópíþrótta geta þó ráðið úrslitum um árangur, en að sama skapi þá verður aldrei í ljós leitt hvort liðið hefði náð sama árangri án þeirra. Einstaklingsíþróttamenn hafa það forskot að geta náð árangri sem skilar meti eða titli í einu afmörkuðu móti, en hópíþróttamenn verða ekki dæmdir af einum kappleik heldur árangri heils tímabils. Val hópíþróttamanns byggir því e.t.v. fremur á huglægu mati á stöðu hans innan liðsins, eða öðrum huglægum mælikvörðum á borð við það hvort hann hefur verið valinn í t.d. heimslið, hversu frægur hann er eða annað slíkt. Hvort liðið hinsvegar tapaði eða vann þarf ekki nauðsynlega að skipta máli, þótt góður árangur varpi vissulega fremur kastljósinu á einstaka liðsmenn. Það er hefð fyrir því að “leikmenn ársins” komi úr sigurliði. Þetta getur þó skapað erfiðleika í slíkum tilvikum ef liðsheildin hefur skapað sigurinn öðru fremur, og ef enginn einstaklingur hefur staðið upp úr því getur verið gagnrýnisvert að velja einhvern – t.d. fyrirliða – íþróttamann ársins sem “fulltrúa” liðsins. Með slíku vali hætta menn sér út á hálan ís. Varðandi kynjabundna skiptingu þá hefur það skref ekki verið stigið að velja aðskilda íþróttamenn ársins af hvoru kyni fyrir sig af hálfu Samtaka íþróttafréttamanna. Sérsambönd innan ÍSÍ tilnefna íþróttamann og íþróttakonu ársins í hverri íþróttagrein, og kann slíkt að skapa ósamræmi þar sem viðburðir þessir eru haldnir sameiginlega. Þetta hefur þó ekki skapað vandamál enn sem komið er. Þótt einungis þremur konum hafi hlotnast þessi heiður á 47 árum þá myndi það án efa draga að nokkru úr gildi t.d. útnefningar Völu Flosadóttur ef henni hefði ekki boðist sá kostur að standa ein á toppi titilsins íþróttamaður ársins. Þetta endurspeglar reyndar víðtækari skírskotun til samfélagsins í heild – og er ekki frekar til umfjöllunar hér. Hinsvegar leiðir þessi staðreynd hugann að mun erfiðara skilgreiningarefni, en það er mat árangurs “miðað við aðstæður”, t.d. með tilliti til stærðar íþróttagreinar á alþjóðavísu. Þetta er mun eldfimara málefni. Sem dæmi um þetta má nefna afrek fatlaðra íþróttamanna. Fyrst sú ákvörðun hefur verið tekin að hafa fatlaða íþróttamenn með í kjörinu þá hlýtur að vera afar sérstakt að sjá ekki í efsta sæti t.d. Ólaf Eiríksson með sjö Ólympíugull 1992 eða Kristínu Rós Hákonardóttur með hvert heimsmetið á fætur öðru í desember s.l. Ég hygg að hér hafi skort visst hugrekki við atkvæðagreiðsluna, og má því e.t.v. segja að um nokkurn tvískinnung sé að ræða með vali þeirra á listann yfirleitt. Það má eflaust finna íslenskan karl-stangarstökkvara sem stekkur hærra en Vala Flosadóttir, og það má eflaust finna ófatlaðan sundmann sem syndir hraðar en Kristín Rós (um hvorugt er ég þó viss). Val þeirra byggir hinsvegar á því að afrekin eru miðuð við það umhverfi sem þau eru unnin í. Þetta er án efa eitt erfiðasta skilgreiningarvandamálið við val á íþróttamanni ársins. Án þess að ég vilji lýsa sérstakri óánægju með hlut körfuknattleiksfólks í valinu í gegnum áratugina þá stendur það mér nokkuð nærri að vekja athygli á sambærilegum samanburði við körfuknattleiksíþróttina. Íþróttin er stunduð af 450 milljónum manna um allan heim, í öllum heimsálfum, og ekki á færi nema allra stærstu þjóða að ná árangri í keppni þeirra bestu. Eðlilega varð íslensk körfuknattleikshreyfing því fyrir verulegum vonbrigðum þegar Íslendingi tókst að verða fyrsta Evrópubúanum til að verða ráðinn atvinnumaður í öflugustu körfuknattleiksdeild heims, bandarísku NBA-deildinni, án þess að hafa notið verðskuldaðrar athygli við val á íþróttamanni ársins. Hér á ég vitaskuld við Pétur Guðmundsson, sem var ekki eingöngu fyrsti Evrópubúinn í deildinni, heldur lék hann um árabil í deildinni við góðan orðstír, og þar á meðal í hópi bestu leikmanna sögunnar svo sem Kareem Abdul Jabbar og Earvin “Magic” Johnson og fleiri goðsagna. Árangur hans var engin tilviljun, en því miður sannaðist í hans tilviki að fáir eru spámenn í sínu föðurlandi. Nafn Péturs Guðmundssonar er án efa mun þekktara erlendis en á Íslandi, og ef taka á tillit til þeirrar skilgreiningar á annað borð þá var það íslenskum íþróttafréttamönnum á vissan hátt til vansa hvernig hann var sniðgenginn. Lýsir það að mínu mati e.t.v. fremur vanþekkingu og skorti á alþjóðlegri yfirsýn þess tíma, fjarri því sem íslenskir íþróttafréttamenn búa yfir í nútímanum hygg ég. Þrátt fyrir gagnrýni mína á þessa fortíð vil ég reyndar að lokum taka fram að ég tel íslenska íþróttafréttamenn hafa almennt leyst flest framangreind skilgreiningarvandamál prýðilega vel, þótt vissulega megi skerpa línurnar varðandi hugtakið “bestur miðað við aðstæður”. Ágreiningur um val á íþróttamanni ársins verður líklega ávallt til staðar – líkt og með t.d. val á landsliði. Það er eðlilegt, og jafnvel má segja að það væri allt að því óeðlilegt ef svo væri ekki. Svo fremi sem slíkur ágreiningur er málefnalegur og snýst ekki um að velja “sinn mann” þá skapar hann umræðu sem gerir vart annað en að varpa ljósi á að fjöldi afburðaafreksmanna í íslensku íþróttalífi er mikill og vaxandi. Á þessu stigi segi ég því: Áfram íþróttafréttamenn. Áfram með valið á íþróttamanni ársins. Ólafur Rafnsson, formaður KKÍ. |